16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

336. mál, beinar greiðslur til bænda

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta seinasta orðalag hæstv. landbrh. um hvað útflutningsbæturnar væru er harla furðulegt. Ég sé ekki að það sé neinn munur á því að orða þetta svo að það séu greiddar niður landbúnaðarafurðir ofan í útlendinga eða greitt sé með útflutningi til að borga fyrir þær innanlands. Á þessu er enginn munur.

En aðalerindi mitt var ekki að fjalla um þetta, heldur það, að hér hefur verið nokkuð til umræðu fyrirkomulag stjórnkerfisins í landbúnaðarmálum. Það hefur verið talað um það í sambandi við kvótakerfið, að á því væru framkvæmdaerfiðleikar og hætta á svindli, en það hefur alls ekki verið nógu mikið um það talað, hver hætta á óhagkvæmni felst í kvótakerfinu. Ég vara við þeirri miklu hættu sem felst í óhagkvæmni sem hlýtur að fylgja kvótakerfinu. Það er stirt í framkvæmd. Það hefur í sér fólgið að verið er að halda framleiðslunni niðri án þess að tilkostnaðurinn minnki að sama skapi. Ég vara við þessu sérstaklega með tilliti til þess, að þegar um er að ræða óhagkvæmni af þessu tagi hlýtur hún fyrr eða síðar að bitna á þeim sem í greininni starfa. Hún bitnar auðvitað líka á þjóðfélaginu í heild.

Það væri kannske ástæða til að fara nokkrum orðum um það stjórnkerfi sem hér er í landbúnaðarmálum. Það er ekki einungis að við séum með þetta kvótakerfi. Við erum líka bæði með niðurgreiðslur og útflutningsbætur. Ég vil orða það svo að vegna þessa kerfis búi bændur við mjög mikla óvissu um afkomu sína og kjör. Þetta er í rauninni varasamt fyrir bændur þegar til lengdar lætur eins og á því er haldið.

Ég þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um það, að það fyrirbæri, sem upp er komið í landbúnaðinum, er þjóðfélagslega óhagkvæmt. Á því leikur enginn vafi. Þar við bætist að með því kerfi, sem við búum við, eru bændur að baka sér meiri óvissu en viðunandi er til lengdar.

Það er fleira í þessu sem ástæða væri til að benda sérstaklega á. Í sambandi við útflutninginn er eins konar ábyrgð á útflutningsverði. Það dregur úr tilhneigingu til að leita eftir besta verði á útflutningsafurðunum. Hvernig svo sem það hefur verið í framkvæmd verður því ekki á móti mælt, að þegar þannig er á málum haldið minnkar tilhneigingin til að fá hæsta mögulegt verð fyrir útflutningsvöruna. Þetta er megingalli á þessu kerfi.

Ég held að það sé líka augljóst að verðlagningarkerfi landbúnaðarafurða er tortryggilegt. Ég skal ekki taka sterkar til orða í þeim efnum. En það er auðvitað stórvarasamt fyrir bændurna líka að það skuli vera tortryggilegt. (Forseti hringir.) Ég skal einungis bæta fáeinum orðum við, herra forseti, enda vænti ég þess, að það séu ekki mjög margir á mælendaskrá.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt í sambandi við atvinnugreinar, hvort heldur það er sjávarútvegur eða landbúnaður, að menn víki af þeim vegi sem felur í sér offramleiðslu eða offjárfestingu. Það mun bitna á högum þjóðarinnar þegar til lengdar lætur. Auðvitað fylgja því vissir erfiðleikar t.d. að draga úr framleiðslu, en menn ættu sérstaklega að huga að því, að það er enn þá dýrara að taka ekki á vandanum. Ég tel að við stöndum frammi fyrir mjög miklum vanda í landbúnaðinum vegna þess, hversu seint hefur verið gripið til aðgerða, og í annan stað vegna þess, að stjórnkerfið er meira og minna duglaust og svarar ekki tilgangi sínum.