16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

336. mál, beinar greiðslur til bænda

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar er í sex liðum.

1. liður er svohljóðandi:

„Hvað líður athugunum þeim sem landbrh. hefur látið gera til að tryggja framgang ályktunar Alþingis frá 22. maí 1979 um beinar greiðslur til bænda?“

Þegar ég kom í landbrn. var að starfi nefnd sem vann að athugunum á rekstrar- og afurðalánum til landbúnaðarins, og ég fól þeirri nefnd með sérstöku bréfi að taka til athugunar á hvern hátt komið yrði við beinum greiðslum til bænda varðandi lánin. Enn fremur var undir lok ársins 1980 að því unnið á vegum landbrn. og fjmrn. með aðild bændasamtakanna að kanna á hvern hátt væri unnt að koma því við að greiða orlofsfé landbúnaðarins, sem nú er reiknað inn í verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara og landbúnaðarverðið, beint til bænda af niðurgreiðslufé. Niðurstöður af þessum athugunum voru neikvæðar í ýmsum efnum. Annmarkarnir voru helstir þessir:

1. Tekið yrði upp tvöfalt kerfi til að koma fjármunum til bænda fyrir afurðir þeirra.

2. Ættu fjármunir að greiðast fyrir fram væri erfitt að finna út hvað hverjum ber. Ábúðaskipti jarða eru mörg á ári, bústofn skiptir um eigendur, menn draga við sig búskap eða auka vegna annarra starfa, erfitt er að draga mörkin og ákvarða hverjir teljast bændur, og fjölmörg önnur atriði koma til úrlausnar, e.t.v. án þess að úr verði leyst.

3. Yrðu þessir fjármunir ekki greiddir fyrir fram er jafnauðvelt að fela þeim, sem tekur við afurðum bænda, þ.e. sláturleyfishafa, að koma þeim til skila og að hugsa sér annað kerfi við hlið hins til þess að sjá um uppgjörið. Líklegt er að tvöfalt kerti yrði seinvirkara.

4. Beinar greiðslur á orlofi til bænda reyndust samkv. athugun dýrari fyrir ríkissjóð til áhrifa á verðlagsþróun. Upp kom mikil óvissa um skiptingu fjármagnsins milli einstaklinga og ekki séð eftir hvaða leiðum ætti að fara þannig að allir mættu við una.

Niðurstöður, sem fengust úr þeim athugunum sem gerðar voru af þessu tilefni, eiga við það efni, sem hér er spurt um, að taka til athugunar hvort hagkvæmt sé að greiða hluta af niðurgreiðslufé til bænda beint.

Í öðru lagi er spurt:

„Hvenær er ætlun ríkisstj. að nýjar reglur um greiðslu útflutningsbóta og niðurgreiðslna, sem tryggi að fjármunir nýtist betur, komi til framkvæmda?“

Svar: Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að með lögum um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins frá 18. apríl 1979 eru gefnar heimildir til að greiða hluta af niðurgreiðslum til bænda sé það hagkvæmt. Þessi lög, sem fela í sér ýmsar fleiri heimildir og var raunar breytt á síðasta Alþingi, hafa verið framkvæmd að meginhluta í samráði við bændasamtökin. Bændasamtökin hafa ekki óskað eftir að taka upp þetta fyrirkomulag og hafa ekki talið, þrátt fyrir ítrekaðar fsp. af minni hálfu, að ástæða væri til að leggja frekari vinnu í það að sinni en þegar er orðið að gera sérstaka úttekt á þessum málum.

Hv. fyrirspyrjandi ræddi um að athugun hefði verið gerð á þessu máli fyrir einum þremur árum og skilað um það grg. sem stíluð var til hans beint. Í þeirri grg. kemur fram, að sé hluti af niðurgreiðslum og jafnvel útflutningsbótum greiddur beint til bænda hefur það í för með sér minni áhrif þessa fjármagns á verðlagsþróun og út úr því kom að verð á vörunum varð hærra en með þeim hætti niðurgreiðslna sem nú er tíðkaður. Þetta er raunar í samræmi við það sem ævinlega hefur komið í ljós fram til þessa. Þegar rætt hefur verið um að greiða niður framleiðslukostnað landbúnaðarvara á frumstigi er það óhagstæðara, hefur minni áhrif á verðlagsþróun og felur um teið í sér hærra útsöluverð en að greiða vöruna niður á sölustigi. Í sambandi við þetta hef ég einnig fengið þær aths., að heildsöluverð búvaranna myndast af grundvallarverði til bænda og vinnslu- og heildsölukostnaði. Niðurgreiðslur og útflutningsbætur renna til greiðslu á báðum þessum liðum. Erfitt er að sjá hvernig á að skilja þar á milli og hvað hvor aðilinn á að fá. Ef vantar upp á verð við útflutning, á þá að láta sláturleyfishafa fá t.d. 1/5 hluta útflutningsbótafjárins og bóndann 4/5 eða á sláturleyfishafinn að fá allt og bóndinn ekki neitt eða öfugt, t.d. þegar útflutningsverð nægir ekki fyrir kostnaði sláturleyfishafans nema að hluta, eins og komið hefur fyrir? Í þessu felast aths. sem benda til að við er að fást enn fleiri vandkvæði en fram hafa komið.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hefur verið athugað hvernig heppilegast væri að afnema „kvótakerfið“ samhliða beinum greiðslum til bænda?“

Svar við þessari fsp.: Ekki verður séð að samhengi sé milli kvótakerfis og beinna greiðslna til bænda. Kvótakerfinu er ætlað að hafa hemil á búvöruframleiðslunni, og erfitt er að sjá hvort beinar greiðslur til bænda mundu einnig gera það, þó að e.t.v. væri hægt að koma því þann veg fyrir ef framkvæmdaerfiðleikar reyndust ekki of miklir.

Í fjórða lagi er spurt:

„Er ætlun ríkisstj. að viðhalda bæði „kvótakerfi“ og fóðurbætisskatti hversu erfitt sem árferði verður landbúnaðinum?“

Svar: Þessu er torvelt að svara því að enginn veit fyrir fram um árferði, hvernig það reynist. En ég hef tekið þá stefnu hingað til fyrir hönd ríkisstj. í þessum málum að haga stjórnunaraðgerðum í landbúnaði sem mest í samræmi við tillögur og óskir bændasamtakanna. Ég geri ráð fyrir að ef að kreppir meira en þegar er orðið vegna árferðis kunni bændasamtökin að taka um þetta efni nýja stefnu. Ég vil því ekki svara með jái eða neii þeirri fsp. sem hér liggur fyrir, heldur mun ég haga aðgerðum í þeim efnum sem mest í samræmi við tillögur bændasamtakanna.

Í fimmta lagi er spurt:

„Hvernig hefur reynslan orðið af framkvæmd „kvótakerfisins?“

Um þetta efni hef ég fengið alllanga greinargerð frá fyrrv. formanni Stéttarsambands bænda og framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins, dags. 3. nóv. s.l., sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Framleiðsluráði Landbúnaðarins hefur borist bréf rn., dags. 2. þ.m.“ – þ.e. 2. nóv. — „varðandi fsp. Eyjólfs K. Jónssonar á Alþingi varðandi beinar greiðslur til bænda o.fl. Fjórir fyrstu liðir fsp. eru þannig orðaðir, að það er einvörðungu á valdi ríkisstj. að veita svör við þeim, og raunar á það sama við um 6. liðinn. Ég mun því eingöngu ræða hér um 5. lið fyrirspurnarinnar.

Áður en ég vík að honum vil ég minna á annmarka þá sem á því eru að senda greiðslur beint til bænda. Ég rakti þá annmarka í greinargerð sem nefnd um afurða- og rekstrarlán fékk í hendur á s.l. vetri og var send rn. með áliti nefndarinnar um þetta efni. Um undirbúning að framkvæmd kvótakerfisins vísast til kafla í Árbók landbúnaðarins fyrir árið 1980, bls. 61–65, og um niðurstöður útreikninga til skýrslna og greinargerða á bls. 1 12–119 í sama riti.“

Ég skýt því hér inn að ég hef þessar greinargerðir hér við höndina, en ég hygg að það yrði allt of langt mál að lesa þær eða vitna til þeirra frekar hér. En þær eru að sjálfsögðu til upplýsinga ef ástæða þykir til.

Enn segir í þessu bréfi: „Um reynsluna má vísa til þess samdráttar sem orðinn er í mjólkurframleiðslu í landinu. Verðlagsárið 1. sept. 1979 til 31. ágúst 1980 var mjólkurframleiðslan 118 155 204 lítrar, en á síðasta verðlagsári var mjólkin 102 648 814 litrar, og er samdrátturinn 15.5 millj. litra eða 13.12 %. Séu almanaksárin 1978 og 1981 borin saman er samdráttur ca. 17%.

Í kjötframleiðslunni hefur orðið minni breyting, enda hefur verið talið að kjötframleiðslan væri undirstaða að því að byggð gæti haldist í landinu með svipuðu horfi og verið hefur. Enn fremur hefur til þessa árs verið mun auðveldara að selja kjöt en osta úr landi og fyrir kjöt hefur líka fengist miklum mun hagstæðara verð þó svo mikið vanti á að það standi undir framleiðslukostnaði að fullu.

Við uppgjör afurða samkv. búmarkskerfi hafa komið fram ýmis vandkvæði sem enn er ekki séð fyrir endann á. Þar er fyrst þess að geta, að illa gengur að fá innleggsskýrslur afurða frá ýmsum söluaðilum og vill verða allmikill dráttur á skilum þeirra. T.d. var með bréfi 31. júlí í sumar óskað eftir því að fá frá öllum sláturleyfishöfum skýrslur um sauðfjárframleiðslu á hverri jörð frá haustinu 1980 og þess óskað, að þessar skýrslur yrðu komnar fyrir ágústlok. Í ágústmánuði 1980 voru settar reglur um form og frágang þessara skýrslna og því áttu þær að geta verið tilbúnar í réttu formi. Í dag eru skýrslur ókomnar frá 20–22 aðilum þótt meira en tveir mánuðir séu liðnir frá ágústlokum og oft hafi verið gengið eftir að skýrslur yrðu sendar. Því er borið við, að ekki sé lokið formlegum frágangi þeirra svo sem fyrir var lagt 1980. Ekki er hægt að útiloka það, að sumir aðilar dragi skilin af ásettu ráði til að auka á erfiðleika við úrvinnsluna. Komið hefur í ljós í þeim skýrslum, sem komnar eru, að merkingar eru ekki allar réttar þannig að unnt sé að vinna úr þeim í tölvu, og verður því að yfirfara þær og leiðrétta það sem rangt er áður en vinnsla fer fram. Þetta eykur verkið og seinkar úrvinnslunni.“ (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég á nokkuð eftir til þess að geta svarað fsp. hv. þm.

„Nokkur tilfelli eru um að eyðijarðir séu teknar í ábúð án þess að fengið sé samþykki fyrir búmarki þar. Mestir erfiðleikar eru þó þar sem fleirbýli eða félagsbúrekstur er talinn og á slíku búskaparformi er engin föst regla. Svo virðist sem oft og tíðum sé það tilviljunum eða flutningum háð hvernig sá rekstur skiptist á milli eigenda og hverjir séu taldir aðilar að honum. Nauðsynlegt sýnist samt að settar verði lagareglur um slíkan búrekstur og hvaða skilyrði hann þurfi að uppfylla til þess að verða viðurkenndur.

Ég held að ég sé búinn að lýsa helstu annmörkum við framkvæmd þessa kerfis. Þeir eru allmiklir vegna þess að upplýsingar þurfa að koma frá mjög mörgum aðilum og augljóst er að misjafn skilningur er á nauðsyn þess verks og nauðsyn þess að gera upplýsingarnar þannig úr garði að auðvelt sé að vinna úr þeim. Hitt er augljóst, að unnt er að draga úr framleiðslu með kerfinu og sérstaklega er það auðvelt í mjólkurframleiðslunni. Þar er reynslan ólygnust.

Sé spurt um réttmæti kerfisins verður svarið mismunandi eftir aðstöðu manna. Ýmsir bændur eru vel ánægðir, en aðrir mjög óánægðir. En þó er varla hægt að segja að marktæk reynsla sé komin á kerfið fyrr en lokið er uppgjöri verðlagsársins 1980–1981. Enn er óvissa um hvenær því uppgjöri lýkur af þeirri ástæðu sem að framan er greind.

Virðingarfyllst.

F. h. Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Gunnar Guðbjartsson.“

Í þessu svari kemur fram, að ýmsir og raunar miklir annmarkar eru því samfara að reikna út annmarka þessa kvótakerfis, einkum í sauðfjárframleiðslunni. Síðan þetta svar var gefið í nóv. s.l. hefur mikil vinna verið af hendi leyst í þessu efni og liggur málið nú nokkuð ljósar fyrir, en reiknað er með að uppgjör fyrir verðlagsárið 1980/1981 fari fram samkvæmt kvótakerfi.

Í sjötta sagi er spurt:

„Hefur ríkisstj. rætt úrræði sem gripið yrði til ef fóðurbætisskatturinn yrði dæmdur ólöglegur?

Svar: Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að kjarnfóðurgjaldið sé ólöglegt. Það er ákveðið af ráðh. samkv. lögum sem samþykkt voru á síðasta þingi. Svo er um ýmis önnur gjöld sem innheimt eru og eru því ekki á döfinni neinar sérstakar fyrirætlanir í þessu efni.