16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

121. mál, rannsóknir og viðvörunarkerfi í Mývatnssveit

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju yfir því, að ríkisstj. hafi orðið við því að gera upp reikningana við Norrænu eldfjallastöðina. Við þm. þessa kjördæmis óskuðum eftir því, að við því yrði orðið við afgreiðslu fjárlaga, en það var ekki skilningur á því í fjvn. eða hjá fulltrúum ríkisstj. þar. Það er því vissulega ánægjulegt að ríkisstj. skuli nú hafa orðið við þessu. Hygg ég að sú fsp., sem hér var lögð fram, hafi átt sinn þátt í þeirri ákvörðun ríkisstj. Það hefur því sýnt sig að fsp. hefur verið þörf og komið að gagni.

Sannleikurinn er náttúrlega sá, að viðvörunarkerfið fyrir norðan er algerlega í lágmarki. Þetta er einfalt kerfi og ef einn hlekkur brestur verður viðvörunarkerfið gagnslaust. Það er sem sagt farið eins gáleysislega og hægt er í þessar sakir og veldur náttúrlega miklum kvíða, ekki síst fyrir þá sök að hraði hraunsins er svo mikill að hann er meiri en hraði rennandi vatns. Þess vegna ríður á mjög miklu að þarna sé vel fylgst með.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forsrh., að hann beiti sér fyrir að ríkisstj. verði einnig við tilmælum Almannavarna um frekari öryggisbúnað á þessu svæði, svo að þetta geti orðið forsvaranlegt og fólkið á þessum stað geti andað rólega og þurfi ekki að vera í sífelldum beyg og kvíða. Menn þurfa ekki lengi að ganga um þessi umbrotasvæði til þess að átta sig á hvað í húfi er og hversu naumur tími er til stefnu ef eldgos kemur upp í Bjarnarflagi.