18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég tel ákaflega mikils um vert að gerðar verði af opinberri hálfu ráðstafanir til að styrkja á einn eða anna hátt fjárhagslega þá starfsemi sem verið hefur á höndum samtaka blinda fólksins um útgáfu, ef svo má segja, á góðum bókmenntum á segulbandsspólum, sem eru kallaðar hljóðbækur og er ekki verra heiti en hvað annað. Það má vel vera að þörf sé á lagagerð af þeirri tegund sem ráðgerð er í þessu lagafrv. um Hljóðbókasafnið. Ég er aftur á móti algerlega andvígur þeirri hugmynd, að við gefum því byr undir vængi að samtök rithöfunda, og er ég þó aðili að þeim, hafi uppi kröfugerð um sérstakar greiðslur höfundarréttar víð útgáfu af því tagi sem hér er um að ræða. Ég vildi líka ógjarnan að útgáfa á segulbandsspólunum eða hljóðbókunum lenti í þeim skurði sem útgáfa hefur viljað lenda í þegar hún er komin í hendur hins opinbera, að rithöfundar geti gert kröfu um að allar bækur eftir íslenska rithöfunda komi út á segulbandsspólum. Nóg er á ýmislegt fólk lagt þó að það fylgi ekki með, og hirði ég ekki að skilgreina þá hugsun mína nánar.

Ég held að frv., sem hér er flutt, sé gott, en þurfi athugunar við á ýmsum stöðum. Ég held að við verðum að gjalda varhug við því, að hljóðbókaútgáfan verði gerð að féþúfu á einn eða annan hátt, og er eindregið þeirrar skoðunar, að ágætir fulltrúar þess fólks, sem hér á einkum að hjálpa, hafi mjög afráðandi umsögn um hvaða bækur verði gefnar út á spólum. Hér hefur verið unnið gagnmerkt starf í sjálfboðavinnu fram að þessu. Fjöldi mjög góðra upplesara og náttúrlega, eins og að líkum lætur, dálítill fjöldi mjög slæmra upplesara einnig hefur lagt á sig vinnu við að lesa bækur inn á segulböndin, mjög mikla vinnu ókeypis. Ég sæi eftir því blóðugum augunum ef stofnun Hljóðbókasafnsins brygði fæti fyrir framhald á því starfi sem þar væri unnið sannarlega með réttu hjartaþeli. Ég veit að áhugi er mjög mikill hjá samtökum blindra um að komið verði formi á þessa starfsemi og hún hljóti eðlilegan fjárhagslegan stuðning. Ég vil aðeins undirstrika það, að hér er ekki bara um að ræða blinda fólkið, sem alls ekki getur lesið þorrann af þeim bókum sem gefnar eru út á Íslandi, heldur færist það æ meira í vöxt á spítölunum að það fólk, sem þó hefur sjónina, en brestur þrek til þess að fletta bók, getur ekki átt við það, fái léð segulbandstæki og spólur að rúmstokknum hjá sér.

Ég er þess fullviss að þetta mál verður athugað gaumgæfilega, svo sem hæstv. ráðh. óskaði eftir. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem fjalla mun um þetta mál, en ég vil ekki láta h já líða að undirstrika mjög svo greinilega þau atriði, sem lúta að sjálfboðastarfinu sem unnið hefur verið fram að þessu, og eins að við megum ómögulega gefa því undir fótinn á einn eða annan hátt, að hér verði í framkvæmd mál sem geti leitt til þess. að útgáfa af þessu tagi verði að reiknaðri tekjulind fyrir einn eða neinn.