18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2546 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

190. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. sem hefur þegar hlotið meðferð í hv. Ed. og gerir ráð fyrir því, að hafi sjómenn stundað sjómennsku að hluta eða öllu leyti á opnum bátum og þilfarsbátum undir 12 brúttólestum í þann tíma, sem tiltekinn er í lögum um almannatryggingar, dugi slíkt til þess að sjómaðurinn öðlist þau réttindi að fá ellilífeyri við 60 ára aldur eftir 25 ára starf. Hér er um að ræða mál sem flutt er í framhaldi af lögum sem afgreidd voru á síðasta þingi um þennan rétt almennt til sjómanna, en hér er gert ráð fyrir að þessi réttur nái einnig til sjómanna á litlum bátum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.