18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Sjaldan eða aldrei hef ég orðið fyrir jafnmiklum vonbrigðum við að hlusta á ræðu nokkurs manns eins og þegar ég hlustaði á hæstv. forseta þessarar deildar, hv. þm. Sverri Hermannsson, flytja ræðu sína áðan. Það er alveg undravert, að það skuli geta gerst hér á Alþingi Íslendinga, að menn komi í þennan ræðustól og flytji aðra eins ræðu og hæstv. forseti gerði áðan, ég verð að segja: tómt blaður og útúrsnúninga, án þess að koma nokkurn tíma að kjarna þess máls sem um var verið að ræða. Ég satt að segja harma það að ekki skuli vera unnt á slíkum stundum sem þessum að rjúfa Ríkisútvarpið og útvarpa svona ræðum beint til þjóðarinnar svo að fólki verði ljóst hvernig sumir þm. geta leyft sér að tala í þessari deild.

Það er alveg undravert að hlusta á ræður sem þessar, þar sem ekkert kemur fram annað en útúrsnúningar og viðkomandi aðili nefnir ekki eitt einasta atriði til úrbóta sjálfur í efnahagsmálum. Það mátti að vísu skilja hæstv. forseta svo, að hann hefði einhverjar tillögur, en það var helst að heyra að hann vildi engum segja hverjar þær væru. Það var ekki nokkur leið að fá fram hjá honum hvað hann vildi láta gera, hins vegar væri allt ómögulegt sem gert væri.

Hér stóð hæstv. forseti í þessum ræðustól eins og borginmannlegur kotkarl og talaði um virðingu þessarar stofnunar. Ég trúi því ekki, ef þjóðinni er ljóst og Austfirðingum hvernig þm. þeirra tala hér, að þetta geti verið leiðin til þess að vinna atkvæði meðal fólksins. Ég held að þetta sé einmitt skýringin á því, að Íslendingum þykir mörgum Alþingi hafa sett niður.

Ég held að öllum hljóti að vera það ljóst, að hvernig sem á þessi mál er litið hefur verulegur árangur náðst í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Þeir menn, sem geta ekki í því sambandi litið til landanna í kringum okkur og séð hvernig ástandið er, eru blindir. Mér er nær að halda að stjórnarandstaðan fylgist illa með því sem er að ske ef hún sér ekki að það er bullandi atvinnuleysi alls staðar í kringum okkur, en íslensku ríkisstjórninni hefur tekist að halda hér fullri atvinnu. Við þær aðstæður, sem ríkja í kringum okkur, hefur kaupmáttur rýrnað í löndunum í kringum okkur. Hér hefur okkur tekist að varðveita kaupmáttinn, einmitt vegna þeirra efnahagsaðgerða sem við höfum gripið til.

Ég ætla ekki að ræða frekar við hv. 1. þm. Reykn. í framhaldi af þeirri ræðu sem hann flutti hér. Mér fannst hann segja sem svo, að þegar hann hefði verið ráðh. hefði hann ekkert spilað á vísitöluna. Ég held að það þurfi ekki að fara nánar út í það. Það getur vel verið að hann hafi ekki fundið allar aðferðir sem færar eru til þess að spila á vísitöluna, en þar hefur hann vafalaust fremur skort dug en vilja. Þar hefur hann miklu fremur skort hugarþor. Það hefur áreiðanlega ekki vantað viljann til þess.

Ég held að menn verði að sameinast um það hér að reyna að horfa á vandann eins og hann er. Auðvitað verðum við að ná saman. Við verðum að ná samstöðu í þessu þjóðfélagi um að breyta vísitölukerfinu sem við nú búum við, vegna þess að það er öllum ljóst að verulegur hluti þeirra efnahagsaðgerða, sem allir stjórnmálaflokkar hafa gripið til, er í því fólginn að spila á þetta vísitölukerfi. Þessu verður að breyta og um þetta verðum við einhvern veginn að reyna að ná samstóðu. En ef stjórnarandstaðan hefur það að meginmarkmiði að koma hér upp í ræðustólinn og snúa út úr og segja lélega brandara og reyna á einhvern hátt að koma höggi á einhverja einstaklinga sem tala hér, þá er ekki von á góðu. Ef stjórnarandstaðan er ekki tilbúin að koma hér í ræðustólinn og ræða þessi mál efnislega og skýra frá því, hvað hún vilji gera, ef hún er óánægð með það sem hér er gert, þá er ekki heldur von á góðu. Það er erfitt að trúa málflutningi manna sem halda því fram, að þeir hafi einhver ráð, en vilja ekki segja neinum hver þau eru.