18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er fyrst út af því sem hér kom fram varðandi það, hvort þetta mál hefði verið borið undir sveitarfélögin. Ég hef ekki gert það. Ég bar þetta ekki undir Samband ísl. sveitarfélaga formlega á undirbúningsstigi. Ég vildi ekki hafa það þannig. En þetta frv. hefur verið rætt við forráðamenn Sambands ísl. sveitarfélaga og ég held megi segja að þessi aths. varðandi tvo kjördaga sé þaðan ættuð. En það er að sjálfsögðu á valdi Alþingis að ákveða hvernig þessu verður háttað.

Það, sem kom fram sem rök í þessu máli, var ekki það, að slæm færð væri á þessum tíma eða menn væru svo önnum kafnir við sauðburð að þeir kæmust ekki til að kjósa. Það eru ekki heldur boðleg rök lengur. Rökin voru þau, að í litlum fámennum sveitahreppum eru þriggja manna kjörstjórnir og það verða að vera menn sem búsettir eru í viðkomandi hreppi. Þeir yrðu tepptir allan daginn yfir kosningunum. Var talið að það væri mjög erfitt fyrir þá að koma því við að vera fjarri heilan dag á þessum tíma. Þetta voru rökin sem ég gat út af fyrir sig fallist á, en ekki hin fyrri, vegna þess að mér finnst þau tæplega standast lengur miðað við okkar aðstæður. (Gripið fram í.) Þeir eru það kannske ekki beint sjálfir. Ég var líka sömu skoðunar og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, að það gæti orðið til að tefja málið að fara að breyta þessu núna, að það yrði að gera það frekar með betri fyrirvara, ekki á næsta þingi fyrir kosningar. Þess vegna var það sem ég að síðustu féllst á að hafa þetta eins og hér er gert ráð fyrir. Ég vona fastlega að þingið samþykki þetta svona, þó að menn hafi kannske ýmsar aths. að gera, vegna þess að ég held að hitt mundi kalla á tafir í málinu sem eru afleitar.

Varðandi það, hvernig stendur á því að þetta mál kemur ekki fyrr, þ.e. varðandi norræna ríkisborgara sem hér eru búsettir, er því til að svara, að fljótlega eftir að ég kom í félmrn. og við fórum að athuga þar ýmis mál tókum við ákvörðun um það fyrir okkar leyti að reyna að koma þessum málum í gegn. Ég get ekki svarað því, af hverju það var ekki gert áður, veit ekki af hverju það stafar. En ég vil taka undir þau orð hv. 5. þm. Vesturl., að iðulega koma ýmsir hlutir, sem eru í norrænum samningum, afar seint hingað til okkar á Íslandi í framkvæmd.

Síðan kom fram góð aths. við síðustu mgr. 2. gr., þ.e. sá möguleiki að maður geti kosið tvisvar, geti fyrst kosið í þéttbýli og síðan flutt sig daginn eftir kjördag eða svo í dreifbýlishrepp og kosið þar líka, eins og ákvæðin eru hér orðuð. Ég held að það sé rétt að taka af öll tvímæli í þeim efnum og slá því föstu, að maður hafi tæmt sinn rétt, sá sem hafi kosið einu sinni til sveitarstjórnar eigi ekki rétt á að kjósa til sveitarstjórnar eftir fáar vikur aftur í allt öðrum hreppi. Ég held að það verði að vera nokkuð skýrt. En þetta er atriði sem kom ekki til athugunar á undirbúningsstigi svo að það er nauðsynlegt að nefndin athugi það alveg sérstaklega og taki af tvímæli.

Í framsöguræðu minni gat ég um það, að ég teldi eðlilegra að þetta mál færi til félmn. af rökum sem ég þá rakti. Nú hefur hæstv. forseti látið kanna þetta mál og hefur komið í ljós að breytingar á sveitarstjórnarlögum hafa jafnan farið til allshn. Ég fellst að sjálfsögðu á að svo verði áfram, enda hefur nefndin áður fjallað um svipuð frv. og eðlilegt að hún haldi því áfram og tryggi að fullt samræmi sé í málum.

Ég endurtek þá ósk mína til nefndar og hv. deildar, að reynt verði að flýta þessum málum svo sem frekast er kostur. Ástæðan til þess, að það er nauðsynlegt, er fyrst og fremst sú, að það þarf að birta auglýsingu í Lögbirtingablaði og víðar um hvaða hreppar það eru og sveitarfélög sem falla undir þá skilgreiningu, sem fram kemur í 1. gr., að kosið skuli til sveitarstjórnar síðasta laugardag í maímánuði. Það verður nokkur breyting frá því síðast. Það koma inn a.m.k. þrjú sveitarfélög í viðbót, sem ég man eftir í svipinn, sem eru Þorlákshöfn, Hvolsvöllur og Vík í Mýrdal. Þetta bar að tilkynna með formlegum hætti hið allra fyrsta, og það er af þeim ástæðum sem ég fer fram á það við hv. deild og nefnd að málinu verði hraðað hið allra mesta.