17.02.1982
Efri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

203. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á lögum um innheimtustofnun sveitarfélaga er flutt eftir beiðni sem fram hefur komið frá embættismönnum í félmrn. og dómsmrn.

2. mgr. 3. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, hljóðar núna svo:

„Innheimtustofnunin getur tekið að sér, gegn greiðslu, hvers konar innheimtur fyrir einstök sveitarfélög, einkum þá innheimtu á sveitarsjóðsskuldum manna, sem fluttir eru á brott úr sveitarfélagi.“

Með frv. þessu er lagt til að við umrædda 2. mgr. bætist: „Stofnunin getur enn fremur, að beiðni ráðuneyta, með sama hætti tekið að sér innheimtu meðlagsskulda erlendra ríkisborgara búsettra hér á landi og meðlög, sem greidd eru erlendis vegna íslenskra ríkisborgara.“

Þessar breytingar eru til komnar eftir alllanga reynslu, sem fengist hefur af gildandi lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hér er um að ræða sjálfsagt mál sem nauðsynlegt er að leiðrétta vegna þess að Innheimtustofnunin hefur ekki getað innheimt meðlagsskuldir erlendra ríkisborgara hér á landi né heldur meðlög sem greidd eru erlendis vegna íslenskra ríkisborgara.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða um frv. þetta, svo litið sem það er, og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.