18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er annar þátturinn af ráðstöfunum ríkisstj. sem hún boðaði í skýrslu sem lögð var fram á Alþingi fyrir nokkru og umr. fóru fram um.

Þær aðgerðir, sem í þeirri skýrslu voru boðaðar, fást ekki sýndar Alþingi í einu lagi þannig að alþm. og nefndir Alþingis geti gert sér grein fyrir dæminu öllu saman í einu lagi. Það er skiljanlegt hvers vegna það er. Hér er um að ræða bráðabirgðaráðstafanir, enn einar bráðabirgðaráðstafanirnar sem núv. hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir, og telur nú þægilegra að koma með málið inn á Alþingi í smáskömmtum.

Þegar við ræðum frv. til laga um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum örfáum dögum eftir að ríkisstj. hefur haldið upp á tveggja ára afmæli sitt, þá er ekki óeðlilegt að við rennum huganum örlítið aftur í tímann og minnum á það sem sagt hefur verið þegar hæstv. ríkisstj. hefur á þriggja mánaða fresti tilkynnt um aðgerðir í efnahagsmálum, talið þjóðinni trú um að verið væri að ræða um stefnu hennar í efnahagsmálum og aðgerðir í samræmi við það. Ævinlega höfum við eftir að hafa hlýtt á hæstv. forsrh. gera grein fyrir þessu — heyrt eða lesið í blöðum ummæli annarra hæstv. ráðh. um að það yrðu að koma til viðbótaraðgerðir ef ekki ætti allt að fara um þverbak. Þessar viðbótaraðgerðir hafa verið á ferðinni á þriggja mánaða fresti, eins og ég sagði áðan, samfelldar bráðabirgðaráðstafanir, sannkallaðar skottulækningar, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.

Hver er svo staða efnahagsmálanna nú þegar við ræðum þetta frv.? Það er nýbúið að reikna út framfærsluvísitöluna sem á síðustu þrem mánuðum hækkaði um 12.72%. Verðbólgustigið er því 61.4% nú tveimur árum eftir að ríkisstj. tók við völdum. Verðbólgan síðustu tólf mánuði er 46%, þá tólf mánuði sem hæstv. ríkisstj. sagðist ætla að komaverðbólgunni niður í 40%. Í skýrslu ríkisstj. um efnahagsstefnuna næstu þrjá mánuði er þess getið, að tekist hafi að lækka verðbólguna, eins og að var stefnt, úr 60%, sem hún hafði verið undanfarin tvö ár, niður í 40%. En 11/2 mánuði eftir að þetta útreikningsdæmi er talið liggja fyrir er verðbólgustigið 61.4 %, og staðreynd er að framfærsluvísitalan hækkaði frá 1. febr. 1981 til 1. febr. 1982 um 46% .

Þær staðreyndir, sem ég hef hér farið með, sýna okkur betur en nokkuð annað að sú gagnrýni, sem borin var fram af stjórnarandstöðunni á s.l. ári varðandi ráðstafanir ríkisstj., að um væri að ræða bráðabirgðaráðstafanir, sýnir sig í dag að hafa verið réttmæt og niðurtalningin, sem Framsfl. hefur verið að byrja á á hverjum þriggja mánaða fresti, stendur með þeim hætti að verðbólgan nú er 61.4% miðað við útreikninginn 1. febr.

Mér er ekki ljóst hvernig menn geta sagt að niðurtalningin sé í fullum gangi og með hvaða hætti menn geta reiknað slíkt út. Þær reikningskúnstir kann ég ekki. Í skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum er ekki um að ræða annað en áframhaldandi bráðabirgðaráðstafanir sem byggjast á sömu meginþáttunum og þær bráðabirgðaráðstafanir sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, þ.e. vísitöluleik, fara í kringum vísitöluna með einum eða öðrum hætti til þess að ná henni niður frá upphafi árs, án þess að nokkurn tíma sé höggvið að rótum þess meins sem við eigum við að glíma. Í opinberum fjármálum er ekki verið að draga úr rekstrargjöldum. Það, sem þar er gert, er að dregið er úr opinberum framkvæmdum en rekstrargjöldin eru aukin. Ef á vantar til þess að endar nái saman er gripið til þess sama ráðs: að framlengja vinstri skattana og leggja á nýja skatta. Allt stefnir þetta í þá átt að rýra kjör fólksins í landinu.

Í skýrslunni um efnahagsmálin er gert ráð fyrir að á þessu ári verði viðmiðunartala ríkisstj. frá upphafi til loka 35% og verðbólguhraðinn í lok ársins kominn niður í 30%, þ.e. sá verðbólguhraði sem nú er yfir 60%. Ætlað er að honum verði komið með aðgerðum ríkisstj. í lok ársins niður í 30%. Nú er öllum mönnum ljóst, sem lesið hafa það frv., sem hér er til umr., og þá grg. sem því fylgir að dæmið er aðeins gert upp fram á mitt ár. Síðari hluti ársins er ekki tekinn með. Það er hvorki hægt að fá.um það upplýsingar né heldur, eins og ég gat um áðan, um einstaka þætti þeirra mála sem eru nú lagðir fyrir Alþingi og verða lagðir fyrir Alþingi. Kunnugt er um samdrátt í ríkisútgjöldum, niðurskurð á ríkisútgjöldum, sem nemur á fjárlögum 1982, 120 millj. kr. en hann er ekki hægt að fá sundurliðaðan. Fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. hafa óskað eftir því, en um það hafa ekki fengist nein svör frekar en um annað.

Ef við látum okkur detta í hug að það, sem sett var fram í skýrslu ríkisstj. í efnahagsmálum sem markmið, muni nást, þá getum við gert okkur grein fyrir — miðað við þær ráðstafanir sem nú hafa verið boðaðar — hversu ótrúlega mikið fjármagn það er sem ríkisstj. enn þarf að afla til þess að nokkur leið sé að nálgast þær tölur. Það eru nokkur hundruð millj. kr. sem þarf til þess að því markmiði verði náð. Og með hvaða hætti mun ríkisstj. ná þessu fjármagni? Það liggur í augum uppi. Það eru auðvitað skattborgararnir sem þar koma til með að svara, til þeirra verður leitað og pinklunum dreift meðal þeirra. En þessi vinnubrögð eru, eins og ég sagði; öll með ráðum gerð.

Menn kjósa fremur að koma fram með skýrslu en leggja á borðið hvernig dæmið liggur fyrir og þá út allt árið. Það er nýbúið að samþykkja fjárlög. Þau höfðu viðmiðunartölu. Menn treysta sér ekki til að gera sér grein fyrir því, hvernig þeir hygðust ná málum fram. Lánsfjáráætlun og lánsfjárlög, sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi, hafa enn ekki verið afgreidd og ekki séð hvað þar muni vera á ferðinni.

Það eru sem sagt orð í staðinn fyrir efndir sem við erum að fjalla um í dag. Í skýrslu ríkisstj. voru boðaðar tollalækkanir. Síðan er staðreyndin sú, að um er að ræða tollalækkanir á vísitöluvörum — aðeins vísitöluvörum, og lækkunin er látin koma fram rétt fyrir útreikning framfærsluvísitölu til þess að hafa áhrif á kaupgjaldsvísitöluna. Það er boðuð lagasetning um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum til þess að stuðla að hagkvæmum innkaupum. Síðan er lagt til að leggja á tollafgreiðslugjald. En þá er það auðvitað ekki lagt á þær vörur sem vísitalan telur. Það er boðuð lækkun á launaskatti um 1%. Svo þegar tölurnar birtast er aðeins gert ráð fyrir að slík lækkun nái til þriðjungs álagningarstofnsins. Það er boðuð vaxtalækkun í samræmi við hjöðnun verðbólgunnar um leið og lagt er til að skattleggja peningastofnanir, sem auðvitað lendir að lokum á þeim sem við bankana skipta og greiða sinn kostnað, þ.e. lántakendum. Þannig eru þessi mál. Þó er að mínum dómi verst, þegar þau eru hér til umr., að ekki skuli fást nein svör við spurningum um þau atriði sem boðuð eru. Það fæst ekki gerð grein fyrir því, hvernig dæmið kemur til með að líta út í heild sinni. Hér er aðeins um að ræða bráðabirgðaráðstafanir fram eftir þessu ári. Kannske telur hæstv. ríkisstj. alveg ástæðulaust að hugsa um síðari hluta þessa árs, það verði ekki hennar hlutverk. Það væri vel ef það væri það sem að baki lægi og það yrðu aðrir aðilar sem tekið hefðu við stjórn landsins þegar kæmi til þess að leysa úr vandamálum þeim sem við blasa og aldrei hefur verið reynt að glíma við öðruvísi en með bráðabirgðaráðstöfunum.

Í grg. með þessu frv. er vikið að tekjuöflun ríkissjóðs og útgjöldum vegna þeirra ráðstafana sem gerðar hafa verið í sambandi við niðurgreiðslur og lækkun tolla. Hins vegar eru engar upplýsingar um með hvaða hætti aukning verður á niðurgreiðslum 1. mars, 1. maí og 1. júní, aðeins sagt að það verði samkvæmt nánari ákvörðunum sem teknar verði síðar. Það er eins og annað sem núv. hæstv. ríkisstj. er að gera í þessum málum.

Frv., sem við fjöllum um, er að mörgu leyti einstæður bandormur. Þar er blandað saman nýju tollafgreiðslugjaldi, sem upp skal taka, breytingu á lögum um launaskatt, hverri einustu grein þeirra laga, breytingu á lögum um stimpilgjöld og framlengingu á tímabundnu innflutningsgjaldi á sælgæti og kex.

Að því leyti er þessi bandormur að mínum dómi einstæður, að hér er lagt til að samþykkja nýja gjaldtöku. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum sem í gildi eru, hverri einustu grein þeirra laga. Ég hugsa að slíkur bandormur sé algert einsdæmi í sögunni. Það hefur oft verið gripið til þess ráðs — ég kann ekki við að nota orðið oft — það hefur stundum verið gripið til þess ráðs að flytja frv. sem nefnt er „bandormur“, þ.e. breyting á nokkrum lögum. Ævinlega hefur þá verið um að ræða tiltölulega litla breytingu á hverjum þeirra laga sem um var fjallað. En ný skattlagning og breyting á hverri einustu grein heils lagabálks held ég að hafi ekki tíðkast áður.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að lagt skuli á tollafgreiðslugjald. Í yfirlýsingu ríkisstj. segir í kaflanum Önnur fjáröflun að lagt verði á sérstakt tollafgreiðslugjald. Í sömu mgr. er vikið að því, að stefnt verði að greiðslufresti á aðflutningsgjöldum. En í þessu frv. er ekki að finna neitt ákvæði sem viðkemur því að greiðslufrestur verði heimilaður á aðflutningsgjöldum. Ef lagt hefði verið til að koma á greiðslufresti aðflutningsgjalda, tollkrít, hefði það að sjálfsögðu átt að fylgjast að. Það, sem hér er að gerast, er einfaldlega það, að ríkisstj. er að nýta sér þá hugmynd sem fram hefur verið sett hér á Alþingi og þeir, sem að innflutningsmálum standa, eru mjög áhugasamir fyrir, að ná fram gjaldfresti á aðflutningsgjöldum til þess að lækka vöruverð og til þess að ná hagkvæmari innkaupum á vöru til landsins. Ríkisstj. nýtir sér þá hugmynd með því að leggja á aðflutningsgjald mörgum, mörgum mánuðum áður en til þess gjaldfrests kemur. En það er í skýrslu ríkisstj. orðað svo að hann muni tekinn upp, að tollkrít verði tekin upp í áföngum frá næstu áramótum að telja.

Frv. um afgreiðslufrest á aðflutningsgjöldum var hér til umr. fyrir nokkrum dögum. Hæstv. fjmrh. treysti sér þá auðsjáanlega ekki til að vera viðstaddur og gefa yfirlýsingu þess efnis, að tollkrít skyldi tekin upp, enda má segja að fulltrúar ríkisstj. hafi farið undan í flæmingi þegar þessi mál hafa verið á döfinni. Þess vegna er að mínum dómi mikil spurning hvort það, sem sagt er í skýrslu ríkisstj., nái fram að ganga, þ.e. að stefnt verði að tollkrít fyrir næstu áramót.

Ef efni 1. og 2. gr. er skoðað, þ.e. till. um álagningu tollafgreiðslugjalds, þá vakna margar spurningar. Hér er verið að leggja á skatt með reglugerð. Hins vegar er skýrt tekið fram í stjórnarskránni að skattar skuli lagðir á og teknir af með lögum. Hér er gert ráð fyrir því, að það skuli gert með reglugerð, og meira að segja, þar sem um er að ræða undantekningarákvæðin, gert ráð fyrir að slíku sé hægt að breyta. Í aths. við 1. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þar sem um heimildarákvæði er að ræða er hugsanlegt að ekki verði strax lagt gjald á vörur sem nefndar eru í 2. tölul. 1. gr. (fríverslunarvörur) fyrr en að nánar athuguðu máli með hliðsjón af samningum Íslands við EFTA og Efnahagsbandalag Evrópu.“ Hér hefur hæstv. fjmrh. komið fram með frv., þar sem leitað er eftir heimild til þess að leggja á tollafgreiðslugjald með reglugerð, og segir svo í grg. að þau heimildarákvæði varðandi undantekningarákvæði greinarinnar komi til greina að nota þegar búið sé að athuga samninga sem Ísland hefur gert við EFTA og Efnahagsbandalag Evrópu. Mér finnst að hæstv. fjmrh. hefði átt að gera þm. grein fyrir því, hvert væri hans sjónarmið í þeim efnum, hvort tollafgreiðslugjald eins og hann leggur til að á verði lagt samrýmist samkomulaginu sem við höfum gert eða ekki. Hér er verið að afla heimildar til reglugerðarútgáfu ef athugun síðar meir leiðir í ljós að slíkt geti átt sér stað eða samrýmist því samkomulagi.

Þá vil ég enn fremur benda á að við erum aðilar að Tollabandalagi Evrópu og í þeim samningi, sem um það gildir, eru ákvæði sem beinlínis gera ráð fyrir að slíkt tollafgreiðslugjald sé ekki lagt á. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort athugað hafi verið hvort þetta samrýmdist þeim samningi eða hvort ætlunin sé að hafa það eins með tollalagasamninginn og samningana við EFTA og Efnahagsbandalagið, að það verði til könnunar síðar, en til öryggis vilji menn afla sér heimildar til álagningar gjaldsins með reglugerð.

Það er síðan gerð grein fyrir því í grg. frv., að þetta muni gefa ríkissjóði tekjur sem nema 54 millj. kr. Mér er nú spurn: Hvernig reikna menn út svona tölu miðað við alla þá fyrirvara, sem í frv. eru gerðir, og allar þær athuganir, sem eftir er að gera í sambandi við þetta dæmi? Þess hefur verið óskað, að tölulegir útreikningar varðandi þetta frv. verði af hálfu fjmrn. lagðir fram í fjh.- og viðskn. svo að hægt sé að gera sér grein fyrir því, á hvaða grunni þessar tölur eru byggðar. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi að vísu í ræðu sinni áðan að þetta væri ekki áreiðanlegar tölur og það væri ákaflega erfitt að reikna þetta út. Hvers vegna er erfitt að reikna þetta út? Einfaldlega vegna þess að eins og þetta er sett hér fram er það ákaflega erfitt og flókið í framkvæmd. Hér er um að ræða tollafgreiðslugjald sem hlutfall af verði. Geri menn ráð fyrir að hér sé um að ræða gjald vegna afgreiðslu á skjölum, þá er það kostnaður vegna hvers skjals. En það liggur ljóst fyrir að hér er um að ræða nýjan tekjustofn sem ríkisstj. er að leggja á eða ætlar sér að leggja á.

Í II. kafla frv. eru breytingar á lögum um launaskatt. Ég gat þess áðan að ég teldi það einsdæmi, að í slíkum bandormi væru gerðar breytingar á lögum sem eru í 13 greinum og gerðar breytingar á 12 þeirra. Það er að vísu ekki breyting á greininni „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ En við aðrar 12 greinar laganna eru hér gerðar brtt.

Ég hefði talið miklu eðlilegra — og það hefði ekki orðið til þess að mínum dómi að breyta neinu um framgang þessara mála hér á Alþingi — að fjmrh. hefði flutt frv. um breytingu á lögum um launaskatt og síðan annað frv. um breytta tekjuöflun ríkissjóðs, þar sem hugmynd hans og ríkisstj. um tollafgreiðslugjald, lækkun á stimpilgjaldi og framlengingu á tímabundnu innflutningsgjaldi á sælgæti og kex væru saman komin sem nokkuð venjulegur bandormur eins og þeir hafa verið lagðir fram á Alþingi.

Ég held að slík vinnubrögð sem þessi eigi ekki að viðhafa, það sé miklu skynsamlegra að öðruvísi sé að farið og þá standi ekkert á alþm. að sjá um að fyrirgreiðsla hér á þingi geti verið með nákvæmlega sama hætti og ætlast er til í sambandi við þennan bandorm sem er hér til umræðu.

Það er eins með þær brtt., sem gerðar eru við lögin um launaskatt, og um tollafgreiðslugjaldið, að hér er um að ræða að ákveða með reglugerð hvaða þættir fiskverkunar og iðnaðar skuli greiða 2.5% launaskatt í staðinn fyrir 3.5 % sem nú er. Spurningin er: Hvernig hugsa menn sér að greina iðnaðarþáttinn í sundur? Hér er gert ráð fyrir að mismuna. Ég spyr: Hvernig hugsa menn sér að greina í sundur hjá þeim fyrirtækjum sem stunda hvort tveggja innflutningsverslun og iðnað? Ég held að hér sé um að ræða till. sem menn hafa ekki gert sér grein fyrir hvernig þeir hygðust framkvæma.

Mér hefur verið tjáð að einn af þm. úr liði ríkisstj., hv. 12. þm. Reykv., sé þegar búinn að flytja brtt. til þess að koma í veg fyrir það sem stefnt sýnist að með þessari grein, koma í veg fyrir að mismunun verði að ræða. Á þskj. 356 hefur hann flutt till. þar sem gert er ráð fyrir að greiða skuli 2.5% launaskatt af vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum hjá fyrirtækjum í fiskverkun og iðnaði.

Ég segi það eins og er, að hér er um að ræða bót á þessu frv. Ég spyr nú: Hvernig hefur verið staðið að þessu máli, þegar þessi hv. þm., sem ég veit að hefur verið þessum hnútum gerkunnugur, enda, ef ég man rétt, í efnahagsnefnd ríkisstj. sem fjallar um þessi mál, grípur til þessa ráðs?

Ég held að eðlilegast hefði verið og skynsamlegast að lækka launaskattinn alfarið úr 3.5% í 2.5%. Í þessu dæmi er um að ræða 30 millj. til lækkunar á tekjum ríkissjóðs, að sagt er. Þó er því bætt við að þessar tölur séu ekki áreiðanlegar, það sé erfitt að reikna þær út. Ég spyr: Hafa menn — endaþótt viðbótarviðurlagaákvæðið sé til þess gert að menn skili launaskattinum fyrr en ella — gert ráð fyrir því, hverjar yrðu tekjur ríkissjóðs af því nýja ákvæði? Viðurlögin hafa verið 25% álag. Síðan er bætt við, eins og sagt er hér, til samræmis við söluskattinn dráttarvöxtum samkv. þeim ákvæðum sem um þá gilda samkv. ákvörðun Seðlabanka Íslands.

Við höfum beðið um það í fjh.- og viðskn. að fá þessa útreikninga til þess að gera okkur grein fyrir hvernig þetta dæmi kemur endanlega til með að líta út. 1% lækkun hefði hins vegar þýtt 110 millj. kr. rúmlega, þannig að þar hefði verið um meira tekjutap að ræða, það liggur ljóst fyrir. En ég er sannfærður um að atvinnuvegirnir eru nú þannig í stakk búnir að ekki hefði veitt af því að koma fram með slíka tillögu.

Þá er einnig um að ræða breytingu á innheimtunni sem er íþyngjandi fyrir minnstu fyrirtækin, sem greiða launaskatt, og gerir þeim að því leyti erfiðara að standa skil á skattinum.

Hér er um að ræða, eins og þetta er lagt fram, afar vandasama framkvæmd. Ég verð að segja það eins og er, að mér finnst furðulegt hvernig lagatextar hafa verið hér útbúnir. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, að það er fyrst og fremst eitt sem vakir fyrir þeim sem að því standa: að láta sem minnst af mörkum til þess að ná fram þeim útreikningi, sem þeir hyggjast ná í sambandi við framfærsluvísitölu frá upphafi árs til loka og hafa eins mikið og unnt er í aðra hönd fyrir hið opinbera.

Varðandi breytingar á stimpilgjöldunum teljum við að þar hefði mátt gera aðrar lagfæringar sem eðlilegar gætu talist. Munum við víkja að því í fjh.- og viðskn. þegar frv. verður til umr. þar.

Síðan er enn framlengt innflutningsgjald á sælgæti og kex. Það var hins vegar ekki að heyra á hæstv. fjmrn., að hann væri vongóður um að á þeim tíma, sem hér væri stefnt að það félli niður á, vænkaðist svo hagur iðnaðarins í landinu að hægt væri að fella gjaldið niður þegar að því kæmi. Ég skil ósköp vel að hann eigi ekki von á að það blási svo byrlega fyrir iðnaðinum, þar sem hér er verið að aðstoða hann, að hann megi missa spón úr aski sínum, og þess vegna hafi hann látið þessi orð falla áðan.

Eins og ég gat um í upphafi míns máls er hér um að ræða hluta af þeim ráðstöfunum sem hæstv. ríkisstj. boðaði fyrir nokkru. Hún flutti þann boðskap í orðum. Hluti af því sér nú dagsins ljós á prenti og þar er æðimikill munur á, eins og margan grunaði þegar hlustað var á þann flutning. Hér er ekki heldur gert ráð fyrir ráðstöfunum lengur en til 1. júní. Menn vilja ekki horfast í augu við það vandamál. sem við höfum haft við að glíma og sýnir sig á stöðu mála í dag að síður en svo hefur batnað í tíð núv. ríkisstj., miklu fremur versnað. Við skulum þess vegna bara vona þjóðarinnar vegna, að það sé ekki fjallað um síðari hluta ársins vegna þess, að þeir, sem fjalla um málin í dag í ríkisstj., geri ekki ráð fyrir að þeir fjalli um þá á síðari hluta ársins.