16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

184. mál, ný samvinnufélagalög

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir upplýsingar þær sem hann hefur hér gefið. Ég mundi telja það mjög mikilvægt og skemmtilegt ef unnt yrði að leggja þetta frv. fram nú fyrir þinglok, þannig að unnt yrði hugsanlega að afgreiða ný lög um samvinnufélög og samvinnusambönd á þessu ári, þessu merkisári í sögu íslenskrar samvinnuhreyfingar.

Eins og ég gat um áðan bar brýna nauðsyn til að gera miklar endurbætur á hlutafélagalöggjöfinni. Í því máli var geysimikið starfað veturinn 1977–1978 og afgreidd hin merkustu lög með mörgum nýmælum og stuðst bæði við löggjöf Evrópuríkja og við ameríska löggjöf.

Ég held að það sé mjög brýnt, að slíkar endurbætur verði gerðar á löggjöf um samvinnufélög að þau megi eflast. Ýmis nýmæli, — t.d. um hlutfallskosningar eða margfeldiskosningar, um betra eftirlit félagsmanna með störfum félaganna og opnun þeirra, ef við getum svo sagt, — sem upp voru tekin með hlutafélagalögunum, eiga vissulega ekki síður erindi til samvinnufélaganna, enda er það skoðun mín að t.d. opin almenningshlutafélög með nútímalegu sniði séu mjög skyld samvinnufélögum í eðli sínu og að slík félagsform þurfi að starfa hlið við hlið. Allir eru víst sammála um það, alþm. jafnt sem aðrir, að nú beri brýna nauðsyn til að efla mjög íslenskt atvinnulíf og gera stórátak svipað og einmitt var gert snemma á þessari öld, þegar þessi félagsform — samvinnufélög annars vegar og opin hlutafélög — voru að ryðja sér hér til rums. Sem sagt, það væri mjög æskilegt og ánægjulegt ef þessi löggjöf yrði sett á þessu ári.