16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem fram hefur komið hér fyrr á Alþingi í umr. um þetta mál. Það er nauðsynlegt að bændastéttinni í landinu séu búin sömu kjör varðandi afurðasölu sína og öðrum þeim stéttum, sjómönnum og öðrum, sem vinnu sína og afurðir selja. Það er grundvallarreglan sem kerfið á að byggjast á. Allt annað er óeðlilegt. Það má vel vera að það geti reynst erfitt að hrinda í framkvæmd breytingum af þessu tagi, en sé litið á sanngirni málsins hljóta hagsmunir bændanna sjálfra og réttur þeirra til að ákveða þessi mál á sjálfstæðan hátt að vera æðri einhverjum kerfiserfiðleikum eða hagsmunum afurðasölufyrirtækjanna.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar og vil láta það koma hér fram, að allt þetta samningakerfi og framleiðslukerfi landbúnaðarafurðanna í landinu í heild sé löngu orðið úrelt. Það er búið að flétta svo saman í eina heild hagsmuni bændanna, hagsmuni afurðasölufyrirtækjanna, hagsmuni ýmissa annarra fyrirtækja, sem þessari atvinnugrein eru tengd, og reyndar hagsmuni iðnaðarfyrirtækjanna sem framleiða úr hráefnum landbúnaðarins einnig, að það er ekki nokkur leið að fá fram eðlilega ákvörðunartöku á þessum vettvangi. Því er brýnt bæði fyrir bændastéttina og efnahagsþróunina í landinu að brjóta þetta ákvarðanatökukerfi allt saman upp: bændur semji sjálfir við þá sem afurðirnar kaupa, hvort sem það eru afurðasölufélögin eða iðnaðarfyrirtæki sem framleiða aðrar afurðir úr þessum frumafurðum bændastéttarinnar, það verði gert við hreint og klárt borð þar sem menn sitji sitt hvorum megin við borðið, ólíkir hagsmunaaðilar, en sömu aðilarnir sitji ekki við alla enda borðsins eins og gert er nú.