18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir þá skýringu sem hv. 9. þm. Reykv. gaf í sambandi við þetta mál. En ég vil koma því hér að, af því að ég var ekki viðstaddur þegar málið var til 1. umr., að auðvitað er það góðra gjalda vert að lögfesta samstarf Alþingis og þjóðkirkjunnar, og mér finnst ástæða til þess að segja frá því hér, ef það hefur ekki komið fram áður, að það er þegar starfandi samstarfsnefnd Alþingis og kirkjunnar. Þingflokkar hafa tilnefnt fulltrúa í samstarfsnefnd við kirkjuna og sú nefnd hefur starfað núna um þrjú ár og haldið nokkuð marga fundi. Ég trúi því, að það hafi orðið til góðs fyrir þessi málefni, sem vissulega þurfa að vera í föstu formi, og ég tel skynsamlegt að fara inn á þá braut að tengja Alþingi og þjóðkirkjuna með þessum hætti. Það hlýtur að vera af því góða. Og ég efast ekkert um að þessi till., ef samþykki verður, staðfestir þetta samstarf.