16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir nú farið að týra! Ég heyri ekki betur en hæstv. viðskrh. segi hæstv. landbrh. fara með, — ja, ef ekki ósannindi, þá einhverjar fáránlegar staðhæfingar þegar hann reifar málið 12. maí s.l. Eins og ég las upp áðan segir hæstv. landbrh. um þessi lán:

„Síðan væri hægt annað tveggja með samkomulagi eða jafnvel með fyrirmælum að kveða á um það, að því fjármagni, sem rennur til fyrirtækjanna í gegnum rekstrar- og afurðalánin, verði ráðstafað á reikning viðkomandi bónda, annað tveggja viðskiptareikning eða bankareikning eftir ósk hvers og eins.

Þetta er sú leið sem ég hef oft látið í ljós að ég telji að sé fær í þessu máli, — leið sem farin er hjá ýmsum afurðasölufyrirtækjum svo að um þá leið hefur skapast reynsla.“

Þetta sagði hæstv. landbrh. hér á Alþingi 12. maí s.l. Nú kemur hæstv. viðskrh. og segir að þetta sé þvaður og blaður, það sé ekki hægt að framkvæma þetta. En hann ber ekki þetta blaður eingöngu á hæstv. landbrh. Hann ber það líka á hæstv. viðskrh., en hann sagði 5. maí í fyrra, eins og ég las upp áðan, m.a.þetta, með leyfi forseta:

„Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði áður, að ég vinn að því og mun áfram vinna að því að framkvæma þessa þál. þannig að tryggja megi að tilgangi hennar verði náð. Það vil ég endurtaka og undirstrika. Ég hef sagt hér áður að það hefur verið bent á leið til þess sem margir telja að sé fullkomlega fær og muni þýða framkvæmd till. í reynd. Og ég vil endurtaka þetta, að ég mun vinna þannig að þessu máli.“

Áður hafði hæstv. þáv. viðskrh., sem núv. viðskrh. segir að sé bullukollur, sagt m. a.:

„Í þessu felst það álit Seðlabankans o.fl., að með þessu sé hægt að ná tilgangi þál. Sennilega er erfitt að komast nær því að framkvæma hana. Og það hlýtur að vera aðalatriðið. Það er það sem ég hef verið að vinna að og mun vinna að, að þessum tilgangi verði náð.“ — Þetta sagði hæstv. þáv. viðskrh. á Sþ. 5. maí í fyrra.

Ég sá tilefni til þess þá að fara upp í þennan ræðustól í lok þessarar umr., sem var býsna hörð á köflum, og segja, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir allt tel ég mér skylt að þakka síðustu ummæli hæstv. viðskrh. þar sem hann lýsti yfir að hann mundi halda áfram að vinna að framgangi þessa máls.“ — Og ég bætti við: „Ég sé að vísu ekki að hann hafi neitt unnið hingað til. En yfirlýsingin jafngildir því, að hann muni nú taka málið til afgreiðslu og úrlausnar, og fyrir það er auðvitað skylt að þakka. Betra er seint en aldrei.“ Síðan hefur honum sem sagt snúist hugur. Hver skyldi hafa kippt í spottann? Skyldu það vera þeir, sem þykir dálítið þægilegt að hafa gífurlega fjármuni bændastéttarinnar í eigin höndum með 29% vöxtum þegar vextir í þjóðfélaginu eru yfir 50%, eða þeir, sem hafa gífurlega fjármuni bændastéttarinnar undir höndum vaxtalaust, niðurgreiðslufé og uppbótafé? Ætli þessir menn hafi kippt í hendina á hæstv. viðskrh. þannig að honum snýst nú hugur? (Gripið fram í.) Þeir menn sem stjórna afurðasölufyrirtækjunum og ekki greiða bændum út á réttum tímum. Það hélt ég að hver einasti maður á landinu vissi.

Hæstv. ráðh. segir að nefndin leggi ekki til að gera neinar breytingar. Alþingi var búið að ákveða breytingar. Nefndin hafði ekkert umboð til að leggja til eitt eða neitt í því annað en að framkvæma málið eins og Alþingi hafði ákveðið.

Það var ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðh. sagði að eitthvað mundi liggja fyrir áður en þessi mánuður yrði á enda. Ég á von á að hann gefi okkur skýrslu um mánaðarmótin um endanlegar niðurstöður. Ég vona að það farist ekki fyrir.

Hann talar um að svar hans muni kannske ekki vera í þá átt sem fyrirspyrjandi muni sætta sig við. Þetta er ekki mitt mál. Mjög mikill meiri hluti Alþingis samþykkti þetta. Það er spurning um hvort hæstv. ráðh. ætlar að framkvæma vilja Alþingis eða ekki. Það má kannske segja að mikill meiri hluti alþm. sé fábjánar og væri ég þá einn af þeim, en að við hefðum ekki allir, sem greiddum atkvæði með till., gert okkur grein fyrir að það væri hægt að framkvæma hana, það veit hvert einasta mannsbarn að er ekki rétt. Tveir ráðh. eru líka búnir að lýsa yfir hér á hinu háa Alþingi að þetta sé enginn vandi.

Auðvitað er það nákvæmlega sama með útveginn. Það varð að beita hörkutökum til að fá fiskvinnsluna til að greiða útvegsmönnum og sjómönnum féð á réttum tíma. Hv. þm. Matthías Bjarnason gekk í málið og leysti það á einum degi, eins og margyfirlýst hefur verið hér á Alþingi. Hann skipaði bönkunum að framkvæma vilja ríkisstj. og Alþingis. Þá gerðu þeir það auðvitað og engin vandamál sköpuðust.

Á það enn þá að líðast að ein stétt landsins fái ekki sína fjármuni í hendur? Muna menn það ekki, að árið 1930, með lögum nr. 22 þá, var afnumið innskriftarkerfi að því er varðar kaup sjómanna og verkamanna. Það var bannað. Innskriftaverslun, sem þá tíðkaðist, var bönnuð með lögum frá Alþingi. Þá var auðvitað sagt að ekki væri hægt að gera þetta, það ætti að hafa innskriftarkerfið og sjómenn og verkamenn ættu að vera leiguliðar selstöðuverslananna. Enn í dag verða bændur að búa við þetta. Hve lengi á þetta að viðgangast og að mönnum snúist svo hugur frá mánuði til mánaðar eftir því hver heldur í höndina á þeim?

Ég get t.d. upplýst að loðdýrabændur taka allir sín rekstrarlán og afurðalán sjálfir. Auðvitað dettur engum þeirra í hug að fara að þvæla því í gegnum verslunarfyrirtæki og tapa vöxtum og þeim möguleika að nota féð strax í staðinn fyrir að kaupa vöruna þegar hún er orðin helmingi dýrari í 50–60% verðbólgu.

Það er mikill kostnaður af stimpilgjöldum, var sagt. Ég hugsa að allir alþm. mundu fella þessi stimpilgjöld niður hreinlega ef það ætti að vera eina leiðin til að bjarga því að bændur landsins gætu verið fjárhagslega sjálfstæðir eins og aðrar stéttir. Ég þekki ekki einn einasta mann hér inni sem mundi ekki samþykkja að fella þessi stimpilgjöld niður til að afstýra því að þessi eina stétt búi við allt önnur kjör en allar aðrar, megi aldrei fá sína peninga í hendur, heldur þurfi hún að knékrjúpa fyrir einhverjum til að fá úttekna vöru og alla sína peninga langt á eftir öllum öðrum.

Það er ótalmargt fleira sem ég vildi gjarnan segja hér, ef ég fæ að koma upp með skylda fsp. á eftir, og tala þá kannske dálitið meira.