16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

336. mál, beinar greiðslur til bænda

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki margt í ræðu hv. fyrirspyrjanda sem er nauðsynlegt fyrir mig að svara. Hann staðfesti það, sem fram kom í greinargerð sem hann hefur sjálfur fengið í hendur, að með því að greiða hluta af niðurgreiðslufé beint til bænda hefði það þau áhrif að verðið yrði hærra, fjármagnið nýttist lakar til áhrifa á verðlagsþróun.

Allir vita að niðurgreiðslur hafa alla tíð verið notaðar til að hafa áhrif á verðlagsþróun innanlands og eru þannig þáttur í baráttu stjórnvalda við að halda verðbólgunni niðri. Ég skal ekki fjalla um það í löngu máli þótt hv. þm. kalli þetta vísitölusvindl. Þetta er aðferð sem notuð hefur verið af ríkisstjórnum í áratugi og ég ætla ekki að fara að kasta steinum að núv. eða fyrrv. ríkisstjórnum hvað þetta snertir. Staðreynd er að það vísitölukerfi, sem við búum við, hefur þetta í för með sér, og meðan við búum við þetta kerfi mun það verða framkvæmt með þessum hætti. Hitt er annað mál, að ég er þeirrar skoðunar, að það vísitölukerfi, sem við búum við, sé óheppilegt og óhagkvæmt, ekki síst fyrir launþegana sjálfa. Þess vegna er mikil nauðsyn að það kerfi verði tekið til endurskoðunar og væntanlega tekið upp nýtt kerfi sem ekki feli í sér jafnmarga annmarka og núverandi kerfi býr yfir. Þá kynni einnig að verða hægt að koma þessu við með nýjum hætti. Ég get ekkert sagt um það fyrir fram, en það getur verið, ef nýtt vísitölufyrirkomulag eða nýtt verðtryggingarkerfi launa yrði tekið upp sem væri laust við þá vankanta sem núverandi kerfi býr yfir, að þá yrði unnt að taka upp þá hætti að greiða niður einstaka rekstrarliði landbúnaðarins í stað þess að greiða niður vöruna á lokastigi. Það kynni að reynast hagkvæmt, en það verður að koma í ljós hvernig það kemur út þegar nýtt kerfi hefur tekið við af því sem við búum við nú.

Hv. þm. sagði að það hefði komið í ljós að kvótakerfið feli í sér mikla erfiðleika og búi yfir miklum göllum. Þetta er vitaskuld rétt. Þær aðgerðir, sem þarf að grípa til til að halda aftur af framleiðslu eða hafa stjórn á framleiðslu hjá atvinnuvegum þjóðarinnar, hljóta, hver sem notuð væri, að hafa einhverja vankanta, hafa í för með sér erfiðleika. Það er ekkert gamanmál að þurfa markaðsaðstæðna vegna að grípa til aðgerða sem hafa letjandi áhrif á framleiðslu hjá þjóðinni, og því hljóta að fylgja erfiðleikar. Það er ekkert efamál að svo er. Ég hef hins vegar látið það iðulega í ljós sem skoðun mína að kvótakerfi sé afskaplega erfitt í framkvæmd, ekki síst þannig að það vari langan tíma. Það er hægt að hugsa sér það sem skammtímaráðstöfun, en það þarf að brjóta upp mjög fljótt og getur tæplega staðist í mörg ár. Það er ekki æskilegt fyrirkomulag, a.m.k. ekki til langframa.

Hv. þm. spurðist fyrir um fyrirgreiðslu sem gripið hefði verið til við bændur fyrir síðust áramót. Sú fyrirgreiðsla var ekki með þeim hætti að það væri verið að leyna einu eða neinu eða fela eitt eða neitt. Sú fyrirgreiðsla var þannig, að frá því að yfirstandandi verðlagsár hófst, 1. sept., hlóðust upp útflutningsbótareikningar til ársloka vegna útflutnings á landbúnaðarvörum sem ekki var fé fyrir á fjárlögum síðasta árs. Þeir reikningar heyra til þessu fjárlagaári sem byrjaði 1. jan. Það eru auðvitað miklir erfiðleikar því samfara að útflutningsbætur fást ekki greiddar til að mæta þessum reikningum. Þessum vanda var mætt með því í fyrsta lagi, að ríkissjóður greiddi fyrir fram af fjárlögum þessa árs, veitti fyrirframgreiðslu sem kom á fjárlög þessa árs, um 18 millj. kr. Ég get sagt það hér, að það var tekið mjög vel í það af hálfu fjmrh. og á hann þakkir skilið fyrir. Á hinn bóginn veitti Seðlabankinn fyrirgreiðslu, sem hann gerði einnig á síðasta ári, í því formi að framlengja afurðalán sem gjaldfallin voru. Kom það vitaskuld landbúnaðinum einnig til hagsbóta á þann hátt að frestað var greiðslu á gjaldföllnum afborgunum sem námu 11 millj. kr. Hér var um mjög sanngjarna fyrirgreiðslu að ræða. Það var alls ekki gert til að vera að fela neitt eða leyna neinu, en þessi fyrirgreiðsla var auðvitað landbúnaðinum mjög mikilvæg.

Hv. þm. talar um að það séu tekin erlend lán til að greiða niður framleiðsluvörur okkar erlendis. Ef hv. þm. á við að útveguð hafi verið lán til að greiða að hluta það sem vantað hefur á að útflutningsbætur dygðu til að fá fullt verð fyrir útflutningsafurðir okkar erlendis, þá er öðru nær en að við séum að greiða eitthvað niður erlendis. Útflutningsbætur eru ekki til að greiða niður verð ofan í útlendinga, eins og stundum heyrist sagt. Við seljum vörur okkar erlendis á því verði sem við getum fengið fyrir þær þar, og útflutningsbætur eru til að tryggja tekjur þeirra sem framleiða vöruna, en ekki til að greiða niður vöruna fyrir útlendinga. Ég held að þetta hljóti að vera fullskýrt. Við erum auðvitað ekki með neina góðgerðastarfsemi hér með því að lækka verðið fyrir útlendinga og nota til þess fjármuni okkar, hvort sem við innheimtum þá þegar í stað af skattborgurunum eða tökum þá að láni. Það er alger misskilningur.

Ég held að það sé ekki fleira í ræðu hv. þm. sem ástæða er til að svara, og get látið máli mínu lokið.