15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

183. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að hv. menntmn. hafi þetta atriði í huga þegar hún fjallar um frv. til laga um námslán og námsstyrki, því að það má náttúrlega segja að kannske sé til lítils að vera að ákveða að hækka endurgreiðsluhlutfall námslána og heimila síðan hluta af þeim endurgreiðslum til lækkunar á skattskyldum tekjum. Fyrir mitt leyti teldi ég eðlilegra að hafa þetta í huga við ákvörðun á endurgreiðsluhlutfallinu og ákveða það með hliðsjón af því, af því að svo vill til að endurgreiðsluhlutfallið ræðst af skattstofninum. Síðan hafa menn hugsað sér að ákveðinn hluti af endurgreiðslunni skuli hafa áhrif á þennan skattstofn. Mér finnst menn þá vera komnir með óþarflega flókið kerfi, enda getur það reynst nokkuð erfitt í meðförum. Ég teldi því á allan hátt eðlilegra að menn sættu sig við að þetta fjármagn skilaði sér ekki að öllu leyti. Ég tel fyllilega eðlilegt að þjóðfélagið fjárfesti með þeim hætti í menntun manna og styrki menn til náms að nokkru leyti, annaðhvort með beinum styrkjum eða með þeim hætti að gera ekki kröfur til að lán, sem tekin eru í því skyni, séu endurgreidd að fullu.

Ef hins vegar á að hafa þetta á tveimur stöðum, í fyrsta lagi með því að viðurkenna, að lánin séu ekki endurgreidd að fullu, og síðan að hluti af endurgreiðslum sé frádráttarbær frá skatti, þá finnst mér að komið sé óþarflega flókið kerfi. Hitt er svo annað mál að mjög nauðsynlegt er að hafa þetta atriði í huga, því að náttúrlega skiptir verulegu máli hvort þessi vaxtagjöld og allar verðbætur, sem bætast ofan á þessi lán, eru frádráttarbær eða ekki. Þess vegna finnst mér full ástæða fyrir hv. menntmn. að taka þetta atriði sérstaklega til athugunar um leið og hún fjallar um frv. um námslán og námsstyrki.