16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst fagna málefnalegum umræðum hv. síðasta ræðumanns. Það er vissulega rétt, að það er erfitt að kljást við kerfið — eða kreista fé út úr bönkunum, eins og hann komst að orði, og það þarf stjórnvaldaákvarðanir, ákvarðanir ríkisstj. og Alþingis. Alþingi hefur tekið sína ákvörðun. Ríkisstj. hefur ekki framkvæmt hana. Það er mergurinn málsins.

Hvaðan peningarnir eigi að koma? Þeir eiga að koma frá sömu stöðum og áður, Seðlabanka og viðskiptabönkum. Og ef það þarf stjórnvaldaákvörðun til að ná þeim út, þá þarf auðvitað að koma til hennar. En það kann líka að vera að heppilegust væri alger kerfisbreyting, þannig að afurðasölufyrirtækin hreinlega keyptu vörurnar af bændum, en þær væru alls ekki í umboðssölu. Þá verðum við náttúrlega að stokka allt saman upp.

Sem sagt, ég endurtek þakkir mínar fyrir það, að hv. þm. ræðir þetta mál málefnalega og af nokkurri þekkingu.

En ég var mjög undrandi á orðum hæstv. landbrh. og kemst ekki hjá því, herra forseti, að fá að lesa hér upp aftur það sem sá maður sjálfur sagði. Ég bara vitna til hans. Nú segir hann að hann sé sammála viðskrh., sem var að lýsa yfir að það væri ekki hægt að framkvæma þetta með afurðalánin, og blandar því saman við beinu greiðslurnar, þar sem um er að ræða niðurgreiðslur og uppbótafé.

Mín upphaflega till., sem Alþingi samþykkti, var í tveim liðum. Þarna erum við að fjalla um lánin og um þau segir hæstv. landbrh. 12. maí í umræðum í Ed. Alþingis orðrétt:

„Ég veit ekki hvort ástæða er til að ég fari að rekja þær hér“ — þær ábendingar — „að öðru leyti en því, að þær eru efnislega á þá leið í fyrsta lagi, að framleiðslufélögin verði áfram eins og verið hefur lántakendur bæði rekstrar- og afurðalána. Það er talið nauðsynlegt að lántakandi þessara lánaflokka beggja sé hinn sami vegna innbyrðis tengsla þeirra og vegna þess að rekstrarlánin eru endurgreidd af afurðalánum sem veitast í nóvembermánuði, en rekstrarlánin veitast frá því í marsmánuði og þangað til í ágústmánuði. Síðan væri hægt annað tveggja með samkomulagi eða jafnvel með fyrirmælum“ — ég endurtek: „Jafnvel með fyrirmælum að kveða á um það, að því fjármagni sem rennur til fyrirtækjanna í gegnum rekstrar- og afurðalánin, verði ráðstafað á reikning viðkomandi bónda, annað tveggja viðskiptareikning eða bankareikning eftir ósk hvers og eins.“

Ég er innilega sammála hæstv. landbrh. frá því 12. maí í fyrra, en innilega ósammála því sem núv. hæstv. landbrh. sagði áðan.