22.02.1982
Efri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

206. mál, orkulög

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær almennt góðu undirtektir sem þetta frv. og málflutningur okkar Alþfl.-manna varðandi sameign á landinu hefur hér fengið.

Hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Norðurl. e., gerði það sérstaklega að umtalsefni, að hann teldi nú brýnna en nokkru sinni fyrr, mjög brýnt orðið og tímabært, að löggjöf af því tagi, sem mælt hefur verið fyrir hér í dag í þessu frv. — og í öðrum þeim frumvörpum sem ég gat um sérstaklega áðan, yrði sett. Ég fagna því, að svo afdráttarlaus stuðningur skuli koma við þann málflutning sem Alþfl. hefur haldið uppi nú í allmörg ár í ýmsum myndum, í formi þáltill. og lagafrumvarpa. Ég held að það sé vissulega satt og við höfum trúað því í nokkuð langan tíma, Alþfl.-menn, að það væri meira en tímabært að setja löggjöf af þessu tagi og þá líka að því er varðar almennan aðgang að landinu, þó sérstakt lagafrv. hafi ekki verið flutt um það á þessu þingi af okkur þm. Alþfl.

Hæstv. iðnrh. gat um það í ræðu sinni, að nú væri í undirbúningi heildarlöggjöf varðandi orkumál sem tæki einnig til þess þáttar sem hér hefur verið mælt fyrir í dag. En ég held að ef við eigum sífellt að bíða eftir nefndum á nefnd ofan, sem eru að vinna að heildarstefnumörkun og heildarlöggjöf, þá geti biðin orðið nokkuð löng og blaðsíðurnar æðimargar sem búið verður að skrifa áður en við komumst í verkið. Ég hef áður gert það að umtalsefni í þessari hv. deild, að það væri nær að sameinast um þau atriði, sem menn geta sameinast um á hverjum tíma, og ná þannig einhverjum framförum, heldur en vera sífellt að bíða eftir einhverjum nefndum. Þær geta haldið áfram að starfa og komið með sínar niðurstöður þegar þær eru tilbúnar, og þær niðurstöður koma þá til athugunar hér í þinginu. En það er afleitur siður að gera það að eilífri afsökun fyrir því að takast ekki á við vandamál liðandi stundar, sem oft eru mjög brýn, að vera sífellt að bíða eftir einhverjum nefndum. Þess vegna legg ég áherslu á að þessi hv. deild taki nú á sig rögg og skoði það mál, sem ég mæli hér fyrir, og það mál reyndar líka sem hv. þm. Eiður Guðnason, 5. þm. Vesturl., mælti sérstaklega fyrir fyrr á þinginu, um það, hvernig haga skyldi ákvörðun eignarnámsbóta á landi. Um hvort tveggja þetta er vissulega tímabært að setja löggjöf og ástæðulaust að það dragist úr hömlu.

Ég trúi því, að þeir ágætu menn, sem þessa deild skipa, geti ráðið þeim ráðum sínum í nefndum og hér á þingfundum, deildarfundum, að niðurstaða megi fást sem meiri hluti deildarmanna geti við unað og felur í sér verulegar framfarir. Við höfum tekið það fram, þm. Alþfl., að við erum að sjálfsögðu reiðubúnir að ræða þessi mál nánar í nefnd.

En það er e.t.v. ekki síst að því er varðar þriðja málið sem við þm. Alþfl. höfum flutt á þessu þingi, um eignarráð á landi þar sem ekki er um ótvíræð eignaryfirráð einstaklinga að ræða, að það verði ríkiseign, sem sérstök ástæða er til að löggjöf verði sett. Ég segi það, og hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, gerði það sérstaklega að umtalsefni, að sá hæstaréttardómur, sem kveðinn var upp fyrr á þessum vetri, kallar eftir löggjöf. Hann er beinlínis ákall um að sett verði löggjöf af því tagi sem felst í því frv. sem Sighvatur Björgvinsson mælti fyrir í Nd. fyrr á þessu þingi fyrir hönd okkar Alþfl.-manna. Vitaskuld má ekki dragast hjá löggjafarvaldinu að vinda sér í slíka lagasetningu þegar æðsti dómstóll þjóðarinnar beinlínis biður um að slík lög séu sett.

Ég tek undir það sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði, bæði að því er varðar þessi orkumál og eignarráðin á landinu þar sem það kemur ekki ótvírætt fram hverjir séu eigendur, að þetta skapar átök í tómarúmi íslenskra laga sem löggjafanum ber vissulega að fylla upp í svo fljótt sem auðið er.

Það kom, trúi ég, fram í ræðu hv. 4. þm. Vestf., 1. varaforseta, Þorv. Garðars Kristjánssonar, að vitaskuld væri það skoðun allra stjórnmálaflokkanna, að eignarhald á orkulindum mætti ekki stöðva beislun þeirra eða virkjun. En það er eins og það hrökkvi heldur skammt þessa dagana, ef litið er norður í land á þær hugmyndir sem uppi hafa verið um virkjun þar, að heldur hefur það gengið brösótt.

Það frv., sem hér er flutt, fjallar sérstaklega um orkulindir í iðrum jarðar og að setja skýr ákvæði um hvernig með skuli fara, svo að ekki þurfi að koma til árekstra sem tafið geti virkjun þessara orkulinda. Vel má vera að þeir árekstrar og þær tafir, sem við höfum orðið fyrir að því er varðar virkjun Blöndu, gefi tilefni til að hyggja að sérstakri lagasetningu í því sambandi. En það var ekki beinlínis á dagskrá hér í dag. Hitt er ljóst, að lagasetning af því tagi, sem ég mæli hér fyrir fyrir hönd okkar Alþfl.mannanna í deildinni, gæti komið í veg fyrir árekstra og tafir í virkjun annarra orkulinda sem ekki eru síður mikilvægar, nefnilega jarðvarmans í landinu.

Ég vænti þess, herra forseti, að sem flestir þm. geti sameinast um afgreiðslu þess máls sem ég mæli hér fyrir, svo sterkan hljómgrunn sem það hefur fengið í grundvallaratriðum hjá fulltrúum þeirra flokka annarra sem hér hafa tekið til máls, bæði fulltrúum Alþb. og Sjálfstfl. Í stað þess að karpa frekar um smáatriði legg ég til að við vindum okkur í það í sameiningu í nefnd að afgreiða þetta lagafrv. — og reyndar það frumvarp líka sem ég gerði sérstaklega að umtalsefni og er í nefnd í deildinni, um eignarnámsbætur fyrir land. Sannleikurinn er sá, að það verður að vera hlutverk Alþingis á hverjum tíma að líta til nútímaþarfar og réttlætisvitundar eins og hún birtist í brjóstum okkar. Þetta hvort tveggja á við varðandi þau frumvörp sem ég gerði hér sérstaklega að umtalsefni.