18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum.

Frv. þetta skiptist í fjóra kafla. Í fyrsta kaflanum er fjallað um tollafgreiðslugjald. Í öðrum kaflanum er gerð tillaga um nokkrar breytingar á lögum um launaskatt, m.a. um lækkun launaskatts í tilteknum atvinnugreinum. Í þriðja kafla eru tillögur gerðar um breytingar á lögum um stimpilgjald og er það einnig lækkun á skattlagningu. Og í fjórða lagi eru tillögur gerðar um breytingu á lögum um sérstakt innflutningsgjald á sælgæti og kex, en það er um framlenging á gildandi lagaákvæðum og niðurfellingu þess gjalds í áföngum.

Eins og hv. alþm. er kunnugt birti ríkisstj. skýrslu um aðgerðir í efnahagsmálum hinn 28. jan. s.l. Í þeirri tilkynningu voru boðaðar margháttaðar aðgerðir í efnahagsmálum. Meðal þeirra ráðstafana, sem tilkynntar voru, var það atriði, að á næstu mánuðum yrði um að ræða 6% niðurfærslu verðlags með lækkun tolla og hækkun niðurgreiðslna á búvörum. Tilgangur þessarar aðgerðar er að sjálfsögðu sá að hamla gegn verðbólgu. Er það markmið ríkisstj. að verðbólga verði um 35% frá upphafi til loka þessa árs.

Fyrsti áfangi þessara aðgerða hefur þegar komið til framkvæmda, þ.e. lækkun tolla um helming á ýmsum rafmagnsheimilistækjum, en frv. um það efni var lagt fram á Alþingi 1. febr. s.l. og afgreitt sem lög daginn eftir. Næsti áfangi var jafnhliða framkvæmdur, en það var veruleg aukning niðurgreiðslna í byrjun mánaðarins. Frekari aðgerðir af þessu tagi munu eiga sér stað 1. mars n.k., 1. maí og 1. júní samkv. nánari ákvörðun sem tekin verður síðar. Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs við þessar niðurfærsluaðgerðir á árinu 1982 nemi um 350–360 millj. kr. Það er alltaf dálítið erfitt að áætla nákvæmlega kostnað af niðurfærslu- og niðurgreiðsluráðstöfunum af þessu tagi, eins og hitt er líka vandasamt, að áætla tekjur af óbeinum sköttum, því að sjálfsögðu veltur það á sölunni á þeim tækjum eða vörum, sem verið er að greiða niður, eða þeim hlutum sem skattlagðir eru. En hér er reynt að áætla kostnaðinn um það bil 350–360 millj. kr.

Eins og áður hefur komið fram er ætlunin að fjármuna til þessara aðgerða verði fyrst og fremst aflað með því fé, sem tiltækt er á fjárlögum, með sérstökum sparnaði þannig að fjárlagatölur ársins 1982 verði lækkaðar um 120 millj. kr., og með skatti á starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, en sá skattur er áætlað að nemi 45–50 millj. kr.

Auk þeirra aðgerða í efnahagsmálum, sem ég hef hér gert grein fyrir, var lýst yfir að ríkisstj. mundi stuðla að nokkrum breytingum á tekjuöflun ríkissjóðs. Þessar breytingar eru einkum fólgnar í gjaldalækkun til hagsbóta fyrir útflutningsatvinnuvegina með lækkun launaskatts og lækkun stimpilgjalda, en jafnframt er að því stefnt að leggja á sérstakt tollafgreiðslugjald til að mæta þeim tekjumissi sem ríkissjóður verður fyrir vegna þessara gjaldalækkana.

Í grg. frv. er gerð grein fyrir þeim breytingum sem verða á tekjuöflun ríkissjóðs ef þetta frv. verður samþykkt. Þær breytingar eru á þann veg, að tollafgreiðslugjald er áætlað að gefi 54 millj. kr., innflutningsgjald af sælgæti og kexi gæti gefið á einu ári um 8 millj. kr., meðan aftur á móti lækkun launaskatts og lækkun stimpilgjalds gæti samanlagt lækkað tekjur ríkissjóðs um 50 millj. Er því mismunurinn um 12 millj. kr., sem kemur þá upp á móti því sem á vantar að tekjuöflun eða fjárstreymi vegna niðurfærsluráðstafana, sem ég gerði grein fyrir áðan, nægi til að standa undir þeim ráðstöfunum.

Rétt er að taka það fram, að hækkun eða lækkun tekna ríkissjóðs vegna þeirra breytinga á gjöldum er miðuð við eitt ár og breytingin er að sjálfsögðu talsvert minni ef aðeins er litið á árið 1982, en það veltur m.a.á því, hvenær þau taka gildi. Gert er ráð fyrir að lögin geti tekið gildi um næstu mánaðamót. Hér er því ekki um að ræða nema í mesta lagi 10 mánaða gjaldtöku eða gjaldniðurfellingu.

Rétt er að geta þess, að lagt verður fram frv. um skatt á banka og sparisjóði sérstaklega. Verður það mál tekið fyrir sér, enda er þar um viðamikið og flókið mál að ræða og þótti réttara að hafa það í sjálfstæðu frv.

Ég vil nú víkja að einstökum atriðum frv. og þá fyrst að tollafgreiðslugjaldinu í I. kafla þess. Lagt er til að tekið verði upp sérstaki gjald vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum. Eins og fram kemur er gert ráð fyrir að gjaldið verði tvenns konar, þ.e. annars vegar gjald sem er ákveðið hlutfall af tollverði innfluttrar vöru, 1%, það er almenna gjaldið, og svo hins vegar tiltekin fjárhæð fyrir hverja tollafgreiðslu í þeim tilvikum þegar almenna gjaldið á ekki við. Það er sem sagt lagt til samkv. frv. að nokkrir vöruflokkar verði undanþegnir þessu almenna 1% tollafgreiðslugjaldi. Það eru í fyrsta lagi matvörur, þ.e. vörur sem falla undir 1. 4. flokk tollskrárlaganna og ætlaðar eru til manneldis. Það eru í öðru lagi svokallaðar EFTA-vörur, þ.e. vörur sem við tollafgreiðslu eru undanþegnar tolli samkv. ákvæðum samnings um aðild Íslands við Efnalagsbandalag Evrópu. Það eru í þriðja lagi ýmiss konar aðföng til innlendrar framleiðslu, þ.e. hráefni, efnivörur og vélar og varahlutir sem nú eru toll- og vörugjaldsfrjáls við innflutning samkv. ákvæðum tollskrárlaga. Í fjórða lagi er um að ræða eldsneyti, fljótandi eldsneyti, flugvélaeldsneyti, gasolíu og brennsluolíu og í fimmta lagi skip, flugvélar og varahluti til þeirra.

Eins og fram kemur í 1. gr. er þetta ákveðna krónutölugjald ákveðið með reglugerð. Ég vil taka það sérstaklega fram í þessu sambandi, að í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu, að ákveðið sé í lögunum að þetta gjald skuli innheimt. Það, sem skiptir máli, er fyrst og fremst það, að heimilt sé að undanþiggja ákveðna vöruflokka þessu gjaldi ef sérstök nauðsyn þykir bera til. Þetta er skýrt í grg. frv. þar sem vakin er athygli á því, að fyrst í stað verði þetta sérstaka krónutölugjald ekki lagt á EFTA-vörurnar, þ.e. annan vöruflokkinn, þar sem talið er nauðsynlegt að kynna það mál innan þeirra alþjóðlegu samtaka sem við eigum aðild að, EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu. Þess vegna verður einhver bið á því, að gjaldið verði lagt á þann vöruflokk. Af þeirri ástæðu þótti eðlilegra að þetta væri heimildarákvæði og í reglugerð yrði þá til bráðabirgða þessi vöruflokkur undanþeginn. Ég hef hins vegar orðið var við það, að mönnum þykir í þessu fólgið eitthvert óeðlilegt valdaafsal til ráðherra. Sjálfsagt er að breyta þessu, ef mönnum þykir betra að Alþingi ákveði þetta gjald og síðan sé þá ráðherra heimilt að fella niður gjaldið til bráðabirgða af ákveðnum vöruflokkum.

Ég vil hins vegar segja það um þetta atriði, að í þessari löggjöf eru auðvitað fjöldamörg ákvæði þess efnis, að Alþingi ákveður með lógum í samræmi við stjórnarskrá að leggja gjald á, en felur síðan framkvæmdavaldinu að ákveða upphæð gjaldsins eftir því sem talið er skynsamlegt á hverjum tíma og innan ákveðinna marka. Þetta hefur reynst alveg sérstaklega eðlilegt og nauðsynlegt í þjóðfélagi okkar þar sem mikil verðbólga er ríkjandi og oft þarf að breyta gjöldum. Þannig hefur framkvæmdavaldið fengið heimild Alþings til þess að hækka bensíngjald með jöfnu millbili, flugvallagjald og raunar fjölmörg önnur gjöld.

Í II. kafla frv. eru ákvæði um launaskatt. Þar er aðalatriði málsins að verið er að lækka launaskatt á útflutnings- og samkeppnisiðnaði og hjá fyrirtækjum í fiskverkun. Það skal tekið fram, að strax þegar ákvörðun var tekin um að fella niður þetta gjald, var gert ráð fyrir að niðurfellingin væri þó í iðnaði bundin við útflutnings- og samkeppnisiðnað, enda er verið að veita þessum atvinnugreinum sérstakan stuðning. Ef við aftur á móti förum yfir í þjónustuiðnaðinn, viðgerðariðnaðinn eða byggingariðnaðinn, þá er auðvitað orðið mjótt á mununum milli þessara atvinnugreina annars vegar og svo ýmiss konar almennrar þjónustu í þjóðfélaginu, sem ætti þá kannske alveg sama rétt á því að fá þennan skatt niður felldan. Einhvers staðar verður að draga mörkin ef niðurfellingin er ekki almenn, og það þykir rétt að takmarka niðurfellinguna við útflutnings- og samkeppnisiðnaðinn eins og skýrt kemur fram í frv. Um þetta er fullt samkomulag í ríkisstj. og milli stjórnarflokkanna og hefur verið, enda frá öndverðu við það miðað að niðurfellingin væri takmörkuð við þessa mikilvægu þætti iðnaðarframleiðslunnar í landinu.

Annað aðalatriðið í sambandi við breytingar á lögum um launaskatt er það, að ákveðið er að til viðbótar því álagi, sem fellur á launaskatt ef hann er ekki greiddur á réttum tíma, skuli greiða dráttarvexti af vangreiddum launaskatti fyrir hvern byrjaðan mánuð frá og með fyrsta degi næsta mánaðar eftir eindaga. Dráttarvextirnir verða hinir sömu og dráttarvextir hjá innlánsstofnunum, sbr. 13. gr. laga nr. 10 29. mars 1961 og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

Það er rétt að vekja á því athygli, að innheimta launaskatts hefur verið í nokkru ólagi vegna þess hvað viðurlög við vangreiðslum hafa verið léttvæg. Menn hafa komist upp með það að fá 25 % hækkun skattsins og hafa augljóslega haft mikinn hag af því að sleppa því að greiða skattinn svo sem eins og eitt ár, því að vextir hafa verið miklu hærri í þjóðfélaginu en nemur viðurlögunum. Menn hafa því getað aflað sér rekstrarfjár með því að fresta því að greiða skattinn. Við svo búið má að sjálfsögðu ekki standa. Við verðum að líta svo á að hér sé um úrelt ákvæði að ræða sem við hljótum að leiðrétta. Það er gert með því að taka upp sams konar viðurlög og gilda varðandi söluskattinn, en eins og kunnugt er fellur verulegt álag á söluskatt á fyrstu dögunum eftir að hann er kominn í vanskil og síðan, eins og hér er gerð till. um, eru reiknaðir dráttarvextir af því sem vangreitt er.

Til greina kom í þessu sambandi að innheimta launaskattinn oftar en gert er. Hann er innheimtur þrisvar á ári. Vissulega hefði komið til greina að hafa sama hátt á og með söluskattinn, að innheimta hann 12 sinnum á ári, ellegar 6 sinnum á ári, en horfið var frá því og það eitt látið nægja, að dráttarvextir séu lagðir á vangreiddan launaskatt. Auk þess eru hér nokkur ákvæði sem eru fyrst og fremst til lagfæringar úr því að verið er að fjalla hér um launaskattinn á annað borð. Eru þau flest minni háttar en horfa til samræmis.

Í þriðja lagi er í frv. gerð till. um lækkun stimpilgjalda af afurðalánum. Þegar stimpillög voru sett á sínum tíma var gert ráð fyrir að stimplun skuldabréfa og tryggingabréfa vegna afurðalána væri með hagstæðari kjörum en önnur stimplun. Af tilteknum ástæðum hefur farið svo á seinustu árum að bankarnir hafa ekki séð sér fært að afgreiða afurðalán með víxlum eins og áður var. Hefur þetta leitt til þess, að í raun og veru eru stimpilgjöld orðin allmiklu hærri en þau voru áður fyrr, vegna breyttra vinnubragða við frágang á afurðalánaskjölum. Hér er því slegið föstu, að afurðalán skuli stimplast með 0.3 prósentustigum. Það er í reynd lækkun úr 1% í 0.3% og er því verulegur tekjumissir fyrir ríkissjóð eða 20 millj. kr. og samsvarandi hagsbót fyrir atvinnuvegina.

Í fjórða lagi er till. gerð um framlengingu tímabundins innflutningsgjalds á sælgæti og kex, en þetta gjald á að falla niður 1. mars n.k. að öðru óbreyttu. Gert er ráð fyrir að gjaldið falli niður í nokkrum áföngum. Það lækkar í 32% 1. mars n.k. úr 40% sem það hefur verið í síðan í 24% 1. júní n.k., 16% 1. sept. og 8% 1. des. Sá hluti gjaldsins, sem var í 32%, lækkar nokkuð samsvarandi, þó jafnvel öllu hraðar eða í 24% um næstu mánaðamót, 18% 1. júní, 12% 1. sept. og 6% 1. des.

Gert er ráð fyrir að gjaldið falli með öllu niður að einu ári liðnu. Ekki veit ég hvort sá frestur reynist nægur til að sælgætisframleiðendur hér á landi geti aðlagað sig erlendri samkeppni, þeim mikla innflutningi sem verið hefur á þessum vörutegundum, eða hvort hér er einungis um gálgafrest að ræða. En við skulum svo sannarlega vona á þessi frestur verði vel nýttur og að eftir að þessu aðlögunartímabili lýkur verði þessi iðnaður fær um að standast samkeppni við innfluttar vörur. Við rekum okkur hér á samningsákvæði í samningum okkar við Efnahagsbandalagið og EFTA. Það er heimilt að leggja slík gjöld á til bráðabirgða og til skamms tíma, en fyrr eða síðar verða gjöldin að falla niður. Hér er sem sagt með samkomulagi við þessa aðila fengin sú niðurstaða, að gjöldin verði lögð á innflutninginn í eitt ár í viðbót.

Ég vil taka það fram í sambandi við áætlanir um tekjur og tekjumissi vegna þessara gjalda, vegna þess að ég þykist vita að um það verði spurt í viðkomandi nefnd, að hér er um lauslegar áætlanir að ræða. Það er ákaflega erfitt að áætla nákvæmlega t.d. hvað tollafgreiðslugjaldið gefur. Ég hygg þó að upphæðin sé frekar lægri en hærri, en hér verður auðvitað fyrst og fremst að styðjast við reynsluna frá liðnu ári og þetta er að sjálfsögðu áætlunarupphæð.

Sama gildir um launaskattinn. Það er ekki fyrir hendi nem sundurliðun um greiðslu launaskatts í einstökum atvinnugreinum. Það er því ákaflega erfitt að áætla þessa upphæð nákvæmlega. Hér er upphæðin þó áætluð með hliðsjón af þeim bestu gögnum sem fáanleg eru og er miðað við eins árs launaskattsgreiðslu.

Um stimpilgjaldið er það að segja, að enn þá erfiðara er að áætla tekjumissi ríkissjóðs af þeim sökum, vegna þess að hvergi í ríkiskerfinu er sundurliðað nákvæmlega hvað inn hefur komið vegna stimpilgjalds af afurðalánum og hvað hefur komið inn vegna stimpilgjalds af t.d. fasteignalánum eða fasteignaafsölum o.s.frv. En miðað við það, hvað afurðalán eru stór hluti af heildarútlánum í landinu, og miðað við þá um leið hugsanlega veltu á fasteignamarkaði var þessi tala áætluð lauslega. Þessi tala getur verið hærri og hún getur verið lægri.

Herra forseti. Ég held að ekki sé þörf á að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.