18.02.1982
Sameinað þing: 55. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

98. mál, almannavarnir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða 98. mál þingsins, sem er till. um eflingu almannavarna. Þar sem ég er fyrsti flm. þáltill., en ásamt mér voru flm. hv. þm. Helgi Seljan, Eiður Guðnason og Guðmundur Bjarnason, vil ég lýsa yfir að ég er ánægður með þau úrslit sem fengist hafa með afgreiðslu nefndarinnar á þessu máli. Ég vænti þess, að tillgr., eins og hún var í upphafi hjá okkur flm., geti orðið góður umræðu- og starfsgrundvöllur þeirrar nefndar sem Alþingi hlýtur að kjósa innan skamms til að gera áætlun um eflingu almannavarna, eins og segir í tillgr. eftir þá breytingu sem orðið hefur á henni þegar hv. allshn. Sþ. hefur um hana fjallað.