17.02.1982
Efri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

202. mál, birting laga

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Í fjarveru 1. flm. þessa frv., hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, leyfi ég mér að mæla fyrir því fáein orð. Frv. er á þskj. 333 og það er flutt að gefnu tilefni, en í síðustu viku urðu nokkrar umr. í Sþ. um hvernig staðið hefði verið að útgáfu brbl. hinn 14. jan. Þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir að við 1. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda bætist ein setning: „Bráðabirgðalög skal auk þess kynna með fréttatilkynningum til hljóðvarps, sjónvarps og dagblaða.“

Ég held að það sé alveg ljóst, að við útgáfu brbl. um miðjan janúar, útgáfu sem virðist hafa farið fram hjá hverjum einasta fjölmiðli í landinu, var efni laganna ekki kynnt með þeim hætti sem venja hefur verið til, þ.e. með því að senda fréttatilkynningar til útvarps, sjónvarps og dagblaða. Mér er það alveg ljóst, að þetta kann að eiga sér þá skýringu að þarna hafi einfaldlega mistök átt sér stað. Engu að síður hefur það verið venja að slíkur lagatexti, ýmist með eða án fréttatilkynninga, hefur verið sendur öllum fjölmiðlum og þannig hefur almenningur fengið vitneskju um útgáfu brbl. þannig að frá því er sagt í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi. Um miðjan janúar brá hins vegar svo við, að enginn fjölmiðill sagði frá útgáfu þessara brbl. vegna þess að við kynningu þeirra urðu þau mistök sem ég tel mig hafa hér rakið. Auðvitað er svo sem ekkert við því að segja.

Þetta frv. er flutt til að taka af öll tvímæli um það, að af hálfu ríkisstj. skuli útgáfa brbl. kynnt með fréttatilkynningum. Á vegum ríkisstj. starfar sérstakur blaðafulltrúi og sýnist mjög eðlilegt, og raunar hefur það verið svo um langa hríð, að slíkt verkefni væri í höndum hans. Til hvers starfar sérstakur blaðafulltrúi fyrir ríkisstj. ef það er ekki til að tilkynna ákvarðanir sem teknar eru með þessum hætti á fundum ríkisstj. og varða alla landsmenn eins og útgáfa brbl. hlýtur að gera?

Í grg. með þessu frv. segir, og ég ítreka það, að þetta frv. sé flutt til að taka af öll tvímæli um að ríkisstj. beri skylda til að kynna efni brbl. með því að senda fréttatilkynningar til fjölmiðla.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en legg til að þessu frv. verði vísað til allshn.