16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

138. mál, öryrkjabifreiðar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 159 hef ég leyft mér að beina svofelldri fsp. til hæstv. viðskrh.:

„1. Hvernig reiknast álagning innflytjenda á öryrkjabifreiðar? Reiknast hún af sama verðgrunni og af bifreiðum til almennrar sölu eða er tekið tillit til niðurfelldra gjalda ríkisins við útreikning álagningar?

2. Hefur Verðlagsstofnun kannað þessi mál og hver er niðurstaðan?“

Í þessari fsp. felst í raun og veru það, hvort söluaðilar fái sama í sinn hlut hvort sem um er að ræða öryrkjabifreiðar, sem ríkið fellir niður stórfelldar upphæðir af, nú í ár sennilega um 35 þús. kr., eða aðrar bifreiðar. Spurt er um verðgrunn álagningar, því að eðlilegt væri að þegar ríkið greiðir svo rækilega fyrir kaupum þessara bifreiða verði hlutur söluaðilans ekki eins ríflegur og af sölu annarra bifreiða.

Í öðru lagi er spurt um hlut Verðlagsstofnunar af þeirri ástæðu, að forustuaðili í öryrkjasamtökunum tjáði mér að könnun væri í gangi hjá Verðlagsstofnun, enda um það beðið að sögn, en síðan hef ég heyrt það, eftir að þessi fsp. kom fram, að það sé kannske hæpið að þessi könnun hafi verið gerð af Verðlagsstofnun. Um það fást þá upplýsingar hjá hæstv. ráðh. Alla vega þykir mér rétt að fá um það óyggjandi svör hér, hvort söluaðilar taki sömu krónutölu fyrir sölu þessara bifreiða eða sömu álagningarprósentu, og þá alveg sérstaklega kannske þeirra tiltölulega fáu öryrkjabifreiða sem úthlutað er á hverju ári sérstaklega til fatlaðs fólks með aukafyrirgreiðslu af hálfu ríkisins til viðbótar við hina almennu niðurfellingu.