27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Pétri Sigurðssyni, Steinþóri Gestssyni, Sverri Hermannssyni og Þorv. Garðari Kristjánssyni flutt till. til þál. um skipulegt átak í fiskræktarmálum. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði áætlun um skipulegt átak í fiskræktarmálum með það fyrir augum að nýta sem best ár og vötn svo og að nýta ferski vatn, heitt og kalt, til fiskeldis.

Í þessu sambandi verði áhersla lögð á:

1) Að efla rannsóknir og tilraunir í veiðimálum, svo að unnt sé að fá sem haldbesta vitneskju um þau skilyrði sem fyrir hendi eru í landinu til fiskræktar.

2) Að auka leiðbeiningar í fiskræki og veiðimálum, m. a. með því að fjölga fiskifræðingum sem staðsettir verði úti á landi.

3) Komið verði á samræmingu í fjárveitingu til fiskræktarmála og Fiskræktarsjóður verði efldur svo að hann verði fær um að styrkja framkvæmdir við fiskræki og fiskeldi í stórauknum mæli.“

Svo sem kunnugt er hefur farið fram mikil umræða hér á landi um þá starfsemi sem till. fjallar um. Hefur verið m. a. á það bent í ályktunum frá Búnaðarþingi og fleiri samtökum, að nauðsyn beri til að koma á nákvæmara skipulagi og skilgreina nánar þau markmið sem álitið er að hagkvæmast sé að stefna að í þessum efnum. Auk þess hefur fléttast inn í þessa umr. viðhorf manna til byggðamála og byggðajafnvægis. Hefur myndarlegt átak og skipulegt í þessum efnum jafnan verið haft á orði þegar fjallað hefur verið um aukin verkefni í sveitum landsins. Er það sannarlega ekki að ófyrirsynju því að í landinu búa miklir möguleikar að því er þessa starfsemi varðar. Hér eru um 250 ár og um 800 stöðuvötn stærri og smærri sem vatnafiskur gengur í í misjöfnum mæli. Það er mat þeirra manna, sem þekkingu hafa á, að þessir landkostir séu með engum hætti fullnýttir.

Mikilvæg reynsla hefur fengist í því starfi sem lýtur að uppbyggingu og ræktun á sviði veiðimála. Má þar til sanns vegar færa að á milli áratuganna 1960 og 1970 og aftur frá 1970 til 1980 hefur laxaræki aukist um 80% fyrir áhrif þessarar starfsemi. Þetta skýrir það betur en nokkuð annað, hve hér eru mikilvæg verkefni fram undan og nauðsynlegt að taka þau fyrir með skipulegu átaki. Mikilvægasta löggjöfin, sem leggur grundvöll að þessari starfsemi, er lax- og silungsveiðilöggjöfin sem þetta merka starf hefur byggst á á síðari árum. Ber þar helst að nefna starfsemi fiskræktar- og veiðifélaga. Þau eru nú hér á landi 146 sem sjá um fiskræki og ráðstöfun veiði hvert á sínu svæði.

Veiðifélög mörg hver hafa staðið vel að sínum málum og skilað góðu starfi. Þau hafa stofnað með sér öflugt landssamband, Landssamband veiðifélaga, sem vinnur að sameiginlegum málum félaganna. Þá eru enn fremur starfandi tugir stangveiðifélaga sem hafa á leigu ár og vötn til stangveiði og vinna ásamt veiðifélögunum að fiskrækt. Stangveiðifélögin hafa einnig með sér samband, Landssamband stangveiðifélaga, sem vinnur að sameiginlegum málum þeirra. Þá eru starfandi í landinu 12 fiskeldisstöðvar auk nokkurra hafbeitarstöðva. Þessi starfsemi hefur átt í fjárhagsörðugleikum, m. a. vegna skorts á lánsfé til uppbyggingar. Starfsemi fiskeldisstöðvanna er afar mikilvægur þáttur í fiskræktarmálum þar sem til þeirra verður að sækja seiði til fiskræktar og hafbeitar.

Þáttur hins opinbera kemur m. a. fram í starfi Veiðimálastofnunar. Þar hefur einkum verið unnið að uppbyggingu veiðimála með leiðbeiningum, athugun á ám og vötnum, rannsóknum á vatnafiskum, bæði laxi og silungi, og með eldi þeirra fiska í tilraunastöðinni í Kollafirði svo og með hafbeit. Þetta starf hefur leitt af sér margháttaðan fróðleik, upplýsingar og athyglisverðar niðurstöður, enda þótt starfsemin hafi jafnan búið við þröngan kost.

Í veiðimálum er þegar fyrir hendi mikil þekking og reynsla til að grundvalla nýtt og víðtæki átak á, m. a. með það að markmiði að auka fjölbreytni í atvinnu sveitafólks. Til þess að svo verði þarf með auknum leiðbeiningum að koma þeirri þekkingu, sem nú er fyrir hendi, til þeirra sem hafa ekki enn nýtt sér möguleika sem kunna að vera víða um land, jafnframt því sem nýrrar þekkingar er aflað með auknum rannsóknum og tilraunum. Enn fremur sé þess gætt, að öll þessi mikilvæga starfsemi í fiskræktarmálum njóti nauðsynlegs framlags til uppbyggingar og rekstrar.

Hér er fjallað um mikilvægt mál og reynir nú á hvort á vettvangi hinnar almennu umræðu fylgi hugur máli um gagnrýni þess að byggja upp öflugt og víðtækt starf til eflingar fiskræktarmálum.

Þetta mál var flutt hér á síðasta Alþingi og varð þá síðbúið. Hins vegar fékk það góðar undirtektir bæði hér við umr. í Sþ. og eins við umfjöllun í atvmn. Sþ. Vænti ég að svo muni enn reynast.

Ég geri það svo að till. minni, herra forseti, nú í lokin að málinu verði vísað til atvmn.