16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mér hefur virst að þeir hv. alþm., sem hér hafa komið upp, séu flestir sammála um að vinna eigi eftir þeirri þál. sem hér er til umr. —nema hv. þm. Árni Gunnarsson og ráðh. reyndar, sem komu með ákveðin rök um að ekki væri um það að ræða að fjármagn fengist til þess. Í ræðu hæstv. viðskrh. kom það fram, að 71% metins afurðaverðs væri lánað út á afurðirnar þegar þær kæmu til afurðaframleiðslufélaga. Ég held að þetta sé svipuð upphæð og veitt er til annarra framleiðslugreina, t.d. til sjávarútvegsins, þannig að ég sé ekki að þarna sé um neitt sérstakt vandamál að ræða. Þetta er nákvæmlega sama og á sér stað hjá öðrum atvinnugreinum.

Eins og hv. þm. Steinþór Gestsson benti á áðan eru fyrri hluta árs veitt rekstrarlán. Þau eru enn þá auðveldari til afgreiðslu með þeim hætti, að þau séu veitt beint til bænda, heldur en afurðalánin.

Í sambandi við það sem hv. þm. Árni Gunnarsson nefndi, að það hefði komið fram stefnubreyting hjá okkur Alþb.-mönnum í ræðu Ólafs Ragnars áðan, þá held ég að það sé mesti misskilningur. Hann hefur þá ekki fylgst með því sem Alþb. hefur boðað í þessum málum. Það var nánast það, að Ólafur Ragnar hafi lesið hér beint upp stefnuskrá Alþb. fyrir síðustu kosningar um það, að um verðlagning afurða bænda skuli eiga sér stað með samningum beint á milli aðila. Það er fyrst og fremst það sem Ólafur Ragnar undirstrikaði áðan. En sérstaklega vil ég undirstrika það, að ég sé ekki neina ástæðu til þess að það þurfi að hörfa frá þessari samþykki vegna þess að ekki sé til fjármagn til þessa þegar í veltunni.