15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt og rökrétt, að húsaleiga var gerð að hluta til frádráttarbær frá skatti, og rökstyð það á mjög hliðstæðan hátt og hv. 3. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, gerði áðan.

Það er ljóst, að leigjendur eru almennt þjóðfélagshópur, sem er fremur illa settur fjárhagslega, og það er sá hópur, sem hefur ekki notið góðs af þeim víðtæka verðbólguhagnaði sem margur maðurinn hefur notið á liðnum áratugum. Þegar breytingar voru gerðar á skattalögum, sem fólu í sér að húsaleiga manna í eigin húsnæði var ekki lengur talin með við álagningu, og þegar ákveðið er að vextir af húsnæðislánum skuli þó áframhaldandi vera frádráttarbærir að vissu marki, þá er eðlilegt að koma með einhverjum hætti til móts við leigjendur því að vissulega er það mikill stuðningur við íbúðareigendur að samfélagið taki þátt í fjármagnskostnaði þeirra í allstórum stíl með því að vextir séu frádráttarbærir frá skatti ef þeir tengist öflun eigin húsnæðis, að vissu marki eftir ákveðnum reglum eins og menn þekkja. Það var sem sagt eðlilegt að eitthvað annað kæmi á móti til hagsbóta fyrir leigjendur.

Ég ætla að vona að flutningur þessa frv. sé ekki hugsaður til að hnekkja þessum réttindum leigjenda, þó að margt í málflutningi hv. þm. Halldórs Blöndals bendi einna helst í þá átt. Mátti skilja hann svo, að hann sæi einhverjum ofsjónum yfir þessum réttindum leigjenda. En ég ætla að vona að það hafi bara verið framsetningin á máli hans sem misskildist, en ekki að það sé ákveðin ætlun hans að taka upp baráttu gegn þessum réttindum leigjenda.

Ég vil svo að lokum segja vegna orða hv. þm. og fyrirspurnar, að það eru ekki á döfinni neinar brtt. af hálfu ríkisstj. á tekjuskattslögum og það er ekki væntanlegt frv. um breyt. á tekjuskattslögum nú að sinni.