15.02.1982
Efri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa á þskj. 276, Nd.-máli. Mál þetta hefur farið í gegnum hv. Nd. óbreytt frá því sem það var lagt fyrir.

Hér er um að ræða að lögbinda 7% olíugjald og gert ráð fyrir að svo verði þetta ár, en lög þau um olíugjald, sem voru í gildi síðasta ár, féllu niður um áramótin. Olíugjald samkv. þeim var 7.5%.Með lögum nr. 92 frá 1980 var lögbundið 7.5% olíugjald og hélst síðan, eins og ég sagði, síðasta ár 7.5 %.

Frv. þetta er flutt í tengslum við fiskverðsákvörðun. Olíugjald var eitt meginumræðuefnið, bæði við fiskverðsákvörðun og reyndar ekki síður í þeim kjarasamningum sem fram fóru um sama leyti á milli sjómanna og útgerðarmanna. Krafa sjómanna var að olíugjald yrði fellt niður. Hins vegar var krafa útgerðarmanna að það héldist óbreytt.

Í kjarasamningum höfðu útgerðarmenn þann fyrirvara fyrir samþykki sínu við kjarasamninga að olíugjald yrði óbreytt á árinu 1982, Þ.e. 7.5%. Sjómenn gerðu ekki aths. við þann fyrirvara þrátt fyrir fyrri kröfu sína um að olíugjald yrði fellt niður. Við fiskverðsákvörðun, sem endanleg varð tveimur dögum síðar, varð hins vegar að samkomulagi með útgerðarmönnum og sjómönnum að mæla með 7% olíugjaldi, en ekki 7.5 %, eins og upphaflega hafði verið gert ráð fyrir í viðræðum þessara aðila. Þannig lögðu útgerðarmenn 1/2 prósentustig til skipta, að sjálfsögðu í þeim tilgangi að ná því allsherjarsamkomulagi um fiskverð sem varð 16. jan. s.l.

Þetta frv. er því flutt, má segja, að ósk hagsmunaaðila til að staðfesta þá kjarasamninga, sem gerðir voru, og það fiskverð, sem ákveðið var í beinu framhaldi af þeim.

Ég vil í þessu sambandi taka það fram, að sjómenn hafa hins vegar lagt á það ríka áherslu að olíugjald verði fellt niður í lok þessa árs. Er það einn af fyrirvörum sjómanna fyrir þeim kjarasamningum sem gengið var frá um miðjan janúar. Mér var kynntur þessi fyrirvari. Ég tók fram við sjómenn að ég væri reiðubúinn að vinna að slíku, enda kæmu menn sér þá saman um aðra leið til að tryggja afkomu útgerðarinnar. Ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á þennan fyrirvara af minni hálfu. Ég held að um leið og slíkt skref er tekið verði ekki hjá því komist að athuga afkomu útgerðarinnar. Reyndar er það skoðun mín, að inn í þá athugun eigi einnig að taka stofnfjársjóðsgjaldið.

Ég hef áður sagt við umr. um olíugjaldið að ég tel olíugjald í þessari mynd ekki vera æskilega leið. Tel ég betra að olía sé að einhverjum hluta og með ákveðnum reglum greidd af óskiptu eftir notkun, en ekki í hlutfalli við aflaverðmæti. Ég tel að í því sambandi verði einnig að taka stofnfjárgjaldið til athugunar. Þetta hefur reyndar verið gert að nokkru leyti. Nefnd hefur verið starfandi að þessu nú á þriðja ár, — nefnd sem er skipuð fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna og oddamanni frá Þjóðhagsstofnun. Fyrir þeirri nefnd hafa legið ákveðnar tillögur og hugmyndir um uppstokkun á þessu kerfi, en því miður hefur ekki náðst samstaða. Ég tel hins vegar, að um leið og slíkum mikilvægum atriðum er breytt sé ákaflega mikilvægt að sem breiðust samstaða náist með hagsmunaaðilum, og hef því ekki treyst mér til að þvinga fram breytingar á því olíugjaldi sem nú er. En það er von mín, eftir þær umræður sem urðu um síðustu áramót og í janúarmánuði, að hagsmunaaðilar muni nú fáanlegir til að skoða þetta á breiðara grundvelli.

Um olíugjaldið almennt get ég upplýst, að olíugjaldið var fyrst sett með lögum nr. 4 frá 1979 og var þá ákveðið 2.5% að tillögu fyrrv. sjútvrh. Kjartans Jóhannssonar. Síðan var því breytt með lögum nr. 60 frá 1979 í 7%, einnig að tillögu sama fyrrv. ráðh. Í júní 1979 var með lögum nr. 72/1979 ákveðið 15% olíugjald og þar af komu 3 % til skipta. Það var einnig flutt af fyrrv. sjútvrh., Kjartani Jóhannssyni. Í okt. 1979 var olíugjaldið með lögum nr. 88/1979 ákveðið 9% að tillögu sama hæstv. ráðh. Í jan. 1980, með lögum nr. 3, var olíugjaldið ákveðið 5%, einnig af fyrrv. sjútvrh. Kjartani Jóhannssyni. Olíugjaldið er þannig lögfest í tíð þess sjútvrh. fimm sinnum og greiddist frá 2.5% og upp í 15% - 3%, þ.e. 12%, en 3% komu til skipta.

Þetta er í fjórða sinn sem ég flyt frv. til l. um olíugjaldið. Fyrst gerði ég það í apríl 1980 og var það ákveðið 2.5%, síðan í des. 1 980 og var það þá ákveðið 7.5 % og aftur með lögum nr. 15/ 1981 7.5%.

Ég hygg, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta nema hér verði þær umr. sem þess krefjast. Ég hygg að þm. sé öllum orðið svo vel kunnugt um olíugjaldið og sögu þess að óþarft sé að rekja það lengra. En ég legg á það áherslu að lokum, sem ég hef þegar sagt, að þetta frv. um 7% olíugjald er afleiðing af þeim kjarasamningum og fiskverði sem ákveðið var í janúar og leiðir beint af því.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.