15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

192. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér verið sammála hv. 3. þm. Austurl. um að þessi möt séu orðin allt of mörg og margbreytileg og þar af leiðandi allt of margir menn í raun og veru við hið sama, en þá er auðvitað að breyta því og fækka.

Hins vegar tel ég fulla þörf á að flytja þetta frv. Ég fullyrði ekki. þó að ég sé meðflm. hv. 6. þm. Reykv., að hér sé um það eina sanngjarna að ræða, að hækkunin á milli ára skuli fara eftir hækkun skattvísitölu. Ef aðrir beinir skattar eiga að hækka eftir skattvísitölu er ekkert óeðlilegt að þessi stofn hækki einnig í samræmi við hana. Hitt er auðvitað annað mál, sem er kannske illt við að ráða, að bæði hefur verið gengið lengra í þessu fasteignamati en góðu hófi gegnir á allra síðustu árum og svo hitt, sem hv. þm. nefndi, að það ætti þá heldur að hækka fasteignaskattana minna, en það hefur síður en svo verið gert því að þeir voru hækkaðir úr 0.80% haustið 1978 í 1.2% eða um 50%. Síðan hefur fasteignamatið hækkað meira en meðaltalslaunatekjur manna yfirleitt, þannig að talið er að raunverulegar hækkanir á eignarsköttum muni nema nálægt 90% frá því haustið 1978. Þá komum við að þessu stóra atriði: Er það rétt stefna stjórnvalda á hverjum tíma að þeir, sem koma sér upp þaki yfir höfuðið, eigi umfram skatta af launatekjum að greiða í vaxandi mæli stórfellda hækkun á eignarsköttum?

Þetta frv. er ein viðleitni í þá átt að sporna við þeirri óeðlilegu hækkun sem átt hefur sér stað á eignarsköttum í almennri eignarskattlagningu á sérstaklega hina almennu húseigendur í landinu. Og þá er það þetta stóra atriði: Er ekki nóg að gert í sambandi við álagningu tekjuskatts þó að þetta skattform sé ekki líka sífellt hækkað og næstum því tvöfaldað frá haustinu 1978? Þetta frv. er viðleitni í þá átt að hækka fasteignamötin minna en gert hefur verið í trausti þess að það verði ekki farið að hrófla enn við prósentunni sem skatturinn er lagður á eftir — a.m.k. ekki til hækkunar fram yfir það sem hefur verið gert einmitt af þeim flokkum sem lengst af hafa verið í stjórn landsins síðan haustið 1978.