15.02.1982
Efri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

190. mál, almannatryggingar

Frsm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um mál þetta, sem er um breytingu á lögum um almannatryggingar og einkum það ákvæði sem er svohljóðandi:

„Hver sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenski skip eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð,“ segir í þessari lagagrein.

Það var ekki að ástæðulausu að þessi lagagrein endaði á þann veg að nánari ákvæði skyldu sett með reglugerð. Þegar til átti að taka kom í ljós að skráning sjómanna er í mjög slæmu lagi, ef svo mætti segja, og með endemum. Það kom í ljós, þegar sjómenn ætluðu að fara að afla sér þessara réttinda eða sanna þau, að skráningarskýrslur embætta höfðu víða týnst, brunnið eða eyðilagst af vatni, svo að menn áttu mjög erfitt með að sanna hversu lengi þeir höfðu verið á sjó. Þó er svo komið nú, að 192 sjómenn hafa notið þessa ákvæðis og er það vissulega vel, en vafalaust eru það færri en rétt eiga á því vegna þess að það hefur verið svo erfitt að færa sönnur á hversu lengi maður hefur verið til sjós.

Þetta ákvæði laga um aukinn rétt sjómanna hvað snertir lífeyri er komið inn í lög vegna krafna frá sjómannasamtökunum. Þau lögðu á það þunga áherslu í næstsíðustu samningum að sjómenn, sem eru orðnir 60 ára og hafa verið um 25 ár á sjó, nytu aukinna réttinda, og ríkisvaldið eða ríkisstj. féllst þá á að verða við þessum óskum, en síðan var.það staðfest hér á Alþingi. Það, sem við fjöllum um nú, er hvort fleiri geti fengið aðild að þessu. Því var borið fram það frv. sem við erum að fjalla um núna og hljóðar svo:

„Nú hefur sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brúttólestum eða af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar og er þá heimilt að úrskurða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi meðan á henni stóð.“

Þetta þýðir það, að fleiri kæmu til með að njóta þessa lífeyris, menn sem hafa verið til sjós á bátum sem ekki var skylt að lögskrá á. Þá verður vafalaust erfitt að sanna hvenær þessir menn stunduðu sjómennsku. Í reglugerð, sem ráðh. setti varðandi sönnunarbyrðina, segir að tveir „valinkunnir menn“ skuli votta að viðkomandi hafi verið þetta lengi á sjó. Ég verð að segja að ég held að það hljóti að verða mjög erfitt fyrir þessa valinkunnu menn að ganga úr skugga um hvað einhver annar hefur verið lengi á sjó vegna þess að oft er langt frá liðið. Svo getur líka komið fyrir að menn verði að votta um það sem þeir hafa ekki verið vitni að sjálfir þar sem þeir, sem voru á sjó með viðkomandi manni, eru látnir. Það eru dæmi um það.

Þessi reglugerð kemur til með að gilda fyrir það fólk sem samkv. þessum lögum fengi aukin réttindi. Ég hygg að oft verði erfitt að fá nægar sönnur á hversu lengi maður hefur verið á sjó hverju sinni. Það verður að segjast líka og kom fram í nefndinni, að það er stigsmunur á því að hafa verið á sjó í 25 ár svo til allt árið. Þeir hafa náttúrlega lagt miklu meira af mörkum en þeir sem róa á trillum og fleyta rjómann af vertíðinni, ef svo mætti segja, og stundað síðan aðra vinnu þess á milli.

Nm. töldu ekki ástæðu til annars en að samþykkja þetta athugasemdalaust, enda verði tryggt að þessir valinkunnu menn ræki störf sín af alúð og samviskusemi. Niðurstaðan er sú, að nefndin mælir með samþykki frv. eins og það liggur fyrir.