16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

336. mál, beinar greiðslur til bænda

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. talaði um útflutningsbótakerfið sem ábyrgð á framleiðslu landbúnaðarins sem hefði í för með sér að tilhneiging minnkaði til að ná besta verði. Þetta kynni að vera rétt ef svo væri að útflutningsbætur dygðu til að ná fullu verði, til að bændur og framleiðslufélögin fengju fullt verð fyrir alla framleiðsluna. En það er því miður ekki því að heilsa, og þegar verulega vantar á að verðið náist er ekki ábyrgð fyrir hendi eða ekki í þeim mæli að það hafi áhrif til þess, að ekki sé reynt að ná besta verði. Þessi aths. hv. þm. er þess vegna úr lausu lofti gripin eins og þessi mál a.m.k. standa nú.

Hv. þm. gagnrýndi stjórnkerfi landbúnaðarins og taldi það dýrt fyrir bændur og dýrt fyrir þjóðina, en sagði þó réttilega að það væri enn þá dýrara að grípa ekki til aðgerða. Það hefur einmitt verið gripið til aðgerða. Þær aðgerðir hafa leitt til þess, að mjólkurframleiðslan er nú og hefur verið í tvö ár nokkurn veginn við hæfi innienda markaðarins, og þær stjórnunaraðgerðir hafa falið í sér að sauðfjárframleiðslan hefur verið svipuð eða sambærileg því sem hefur áður verið. Er það að mínum dómi nauðsynlegt til þess að geta haldið við byggð í sveitum landsins.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði að sér hefði skilist að fyrirgreiðsla af því tagi sem veitt var fyrir áramótin, hafi ekki tíðkast áður. Það er rétt að því leyti, að svo mikil fyrirgreiðsla hefur ekki áður verið veitt. Fyrir rúmu ári var fyrirgreiðsla veitt af hálfu Seðlabankans til að mæta verulega þessum vanda. Fyrirgreiðsla af þessu tagi hefur verið veitt á ýmsum tímum að einhverju leyti, en ekki alltaf. Það hefur verið nokkuð misjafnt frá einni ríkisstjórn til annarrar. En það er hins vegar alveg víst, að ekki hefur verið veitt jafnrífleg fyrirgreiðsla í þessu skyni og gert var að þessu sinni.