18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fagna því, að fram skuli komið frv. um þetta efni, og hefði nú kannske mátt fyrr gerast. Hins vegar finnst mér ástæða til að fara um þetta frv. nokkrum orðum og gera e.t.v. fáeinar aths. Mér sýnist, þegar þetta frv. er skoðað og lesið, að þar hafi verið orðið við ítrustu kröfum þeirra sem um þessi mál einkanlega fjalla.

Mér finnst að það hljóti að vera athugunarefni, hvort nauðsynlegt sé að koma á fót sérstakri stofnun í þessu skyni, hvort ekki hefði verið eðlilegra að fela þetta t.d. Borgarbókasafni Reykjavíkur sem hefur annast það að hluta a.m.k. með ágætum árangri eftir því sem efni hafa staðið til miðað við þær reglur sem nú verður að vinna eftir. Raunar er ástæða til að geta þess, að sú stofnun, Borgarbókasafn Reykjavíkur, er fágæt meðal opinberra stofnana vegna þess að viðskiptavinir þeirrar stofnunar hafa það yfirleitt á tilfinningunni, þegar þeir koma þar inn, að stofnunin sé til fyrir þá, og þar er þjónusta til mikillar fyrirmyndar, en ekki eins og er í sumum öðrum opinberum stofnunum, því miður, sem almenningur þarf að eiga samskipti við, að fólki finnst að það sé eins konar aukapersónur eða sé fyrir starfsfólkinu og því til ama, erfiðis og leiðinda. Þess eru því miður dæmi um ýmsar opinberar stofnanir. En það sem ég vildi einkum vekja athygli á í þessu sambandi er sú spurning, hvort ekki sé hægt að sinna þessum málum öðruvísi en að koma upp sérstakri stofnun. Má vera að ég hafi ekki lesið þetta frv. nægilega grannt, en ég hefði gjarnan óskað eftir upplýsingum frá hæstv. ráðh., ekki endilega nú á þessari stundu, heldur síðar við umfjöllun þessa máls, hversu mikið er ætlað að rekstur þessarar stofnunar muni kosta.

Ekki er ég að draga úr því, að vel sé í þessu tilliti gert við þá sem eru sjónskertir eða blindir. Hins vegar rekur maður fljótt augun í þann þröskuld sem hér er, nefnilega þann, að íslenskir rithöfundar heimila ekki að til útlána séu nema þrjú eintök af bókum þeirra í slíku hljóðbókasafni, þrjú eintök og eitt geymslueintak. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi fyrir þá blindu og sjónskertu sem við þann aðila skipta sem dreifir hljóðbókum, að það séu ekki nema þrjú eintök til af hverri bók. Þetta knýr auðvitað á að samningar verði gerðir við rithöfunda. Eins og eðlilegt hlýtur að teljast verða þeir að fá einhverja umbun fyrir að verk þeirra eru flutt af hljóðböndum. Það hlýtur að vera mjög brýnt áð gera slíka samninga þannig að unnt sé að fjölga þeim eintökum sem eru til ráðstöfunar, vegna þess að það er í rauninni forsenda þess, að unnt sé að reka þetta safn. Ég minni á það í þessu sambandi, sem er mjög skylt þessu, að við þm. Alþfl. höfum einnig flutt till. um að hafnir verði samningar við eigendur höfundarréttar um leyfi til að setja efni á myndsnældur. Ég held að það geti ekki og megi ekki dragast að þetta hvort tveggja verði gert.

Ég minni á það líka í þessi sambandi, að þetta mál er einnig til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs, eins og hæstv. menntmrh. er örugglega kunnugt, en þar er till. í gangi, sem íslenskir þm. eiga m.a.aðild að, um framleiðslu og dreifingu hljóðbóka og blindraletursbóka á Norðurlöndunum. Er þar sömuleiðis um hið þarfasta mál að ræða, sem vonandi nær fram að ganga, að norræn samvinna aukist á því sviði.

Eitt atriði enn vildi ég gera aths. við. Ég sé að gert er ráð fyrir að þessi stofnun starfi í deildum og þar með verði sérstök tæknideild. Nú fylgir slíku verulegur tilkostnaður og því langar mig til að spyrja hæstv. menntmrh.: Innan væntanlega ekki margra ára, ef marka má spár hinna bjartsýnustu ráðamanna Ríkisútvarpsins, stórbatnar öll vinnuaðstaða þar og verða fyrir hendi mörg og fullkomin hljóðstúdíó til upptöku í þeim ríflegu húsakynnum sem Ríkisútvarpið fær til ráðstöfunar. Hefur verið kannað hvort ekki væri heppilegra og ódýrara fyrir alla aðila að Ríkisútvarpinu yrði einfaldlega falið að sjá um tæknilega hlið þessara mála, þ.e. framleiðslu og fjölföldun á hljóðböndunum? Ég hygg að slíkt gæti orðið til mikils sparnaðar.

Það má vel vera, þó að ég hafi vakið athygli á því og spurt sem svo, hvort nauðsynlegt væri að þetta væri sérstök stofnun, Blindrabókasafn Íslands, að menn komist að þeirri niðurstöðu að svo eigi að vera. Ég hygg þó að stefnan sé yfirleitt sú, að starfsemi fyrir fatlaða eigi sem mest að vera tengd annarri almennri starfsemi á sömu sviðum og það eigi ekki, sé þess kostur, að vera að setja starfsemi fyrir fatlaða á sérbás eða í sérstofnanir, heldur eigi þeir, eftir því sem efni standa til, að geta sótt þjónustu til sömu stofnana og þeir sem heilbrigðir eru. En ég hygg að með því að nýta tækniaðstöðu Ríkisútvarpsins, sem verður til innan væntanlega ekki mjög langs tíma, mundi það verða breyting til mikilla bóta og mætti gera þetta allt saman ódýrara og umfangsminna en fara að setja upp sérstök hljóðstúdíó vegna þess arna. Þar að auki held ég að megi sömuleiðis huga að því, hvort ekki sé hægt að hafa þessa starfsemi með almennum bókasöfnum.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að þessi starfsemi er nokkuð sérstaks eðlis og það eru helst þessi þrjú atriði: Í fyrsta lagi tæknihliðin, í öðru lagi hin almenna dreifing, þurfi nauðsynlega að vera sérstök stofnun sem annist þetta, sem ég held að sé ástæða til að athuga, og svo auðvitað í þriðja lagi það, sem er kannske allra mest knýjandi, að gerðir verði samningar við íslenska rithöfunda þannig að þeir sjái sér kleift að leyfa að séu til fleiri en þrjú einstök í hljóðbókasafni. Raunar er það svo því miður, að sumir rithöfundar banna alveg að bækur þeirra séu til útláns á bókasöfnum.