16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns vil ég segja það, að sjálfstæðismaðurinn í þessari nefnd var hinn glöggi og klóki fjármála- og bankamaður Magnús Jónsson sem átti sæti hér á Alþingi í mörg ár.

Ég ætla að upplýsa eitt atriði vegna þeirra umr., sem hér hefur farið fram, og talsverðs misskilnings sem mér virðist hafa komið glögglega fram í ræðum manna sem fullyrða að þetta fjármagn sé fyrir hendi, það eigi bara að breyta fyrirkomulaginu og þá séu peningarnir til. Þessi nefnd leitaði til allra banka, sem hlut áttu að máli og hafa veitt afurðalán og rekstrarlán til bænda, og leitaði jafnframt til Seðlabanka Íslands og spurðist fyrir um það á fyrsta stigi málsins, hvort unnt væri að hraða afurðalánagreiðslunum, þó að það væri eina leiðin sem farin yrði til að bæta stöðu bændanna. Svörin frá bönkunum voru einföld og öll eins: Nei, það var ekki hægt. — Þetta fjármagn er einfaldlega ekki til eins og sakir standa.