17.02.1982
Efri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

202. mál, birting laga

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hæstv. forsrh., að ég hafi talað hér um laumuspil. Ég taldi að hér hefðu mistök átt sér stað sem væri mennilegast að viðurkenna. (Forsrh.: Hv. þm. kallaði það laumuspil.) Í umr. í Sþ. um daginn beindi ég spurningum til hæstv. forsrh., tveimur eða þremur, og hann hefur ekki séð ástæðu til að svara þeim. Af því tilefni og í tilefni af orðum hans áðan, þar sem hann ber á okkur flm. þessa frv. að við förum rangt með, vil ég leyfa mér að ítreka spurningar mínar til hæstv. forsrh. og óska eftir svörum.

Forsrh. notaði aftur það orðalag áðan í þessum ræðustól að fjölmiðlar kynnu að hafa stungið þessum fréttatilkynningum undir stól. Það er alvarleg ásökun í garð íslenskra fjölmiðla ef tilkynningum um brbl. er stungið undir stól. Ég óskaði eftir því í umr. í síðustu viku, að hæstv. forsrh. upplýsti hvort það hafi gerst, að fjölmiðlar hafi stungið fréttatilkynningum um brbl. undir stól og ekki birt þær. Þetta óskaði ég eftir að yrði upplýst.

Í öðru lagi óskaði ég eftir að það væri upplýst, hvort það hefði gerst, að út hefðu verið gefin brbl. nú síðustu 15 árin, sem er sá tími sem ég þekki af störfum fréttamennsku, án þess að fréttatilkynning um brbl. eða lagatextinn sjálfur hafi verið sendur fjölmiðlum. Ég hygg að þetta muni vera í fyrsta skipti sem það hefur gerst.

Ég óska sem sagt eindregið eftir að hæstv. forsrh. afli svara við þessum spurningum vegna þess að annars stendur auðvitað óhaggað það sem er í grg. þessa frv.