16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þessar umr. eru að verða að kalla má leiðigjarnar. Ár eftir ár er hæstv. viðskrh. þýfgaður um hvernig vegni framkvæmd fyrir-mæla tekinna af hinu háa Alþingi og honum fengin í hendur að framkvæma. Og svörin eru nokkurn veginn þau sömu, að rn. striti við að fara að þessum fyrirmælum. En þó þykja mér svörin nú öllu tregari í þá átt að menn geti gert sér neinar vonir um rétt framhald eins og fyrirmælin hljóða upp á.

Þetta er auðvitað það alvarlega sem ég hef margsinnis minnst á við umr. og fsp. um framkvæmd þál. hvernig ýmsir hæstv. ráðherrar hafa leyft sér að hafa samþykki hins háa Alþingis að engu. Það er með ólkindum að hv. alþm. skuli sætta sig við þessa meðferð mála. Að vísu hefur mönnum verið vísað til þess, að eitt ráð sé til: að draga hæstv. ráðh. fyrir hinn svokallaða landsdóm. Það er auðvitað rétt. Og auðvitað hlýtur að draga að því, að hv. 5. landsk. þm. drösli hæstv. viðskrh. upp í landsdóm. En það hlýtur að vera neyðarúrræði.

Að ekki sé hægt að koma slíkum viðskiptum á við fimm þúsund bændur í landinu hjá bankakerfinu tölvuvæddu, að hlusta á slíkar undanfærslur og afsakanir er með algerum ólíkindum. Og ekki fann ég málefnalega rökræðu hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. þegar hann stóð hér og spurði eins og fávís kona: Hvar eru seðlarnir? Hvar eru peningarnir?

Hvar eru peningarnir sem á að nota til þess arna? Þetta er náttúrlega ekki til þess að fara um mörgum orðum. Að sjálfsögðu á þessi stétt manna, eins og hv. 11. þm. Reykv. minnti á, að hafa sama rétt og aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Það má kalla að bændur séu ánauðugir þrælar kaupfélaganna eins og fyrir er komið þessum fjármálum bændastéttarinnar. Það er ekki til heil brú í þeim undanfærslum og afsökunum sem hér eru færðar fram. Og það allra alvarlegasta í málinu er þó þetta, ef Alþingi ætlar að sætta sig við það í þessu máli og fjölmörgum öðrum að hæstv. ráðherrar, sem starfa í umboði þess, hafi að engu bein og skýr fyrirmæli um hvernig að máli skuli staðið.