15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

192. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt 1. þm. Vestf. flutt frv. á þskj. 318 til laga um breyt. á lögum nr. 75 1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Aðalefni þessa frv. felst í því, að þegar lagður er eignarskattur á fasteignir, sem notaðar eru til íbúðar, skuli fasteignir, sem þannig er ástatt um, sem skattstofn ekki hækka meir milli ára en nemur hækkun skattvísitölu.

Fasteignir eru grundvöllur skattlagningar í tveimur aðaltilvikum. Í fyrsta lagi eru það sveitarfélög sem leggja fasteignaskatt á fasteignir. Í öðru lagi er það ríkissjóður sem leggur eignarskatta á fasteignir. Þessir skattar á fasteignir, ekki síst skattar á venjulegt íbúðarhúsnæði, hafa verið að þyngjast æ meir á undanförnum árum. Það kemur til af því að skattstigarnir hafa hækkað, þ.e. hærri prósenttala er nú lögð á fasteignamat íbúða en áður var. Nefna má sem dæmi að eignarskattur til ríkisins hefur hækkað. Hann hækkaði árið 1978 í 1.2% úr 0.8% eða um 50%, og nú er svo komið t.d. hér í Reykjavík að lagður er fasteignaskattur á með fullu álagi, þ.e. með 25% álagi. En aðalreglan er sú, að skattstiginn er 0.5% af íbúðarhúsnæði, en heimilt er að leggja 25 % álag á og hefur verið notað.

En hér kemur fleira til en breyting á skattstigunum, og það er hvaða grundvöllur er notaður þegar þessir skattar eru lagðir á. Fasteignamatið er sá grundvöllur sem notaður er þegar eignarskattar og fasteignaskattar eru lagðir á, en samkv. 14. gr. laga nr. 28 1963, um fasteignamat og fasteignaskráningu, skal miða mat á fasteignum við það „gangverð, sem líklegt er, að þær mundu hafa í kaupum og sölum“. Þetta ákvæði hefur leitt til þess, að í sumum sveitarfélögum a.m.k. hefur fasteignamatsverð íbúða hækkað mun meira en nemur hækkun launa venjulegs launafólks þannig að skattbyrði bæði eignarskatts og fasteignaskatta þyngist stöðugt.

Sem dæmi um hækkun fasteignamats umfram laun má nefna eftirfarandi þróun í Reykjavík undanfarin þrjú ár: Í ársbyrjun 1980 hækkaði fasteignamat í Reykjavík að meðaltali frá árinu áður um 60% á íbúðarhúsnæði og 55% á lóðum. Á sama tíma hækkaði vísitala framfærslukostnaðar um 45.5% og kauptaxtar launþega um 44.1%. Í ársbyrjun 1981 hækkaði fasteignamat í Reykjavík um 50% á lóðum og 60% á íbúðarhúsnæði. Á sama tíma hækkaði vísitala framfærslukostnaðar um 58.5% og kauptaxtar launþega um 50.8%. Í ársbyrjun 1982 hækkaði fasteignamat á lóðum og íbúðarhúsnæði að meðaltali um 55%. Á sama tíma hækkaði vísitala framfærslukostnaðar um 47.9% og kauptaxtar launþega um 48.2%.

Af þessu má sjá, að á þremur s.l. árum hefur fasteignamat íbúðarhúsnæðis og lóða hækkað mun meira í Reykjavík en almennar launatekjur. Sama regla mun reyndar gilda að þessu leyti í mjög mörgum öðrum sveitarfélögum víða um landið. Eignarskattsbyrðin hefur þannig aukist að sama skapi og reyndar fasteignaskattabyrðin einnig.

Í þessu frv. er einungis tekið á þeim þætti þessa máls, sem snertir eignarskattsálagningu ríkisins, og reynt að sporna við þeirri þróun, að þessi skattbyrði þyngist æ meir, eins og raun ber vitni um. Ég geri mér grein fyrir að fara má margar leiðir í þessu efni, en í þessu frv. er bent á eina. Hún er sú, að fasteignir sem eignarskattsstofn, þegar þær eru notaðar til íbúðar, geti ekki hækkað meir milli ára en nemur hækkun skattvísitölu. Að mati okkar flm. er þessi vísitala eðlileg viðmiðun því hún er notuð af ríkisvaldinu í öðrum skiptum þess við skattborgarana. Hér er að sjálfsögðu undirskilið að einstakar fasteignir hafi ekki verið teknar til sérstaks mats að nýju vegna breytinga og endurbóta.

Í þessu frv. er hins vegar ekki gripið á öðrum vanda, sem er sá hversu mikil mismunun á sér nú orðið stað við álagningu bæði eignarskatts og fasteignaskatts vegna þess hve matið er mismunandi, bæði eftir sveitarfélögum og eftir hverfum í einstökum sveitarfélögum. Þetta á rætur að rekja til þessarar reglu Fasteignamatsins, að miða eigi við gangverð á íbúð. Það gefur auga leið, að slíkt mat er ákaflega tilviljanakennt. Ég efast ekkert um að Fasteignamat ríkisins, eftir því sem það hefur aðstöðu til, reyni að gera sitt besta í þeim efnum, reyni að meta gangverð milli ára. En það gefur auga leið að slíkt hlýtur að vera ákaflega tilviljanakennt.

Nefna má nokkur dæmi um einstakar fasteignir og hvernig þetta kemur út, en í nýlegu fréttablaði Fasteignamats ríkisins voru tilgreind nokkur dæmi um mat á einstökum fasteignum. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram: Einlyft einbýlishús í Fossvogi er metið á um 4460 kr. fermetrinn. Einbýlishús í grónu hverfi í Reykjavík er metið á 2694 kr. fermetrinn. Einbýlishús í Keflavík er metið á 3840 kr. fermetrinn. Þetta eru allt steinsteypt hús. Einbýlishús á Akranesi er metið á 3563 kr. fer metrinn, einbýlishús á Ísafirði á um 3773 kr. fermetrinn, einbýlishús á Akureyri á 3549 kr. fermetrinn. Ef skoðað er líka hvernig lóðamatið er, en lóðir eru metnar sem fasteign í eignarskattsstofni þó að þær séu leigulóðir, þ.e. í eigu sveitarfélagsins, og tökum fermetra í lóð á nokkrum svæðum: Í Fossvogi í Reykjavík er fermetrinn 5969, í Hlíðahverfi í Reykjavík 4121, í Kópavogi 3997, í Hafnarfirði 4917, í Keflavík 4176, á Akranesi 3774, á Ísafirði 391 j. Þetta eru dæmi um lóðir í einstökum kaupstöðum, en svo getur lóðamatið verið mjög mismunandi innan kaupstaða eftir staðsetningu.

Sú spurning hlýtur að vakna, hvort það sé sanngjarnt og eðlilegt að markaðsverð eða oft og tíðum ímyndað markaðsverð húsa og lóða eigi að ráða skattlagningu íbúðarhúsnæðis, ekki síst þegar skattstiginn er orðinn jafnhár og raun ber vitni. Ég tel að það sé ekki rétt vegna þess að allt venjulegt fólk litur ekki á hús sín og íbúðir sem markaðsvöru, heldur sem heimili þar sem fjölskyldan býr oftast lengstan hluta ævi sinnar. Fólk reynir jafnvel umfram getu að búa sem lengst í íbúðum sínum, t.d. gamalt fólk, af tilfinningalegum ástæðum þótt færa megi fyrir því rök að íbúðir séu of stórar.

Þessi álagning fasteignaskatta og eignarskatta eftir markaðsverði er því ósanngjörn, og ég tel að það eigi að finna aðrar leiðir til að leggja þessa skatta á þótt ekki sé bent á þær leiðir sérstaklega í þessu frv. Ég vildi hins vegar vekja athygli á þessum vanda, því að ég tel að Alþingi þurfi að taka hann til sérstakrar meðferðar. En þetta frv. fjallar sem sagt um einn þátt þessa vandamáls, þ.e. þegar íbúðir eru notaðar sem skattstofn fyrir eignarskattinn.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til fjh.- og viðskn.