27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa eindregnum stuðningi við þá þáltill. sem hv. þm. Egill Jónsson hefur gert hér grein fyrir. Það er ekki nógsamlega gert hér á þingi að flytja mál af þessu tagi sem stuðla að aukinni fiskræki í landinu og skipulegu átaki í fiskræktar- og veiðimálum. Það er nú einu sinni svo, að þeir brautryðjendur, sem hafa um margra ára og jafnvel áratuga skeið reynt að koma einhverju lagi á þennan málaflokk hér á Íslandi, hafa fengið heldur dræmar undirtektir stjórnvalda oft og tíðum og ekki síður peninga- og lánstofnana sem þeir hafa þurft að leita til. Sannleikurinn er sá, að svo litlar undirtektir hafa þessir brautryðjendur fengið að nágrannaþjóðir okkar, t. d. Norðmenn og Kanadamenn, eru algjörlega að skjóta okkur ref fyrir rass á þessu sviði, komnir langt fram úr okkur og jafnvel frændur okkar í Færeyjum eru að fara fram úr okkur í fiskræktarmálum, einkum þó í því tilliti, að þeir njóta mun meiri stuðnings og meiri skilnings á því starfi sem þeir vilja vinna. Það hefur t. d. gerst í sumar, að framleiðsla Norðmanna á laxi, sem þeir hafa flutt á markað í Evrópu, er orðin svo mikil, að fyrri hluta sumars varð verðfall á laxi. T. d. gekk treglega að selja lax frá Íslandi á tímabili. Ekki veit ég hvernig sú staða er nú en framleiðsla Norðmanna var orðin þetta mikil. Kanadamenn hafa einnig verið að flytja Kyrrahafslax með flugvélum á Evrópumarkað og tekið þar stóran hluta af þeim markaði sem við t. d. notuðum áður, enda þótt Kyrrahafslaxinn sé ekki talinn eins góður matarfiskur og Atlantshafslaxinn.

Mál af þessum og svipuðum toga spunnin hafa komið hér fram á Alþingi alloft og hafa yfirleitt fengið góðar undirtektir en síðan varla söguna meir. Nú er í endurskoðun löggjöf um lax- og silungsveiði og væntanlega verður þar tekið tillit til þess breytta viðhorfs sem komið hefur fram hér á landi til þessara mála, m. a. í þá veru að unnt verði að efla stórlega Fiskræktarsjóð. Við Alþfl. menn höfum raunar gert till. um það við afgreiðslu fjárlaga tvö ár í röð að hann yrði stórkostlega efldur að fjármagni svo að hann gæti staðið undir því verkefni sem hann var stofnaður til.

Ég vil enn fremur benda á að þetta mál er að hluta til tengt málaflokki sem afgreitt var frv. um á síðasta þingi, þ. e. frv. um ræktun og eldi sjávarfiska, sem er ekkert síður stórt mál. Mér finnst að menn ættu að hugleiða það, þegar fjallað verður um þetta skipulega átak, að taka inn í þá mynd eldi sjávarfiska sem að mínu áliti mun verða eitt af stórkostlegu framtíðarverkefnum varðandi sjávarútveg hér á landi.

Ég lagði leið mína í þennan ræðustól til að lýsa eindregnum stuðningi mínum og míns flokks við þessa till. og mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að hún geti fengið góðan og skjótan framgang. Allar till. af þessu tagi eru af hinu góða, vegna þess að hér er hreyft málum sem varða mjög framtíð þessa lands og nýjar atvinnugreinar, þó að segja megi að um stund a. m. k. horfi erfiðlega um það, hvernig takast megi að greiða fram úr þeim mikla vanda sem t. d. fiskeldisstöðvar í landinu standa núna frammi fyrir. Þær hafa t. d. ekki getað selt seiði sín og hafa átt almennt við rekstrarörðugleika að etja.

Herra forseti.. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég hef margoft í ræðum hér á þingi lýst eindregnum stuðningi við og reynt raunar að hafa einhverja forustu um málefni af þessu tagi. Það sæti því síst á mér að gera annað en styðja rösklega við bakið á þessu máli. Og ég vænti þess, sem ég hef oft sagt áður, að menn átti sig á því, að hér er ekki eingöngu á ferðinni áhugamál einstaklinga sem vilja stofna til hlutafélaga og græða milljónir — sem sumir halda að liggi í þessum rekstri, en það er auðvitað fjarri öllu lagi — heldur er hér um að ræða nýja búgrein, t. d. fyrir bændur. Ég held að það hafi verið á þingi Stéttarsambands bænda, annaðhvort síðast eða næstsíðast, sem samþykki var ályktun í þessa átt. Menn virtust hafa fengið aukinn áhuga á því að gera fiskræki að eins konar aukabúgrein eða fiskbúskap, og það er hluti af því máli sem hér er til umr.

Að endingu þetta: Ég styð eindregið þessa þáltill.