27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

197. mál, áhrif viðskiptakjara á verðbætur á laun

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Eins og raunar máni við búast kom fram í máli hans það sem ýmsir höfðu áhyggjur af við lagasetninguna, að það kynni að verða mjög örðugt að setja þetta mál þannig upp að þeir, sem raunverulega var ætlast til að nytu þessa, næðu rétti sínum. Það hefur komið í ljós. Það er auðvitað spurning hvort ekki þarf raunverulega að gera þá breytingu á löggjöfinni að opna hana í þeim tilgangi að allir nái þeim rétti sem þeir eiga, þó að þau gögn, sem löggjöfin gerir núna ráð fyrir, séu ekki fyrir hendi. Vel má vera að þetta sé hægt með reglugerðinni, og kannske rétt að láta á það reyna. En ekki kæmi mér á óvart þó að þyrfti beinlínis að breyta löggjöfinni til þess að hún næði tilætluðum árangri.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Helgi Seljan sagði áðan, ég hef komist að svipaðri niðurstöðu, að ef einvörðungu lagabókstafurinn ætti að gilda í þessu máli yrðu þeir tiltölulega fáir sem nytu þessa, — tiltölulega fáir á Vestfjörðum t. d. En með þeim hugmyndum, sem nú eru komnar á blað, að því er hæstv. ráðh. segir og þakkað skal fyrir, þá má vel vera að hægt sé að ná til flestra þessara aðila. T. d. hefðu engir trillusjómenn fallið undir þetta ef lagabókstafurinn hefði átt að gilda.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh. Ég vænti þess, að ekki líði langur tími þangað til reglugerðin sér dagsins ljós svo að hægt verði að framkvæma löggjöfina. Þá fyrst sjáum við líka í reynd hvernig hefur til tekist og hvort það eru einhverjir, kannske margir, sem enn verða út undan enda þótt rýmkað hafi verið með reglugerð.