18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að mér hafi orðið fótaskortur á tungunni þar sem ég fjalla hér um mál sem formaður Alþb. flytur. Ég hygg að það skipti engu máli fyrir allshn. Ed. þótt þetta mál fari til félmn., og hefði ég ekki gengið hér í ræðustól til að orðlengja það, heldur var það rétt einu sinni að hv. þm. Eiður Guðnason gaf mér tilefni til þess að láta ljós mitt skína úr ræðustól — þau ummæli hans að það séu orðin úrelt viðhorf út af fyrir síg að taka tillit til sauðburðar við ákvörðun kjördags. Ef ég hef misskilið orð hv. þm. leiðréttir hann það.

Séu það orðin úrelt viðhorf að taka tillit til slíkra hluta ellegar að framfylgja, hvað svo sem sauðburðinum viðvíkur, kosningunum á mismunandi degi eftir því hvort um er að ræða þéttbýli eða strjálbýli, þá vil ég halda því fram, að það séu býsna úrelt viðhorf að miða hátíðisdaga þjóðkirkjunnar við tunglkomu, svo sem hvítasunnuna. Þó að ég leggi alls ekki til að frestinum að aðdraganda hvítasunnunnar frá páskum verði breytt á nokkurra handa máta væri mér meira að skapi að lögunum um hátíðisdaga þjóðkirkjunnar yrði breytt þannig að menn gætu gengið að þeim nokkurn veginn vísum eins og öðru í almanakinu frá ári til árs, ef slíkt reyndist ekki hrófla við grundvallaratriðum kristinnar trúar, sem kæmi sennilega mjög fljótt í ljós ef slík mál yrðu reifuð. En þó við látum nú hvítasunnuhelgina hafa sinn framgang svo sem verið hefur um aldir, og miðum hvítasunnuna við páskatungl, væri ákaflega auðvelt, vegna þess hversu sjaldan það kemur fyrir að hvítasunnuna ber upp á svo síðla í maí, þá væri miklu auðveldara að tilgreina þau ártöl, þegar frávik yrðu frá þessu, en vera að tilnefna hvítasunnuna sjálfa. Við getum fengið þetta reiknað auðveldlega út með skjótum hætti uppi í Háskóla. Og jafnvel þó þeir vísu menn, sem þar sitja, kynnu að hafa öðrum störfum að sinna þessa dagana eru meira að segja karlar hérna, þ. á m. einn af suðurlandsundirlendi, tvo veit ég um af Vestfjörðum, sem kunna fingrarím og gætu hæglega gert þetta fyrir okkur þannig að við gætum tilnefnt þau ártöl næstu 100–200 árin þar sem afbrigði eru frá þessu. Stæði þá í frv.: nema þetta og þetta ártal. Einhvern veginn finnst mér að tilvísun í hvítasunnukomur sé hálfskothend í lögum að þessu leyti og þarfnast þá nánari skýringar heldur en hitt, hvers vegna við undanþægjum þessi tilgreindu ártöl.