16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

184. mál, ný samvinnufélagalög

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. hefur spurt um hvað líði undirbúningi nýrrar löggjafar um samvinnufélög og samvinnusambönd sem ákveðin var með ályktun Alþingis frá 29. maí 1980. Þessi ályktun var svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta í samráði við samvinnuhreyfinguna hefja undirbúning nýrrar löggjafar um samvinnufélög og samvinnusambönd.“

Í septembermánuði 1980 skipaði ég fimm manna nefnd til þess að undirbúa frv. að nýrri löggjöf um samvinnufélög og samvinnusambönd. Í þessari nefnd eru : Gaukur Jörundsson prófessor, formaður, Guðmundur Skaftason lögfræðingur, Halldór Ásgrímsson alþm., Baldur Óskarsson blaðamaður og Tómas Bergsson viðskiptafræðingur. Í júlímánuði í sumar ritaði ég nefndinni bréf og spurðist fyrir um, hvað þessu verki liði, og lagði áherslu á að nefndin hraðaði svo störfum að unnt yrði að leggja fram á þessu Alþingi lagafrv. um þetta mál.

Þær upplýsingar, sem ég hef fengið nú seinast um störf nefndarinnar, virðast mér benda til þess, að nefndin muni skila af sér svo tímanlega að e.t.v. verði mögulegt að leggja fram frv. á þessu þingi. Þó vil ég ekki að það verði skilið þannig að það sé loforð, vegna þess að það er ekki á mínu færi að lofa því, en það er stefnt að því að hraða undirbúningi þessa máls svo að hægt verði að leggja fram frv. á þessu þingi.