16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessa umr. að ráði þar sem fsp. er beint til hæstv. viðskrh. Það er aðeins eitt atriði, sem fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda, sem ég vil gera athugasemd við.

Hann vitnaði til orða minna frá 12. maí s.l. og taldi síðan að viðskrh. hefði með ræðu sinni ómerkt þau ummæli eða lýst því, að hér væri nánast farið með fleipur. Þetta er alger misskilningur hjá hv. 5. landsk. þm. því að ræða hæstv. viðskrh. staðfesti orð mín frá 12. maí.

Hæstv. viðskrh. sagði eitthvað á þá leið, að sum kaupfélög eða afurðasölufélög hefðu tekið upp þann hátt að greiða sem svaraði afurðalánum hvers og eins inn á viðskiptareikning bændanna. Það lá því í orðum hans að af þessu hefði fengist reynsla, eins og ég sagði á Alþingi 12. maí í fyrra. Þess vegna var þarna um staðfestingu að ræða, en ekki að hæstv. ráðh. væri að gefa hið gagnstæða í skyn. En þetta eru ekki beinar greiðslur til bænda. Þetta eru lánveitingar til afurðasölufyrirtækja og afurðasölufyrirtæki tækju síðan þann hátt upp, með samningum eða jafnvel með öðrum hætti, að greiða sem svaraði lánsfé til hvers og eins inn á hans viðskiptareikning eða bankareikning, eins og ég sagði á Alþingi í fyrra að væri hægt.

Þess vegna er hér um algeran misskilning að ræða af hálfu hv. fyrirspyrjanda sem ég veit að hann hlýtur að átta sig á.