16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

138. mál, öryrkjabifreiðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur spurst fyrir um álagningu innflytjenda á öryrkjabifreiðar.

Álagningarheimild innflytjanda á bifreiðar er hin sama hvort sem þær eru seldar öryrkjum eða öðrum, þ.e. álagningin reiknast af sama verðgrunni, álagningargrunni. Þetta fyrirkomulag hefur verið í gildi alveg frá því að öryrkjar fyrst fengu heimild til þess að kaupa bifreiðar á grundvelli niðurfelldra aðflutningsgjalda.

Rökstuðningur fyrir þessu álagningarfyrirkomulagi á öryrkjabifreiðar er fyrst og fremst sá, að kostnaður innflytjanda vegna sölu á þeim er ekki minni en við sölu annarra bifreiða. Fjármagnskostnaður er svipaður þar sem aðflutningsgjöld koma yfirleitt ekki til greiðslu fyrr en um það leyti sem afhending bifreiðarinnar fer fram. Annar kostnaður við sölu bifreiða er síst minni þegar selt er til öryrkja en þegar selt er til annarra aðila. Að mati Verðlagsstofnunar hafa forsendur að baki gildandi álagningarreglna á öryrkjabifreiðar ekki breyst og því hefur ekki verið talið ástæða til að endurskoða þær.

Þegar innflutningsgjöld eru felld niður af vörum helst álagningargrunnur óbreyttur hjá innflytjandanum. Það er cif-verð að viðbættum innflutningsgjöldum o.fl. Álagningin er nú tvenns konar, 630 kr. föst álagning á hverja bifreið og auk þess 6% af álagningargrunni. Þá eru lagðir á vextir, kostnaður við standsetningu og ábyrgðargjald.