16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

350. mál, smáiðnaður í sveitum

Helgi Seljan:

Herra forseti. Sem 1. flm. að umræddri till. til þál., sem hér var samþykkt sem ályktun Alþingis, hlýt ég að fagna því, að þessi fsp. er fram borin og um hana rætt hér á Alþingi. Ég get ekki stillt mig um að þakka sérstaklega þá ágætu vinnu sem byggðadeild Framkvæmdastofnunar lagði í þetta verk. Ég var í raun og veru hissa á því, hvað margir möguleikarnir voru sem þeir unnu upp úr og bentu á. Um leið varð ég var við það, að áhugi var mikill á því í sveitahreppum, þar sem byggð stendur tæpt, að einhverjum slíkum smáiðnaði væri komið á. Það er að vísu rétt, að erfiðleikar iðnaðarins, hins almenna iðnaðar, eru nú nokkuð miklir og því eðlilegt að menn hiki kannske meira en ella vegna þess að þessi atvinnugrein hefur ekki gengið sérlega vel. En þó veit ég að nokkrar þreifingar eru um þetta víða úti í landshlutunum. Ég vil nefna það sérstaklega, að sá iðnþróunarfulltrúi eða iðnráðgjafi, eins og það heitir víst nú, sem starfar á Austurlandi, hefur unnið að nokkrum verkefnum þar, sem eru í góðum undirbúningi, í samráði við iðnrn. Ég veit að í nokkrum sveitum er þetta í allgóðri þróun og jafnvel að menn geti séð árangur af því innan tíðar.

Ég vil hins vegar taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að nauðsynlegt er, eftir að þessi undirbúningsvinna hefur farið fram, að hæstv. ríkisstj. taki um það endanlega ákvörðun, að framkvæmdir í þessa átt verði hafnar svo sem ályktunin segir til um.