18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég er einn flm. þessa frv. á þskj. 321 sem hæstv. félmrh. vitnaði til áðan og gengur mjög í sömu átt og þetta, þó að þetta stjfrv., sem hann mælti fyrir, taki til nokkru fleiri atriða.

Ég vil aðeins láta þess getið hér, láta það koma skýrt fram, að síðan frv., sem ég vitnaði til áðan, var flutt hef ég fengið aths. a.m.k. úr tveimur áttum um hversu óeðlilegt sé að tvískipta sveitarstjórnarkosningum milli dreifbýlis og þéttbýlli sveitarstjórnareininga. Hæstv. félmrh. fjallaði nokkuð um þetta áðan og sagði að aths., sem hnigu í þá átt að nauðsynlegt væri að hafa þessa kosningu tvískipta, hefðu komið frá ýmsum aðilum sem teldu sig þekkja vel til í landbúnaði. Nú leikur mér nokkur forvitni á að vita hvað hæstv. félmrh. á nákvæmlega við með þessum orðum. Var þetta mál kannað hjá sveitarfélögunum sjálfum? Voru þau spurð álits áður en gengið var frá þessu? Það hefði mér fundist hin eðlilega leið. Þeir, sem beint hafa aths. til mín af þessu tilefni, hafa lagt á það mjög þunga áherslu að það sé óeðlilegt að landsmönnum sé skipt með þessum hætti þegar þeir kjósa sér sveitarstjórnarmenn. Af hverju eigum við að fara að ganga frá okkar málum, sagði einn oddviti við mig, þegar öll þjóðin því sem næst er búin að kjósa sína sveitarstjórnarmenn? Og hann bætti við að þau rök, sem e.t.v. hefðu í upphafi verið fyrir þessari tvískiptingu, þ.e. kannske erfiðar samgöngur að vori, sauðburður o.fl., ættu ekki við lengur. Þjóðfélagið hefði tekið þeim stakkaskiptum að mönnum ætti ekki að vera það tiltakanlega erfitt að komast á kjörstað þennan dag í maí. Mér finnst það satt að segja umhugsunarefni hvort ástæða sé til að vera að flokka þetta svona, hvort það sé ekki hin eðlilega regla að allir landsmenn kjósi sína sveitarstjórnarfulltrúa sama daginn. Þetta held ég að hljóti að þurfa að koma til athugunar. Reynist það svo, að það sé vilji þeirra, sem í þessum sveitarfélögum búa, að hafa þetta með þessum hætti, þá er auðvitað ekkert við því að segja. Mér finnst nauðsynlegt, þó að kannske gefist varla ráðrúm til þess núna, að kanna þetta og þeir, sem þarna eiga hlut að máli, fái að segja meiningu sína um með hverjum hætti þeir vilja hafa þetta.

Önnur atriði í þessu frv. vil ég taka undir. Það er varla vansalaust hversu seinir við Íslendingar erum til að taka upp það sem búið er að samþykkja í Norðurlandaráði fyrir löngu og það sem, eins og hæstv. félmrh. gat um, Finnar og Svíar gerðu 1976, Danir 1978 og Norðmenn 1979. Er óhjákvæmilegt að við séum alltaf síðastir í þessum efnum? Þetta er ekkert einsdæmi. Mér er kunnugt um það á öðrum sviðum, t.d. að því er varðar samnorrænt ökuskírteini, ökuskírteini sem gildir um Norðurlöndin öll. Þar erum við að vísu ekki alveg einir á báti. Það er önnur þjóð sem hefur ekki tekið slíkt skírteini upp, en þrjár eru búnar að því. Þurfum við alltaf að vera síðastir? Hvað veldur því, að þetta hefur ekki komið frá stjórnvöldum fyrr en nú? Það væri fróðlegt að fá svar við þessu. En annars lýsi ég stuðningi við það sem felst í þessu frv., og verði raunin sú, að því verði vísað til allshn., mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir að afgreiðslu þess verði flýtt svo sem verða má, en að sjálfsögðu að málið fái þá athugun sem nauðsynleg er.