15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef komist eitthvað óskýrt að orði hafi ég sagt að vextir við íbúðarkaup væru ekki frádráttarbærir. Ég bið afsökunar hafi ég gert það. Það, sem ég man að ég talaði sérstaklega um, var að vextir af lánum, sem maður stofnaði til vegna viðhalds, væru ekki frádráttarbærir. Hins vegar má segja það um vexti af lánum sem menn stofna til vegna íbúðarkaupa, að þar eru bein vaxtagjöld og afföll frádráttarbær og sömuleiðis gengistöp. Nú tíðkast á hinn bóginn að menn taki verðtryggð lán og verðbótaþáttur lánanna, sem auðvitað munar langsamlega mest um, er ekki frádráttarbær. Lánin eru með mjög lágum vöxtum, — ég kann ekki að fara með hvað það er, 3% vöxtum kannske, — en síðan munar mest um gengistapið. Verðbæturnar eru ekki frádráttarbærar þannig að í skattalegum skilningi tapa menn mjög miklu á því að taka verðtryggð lán t.d. í bönkum. Miklu hagkvæmara er að taka annaðhvort víxillán eða vaxtaaukalán. En þá fylgir sá böggull skammrifi, að slík lán er ekki hægt að taka til mjög langs tíma, þannig að menn geta ekki notið þess lengi, og slík lán fá menn ógjarnan. Víxlar eru einungis til tveggja mánaða og vaxtaaukalánin eru ekki nema til 11/2 árs. Þessum lánum er því umsvifalaust komið í verðtryggð lán svo að meginþungi greiðslubyrðarinnar kemur ekki til frádráttar við álagningu tekjuskatts, gagnstætt því sem áður var. Við skulum þess vegna ekki gera allt of mikið úr þessu.

Ég vil svo segja það við hæstv. fjmrh., að það er alveg rétt hjá honum — eins og ég tók líka fram — að fjöldi leigjenda býr við afskaplega slæm kjör. En við vitum líka að fjöldi leigjenda, ekki síst þeir sem leigja hjá ríkinu, býr við góð kjör. Það er ekki aðeins að þeir sleppi við að sjá um allt viðhald sjálfir, heldur geta þeir kostað til þess jafnvel iðnaðarmenn af dýrasta tagi, ef viðkomandi embættismenn eru nógu hátt uppi í þjóðfélagsstiganum. Og allt er þetta greitt af ríkinu, stórkostlegt fé greitt með húsnæðinu af ríkinu ef mennirnir eru nógu hátt settir. Svo fá þeir til viðbótar helminginn af húsaleigu sinni frádráttarbæran.

En nú skulum við aðeins hugsa dæmið áfram, úr því að ég finn að hæstv. ráðh. er lokaður fyrir þessari till. og eins sá maður, sem ég hafði vænst að skildi hana, hv. 3. þm. Austurl. Hugsum okkur að menn t.d. í stóru blokkunum hér í Reykjavík stofnuðu með sér hlutafélag og seldu hlutafélaginu íbúðirnar sínar. Þá mundi hlutafélagið fá viðhaldið allt frádráttarbært samkv. skattalögunum, vexti alla og allan slíkan kostnað. Síðan gætu eigendur húsanna dregið helminginn af húsaleigutekjum sínum frá til viðbótar. Þeir gætu því beinlínis hagnast á að stofna til slíkra viðskipta, búið til einhvers konar „blöff“ hlutafélag um íbúðirnar, samið svo við hlutafélagið um ævilanga leigu-eða svo lengi sem þeim sýndist. Þá yrði helmingurinn af leigunni til hlutafélagsins frádráttarbær og síðan mundi hlutafélagið geta dregið frá allt viðhald, alla vexti, fasteignagjöld, húseigendatryggingu og allt hvað heitir og getur. Þetta er kjarni málsins.

Ég veit ekki hvað skattyfirvöld mundu segja t.d. ef við hjónin stofnuðum hlutafélag um okkar íbúð með börnunum. Ætli við fengjum þá ekki viðhaldið allt frádráttarbært og helminginn af húsaleigunni? Það er enginn vandi að fara í kringum þessi ákvæði. Og auðvitað verður reynslan sú þegar fram í sækir, ef búin eru til ranglát skattalög, að einstaklingarnir fara í kringum lögin eins og þeir geta, — ef skattarnir eru of háir eins og hér er, ef gert er of mikið til þess að ná eignum af einstaklingunum. Ég hygg að þess séu meira að segja dæmi, að hlutafélög eigi slíkar íbúðir. Ég hugsa að það séu dæmi fyrir því, að hlutafélög í eigu ríkisins leigi sínum starfsmönnum íbúðir og þessi regla eigi þar við. Við getum tekið sem dæmi Kísiliðjuna, Sementsverksmiðjuna og ýmis önnur fyrirtæki, raforkuver og ýmis fyrirtæki úti á landi. Auðvitað geta einstaklingsfyrirtæki gert slíkt hið sama.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson komst svo að orði, að það væri hægt að hvetja menn til að halda bílum sínum vel við með því að slíkt viðhald yrði frádráttarbært. Ég hygg að slíkt viðhald sé frádráttarbært hjá þeim mönnum sem fá bílastyrki. Alls staðar þar sem um það er að ræða er viðhaldið á bílunum frádráttarbært, kemur til frádráttar með kostnaði á slíkri skýrslu, akstursskýrslunni eða bílakostnaðarskýrslunni eða hvað menn vilja kalla það. En eftir sem áður stendur það, að húsaleigan er að hálfu frádráttarbær. Það er búið að búa til þennan nýja frádráttarlið síðan þessi lög voru fyrst samþykkt. Það var gert í tíð þeirrar ríkisstj. sem nú situr, og formaður fjh.og viðskn. Nd. greiddi því atkv. og mælti með því. Þess vegna hefur hann síður en svo haldið sig við þá stefnu að fjölga ekki frádráttarliðum. Hann kaus að bæta þessum frádráttarlið við. Það getur vel verið að ég kjósi að bæta við einhverjum öðrum. Ranglætið er náttúrlega fyrst og fremst þetta, að það er sagt við sumt fólk að rekstrarkostnaður þess við heimilishald skuli að sumu leyti vera frádráttarbær, en við annað fólk er sagt: Rekstrarkostnaðurinn hjá þér er ekki frádráttarbær. — Þetta er ranglæti. Og það er gegn þessu ranglæti sem menn hljóta að berjast. Auðvitað kostar þessi leiðrétting á skattalögunum eitthvað, en borgararnir eiga líka eitthvað inni hjá ríkinu.

Í áramótaræðu fyrir rúmu ári var lofað að lækka tekjuskattinn. Það er komið í ljós að tekjuskatturinn var ekki lækkaður. Það loforð er óefnt. Þess vegna má vel nota peninga, sem þar var lofað, til þess að fjármagna þá nauðsyn sem hér er imprað á.