16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

121. mál, rannsóknir og viðvörunarkerfi í Mývatnssveit

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Það kemur mér talsvert á óvart að það skyldi þurfa nær 11 vikur til að undirbúa þetta svar hæstv. forsrh. um öryggi íbúa í Mývatnssveit. Því miður verð ég að segja að svar hans — sem ég þakka honum að öðru leyti fyrir — fullnægir hvergi nærri þeim óskum, sem íbúar í Mývatnssveit hafa lagt fram, né því, sem almannavarnanefnd þar telur að gera þurfi til að tryggja öryggi íbúa þar í sveit. Það er m.a. bent á að varnargarðar séu hvergi nægjanlegir og að viðvörunarkerfið sé ekki nægjanlega virkt. Það, sem olli því að viðvörunarkerfið reyndist vel í síðasta gosinu, var einfaldlega það, að Norræna eldfjallastöðin var að taka í notkun nýtt kerfi, sem hún hafði hannað, og var að gera það nákvæmlega sama daginn og gosið hófst. Þetta heitir nú bara heppni en ekki það, að stefnt hafi verið að þessu með nákvæmum og beinskeyttum undirbúningi þeirra manna sem eiga að fjalla um þessi mál.

Ég tel að það þurfi að gera miklu meira til að tryggja öryggi íbúa á þessu svæði. Eða getur einhver svarað því, hvernig eigi að bregðast við ef eldur kemur upp í Bjarnarflagi? Það er svo óhugnanleg mynd sem gæti við okkur blasað, ef það gerðist, að engin orð ná að lýsa henni.

Engu að síður vil ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svarið og þau orð, að ríkisstj. hafi ákveðið að veita Norrænu eldfjallastöðinni 200 þús. kr. viðbótarframlag til að geta gegnt þeirri skyldu sinni að halda áfram rannsóknum og gera betur úr garði það viðvörunarkerfi sem nauðsynlegt er. En ég vil hvetja hæstv. ríkisstj. til að huga vandlega að þessu máli. Jarðfræðingar og vísindamenn telja að þarna geti gosið á nánast hverjum einasta degi sem fram undan er á næstu vikum og mánuðum, og ég harmaði það mjög eftir þá umr., sem hér hefur átt sér stað, ef eitthvert slys yrði á þessu svæði vegna þess að ekki hefði verið leitað allra ráða til að tryggja öryggi íbúanna sem þar búa.

Ég fagna því, að nú skuli hafa komið fram hjá hæstv. forsrh. að uppi séu hugmyndir um að reyna t.d. kæli- eða vatnskerfi Kísiliðjunnar til að kæla hugsanlegt hraun sem kynni að renna á þessu svæði. Það eru nokkrar fréttir fyrir mig, að sú hugmynd skuli hafa komið fram og ætlunin sé að hrinda henni í framkvæmd. Engu að síður vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, að ég beini því til þeirra aðila, sem um þessi mál fjalla — það eru a.m.k. þrjú eða fjögur ráðuneyti sem um það fjalla, að þau geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi íbúa á þessu svæði, vegna þess, eins og segir í auglýsingunni, að þetta verður ekki tryggt þegar slysið er orðið.