22.02.1982
Neðri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það hefur löngum verið svo, að íslensk stjórnvöld hafa haft oftrú á gildi opinberra verðlagsákvæða, boða og banna og verðstöðvunar. Reynslan sýnir best hversu gagnslaus ákvæði um verðstöðvun hafa reynst þótt í lög séu leidd. Við Íslendingar höfum búið við verðstöðvun síðasta áratug eða allt frá haustinu 1970 og raunar fram á þennan dag, en á þessu tímabili höfum við reynt mestu verðhækkanir, alvarlegustu verðbólgu sem um getur líklega í allri Íslandssögunni.

Við höfum deili um það hér á Alþingi, hvort væri vænlegra til að halda verðlagningu í skefjum: frjáls samkeppni á jafnréttisgrundvelli eða opinber íhlutun og ákvörðunarvald í verðlagsmálum. Það fer ekki á milli mála að við sjálfstæðismenn höfum verið formælendur þess, að frjáls samkeppni á jafnréttisgrundvelli væri vænlegri leið til að vinna bug á verðbólgunni en opinberar ákvarðanir í verðlagsmálum.

Það má rifja það upp, að ríkisstjórnin, sem sat 1974–1978, undirbjó löggjöf þá um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem var leidd í lög 16. maí 1978. Í fyrri ríkisstjórn sjálfstfl. og Framsfl. var að vísu nokkur ágreiningur milli flokkanna og greindi þar síðast á hvort aðalreglan skyldi vera frjálst verðlag og undantekning, ef um verðlagsákvæði eða aðrar slíkar hömlur væri að ræða, eða hvort verðlagshöft og verðlagsákvæði og opinber stýring skyldu vera aðalreglan og undantekningin frjáls samkeppni og verðmyndun. Það varð úr þessa vordaga 1978 að aðalreglan yrði sú, eins og komist er að orði í 8. gr. laganna, að þegar samkeppni er nægileg til að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag skuli verðlagning vera frjáls.

Það var ætlunin með þessum lögum, að þau tækju gildi sex mánuðum síðar eða þá um haustið. En áður en til þess kom var mynduð ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1. sept. 1979 og þáverandi viðskrh., Svavar Gestsson, undirritaði lög um breytingu á lögum þeim, er ég hef hér gert að umtalsefni, 15. nóv. 1978, þar sem enn var skotið á frest gildistöku þessara laga til 1. nóv. 1979. Áður en að þeim degi kom voru gefin út lög um stjórn efnahagsmála 10. apríl 1979. X. kafli fjallaði um verðlagsmál. Í þeim kafla voru einkum gerðar breytingar á 8. gr. laganna, þeirri grein sem ég gat um, og fól sú breyting í sér þá stefnubreytingu, að aðalreglan skyldi vera opinberar samþykktir og fyrirmæli um hámarksálagningu og hámarksverð en undantekning að þegar samkeppni væri nægjanleg gæti verðlagsráð að fengnu samþykki ríkisstj. vikið frá þessum reglum.

Þegar núv. ríkisstj. hóf störf sín var birtur stjórnarsáttmáli og þar var alllangur kafli um verðlagsmál. Það væri út af fyrir sig áhugavert umræðuefni að draga fram í dagsljósið nú að tveimur árum liðnum hina einstöku þætti þeirrar stefnuyfirlýsingar, en ég skal þó ekki falla fyrir þeirri freistingu, heldur einbeita mér að því að ræða um það er beinlínis snertir löggjöf þá sem hér er til umr. Þar er sagt að hin nýju verðlagslög komi til framkvæmda undir eftirliti verðlagsráðs sem fái bætta aðstöðu til að gegna hlutverki sínu. Menn skildu þetta ákvæði svo á þeim tíma, fyrir tveimur árum, að nú væri ætlunin að hverfa aftur til nokkuð frjálsara verðmyndunarkerfis, og jafnvel var af einstökum formælendum ríkisstj. sagt, ef ekki beinum orðum, þá gefið í skyn, að með þessu væri sagt að lögin frá því í maí 1978 um frjálsa verðmyndun ættu að taka gildi. Það er skemmst frá að segja að engin merki hafa verið þess s.l. tvö ár. Það er fyrst með þessu frv. að gefið er í skyn að til frjálsara verðmyndunarkerfis verði horfið. Því eru þetta í raun e.t.v. einu efndirnar á upprunalegu ákvæði í stjórnarsáttmálanum að þessu leyti.

Þar er svo til að taka, að fyrir rúmu ári var sett á laggirnar svokölluð hert verðstöðvun um fjögurra mánaða skeið og í kjölfar hennar var rætt um það, sem og á árinu áður, 1980, að sett yrðu ákveðin mörk verðlagshækkana eða verðhækkana, sem áttu að fela í sér svokallaða niðurtalningarleið Framsfl. á verðbólguvandanum. Þm. er allt of vel kunnugt um árangur þessarar niðurtalningarleiðar til þess að rétt sé að verja miklum tíma í að ræða þann árangur. Hann hefur verið í einu orði sagt hörmulegur. Raunar hefur ríkisstj. gefist upp á að tímasetja mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu. Ríkisstj. sprakk á þeim mörkum á árinu 1980 og treystist raunar aldrei á s.l. ári að setja sér slík mörk ársfjórðungslega, eins og ætlunin var.

Í upprunalegri stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er talað um hert verðlagsefrirllt og eflingu neytendasamtaka. Þar er líka talað um að haga verðlagsákvæðum þannig að þau hvetji til hagkvæmra innkaupa og að greiða fyrir því, að unnt sé að lækka vörur vegna innkaupa í stórum stíl. Það hefur fátt afreka heyrst úr garði ríkisstj. á þessu sviði. Þótt ýmislegt það sama væri endurtekið í gamlársdagsboðskap ríkisstj. fyrir rúmu ári hafa þau fyrirheit, ef svo má að orði komast, ekki heldur verið efnd. Raunar er ekki mikið um fyrirheit að ræða í þeirri málaskrá. Þvert á móti eru þar tínd til ákveðin umhugsunarefni sem ekki hafa komist í framkvæmd og eru enda ólíkleg til að gera nokkurt gagn til að lækka verðlag í landinu.

Auk þess, sem ég hef þegar getið um og stendur í stjórnarsáttmálanum sjálfum, eru svo frumlegar hugmyndir settar fram af ríkisstjórnarinnar hálfu fyrir rúmu ári, að í athugun sé að beita krónutöluálagningu þar sem kostur er í stað prósentuálagningar. Þessi krónutöluálagning er svo gersamlega gagnslaus í verðbólgu eins og við höfum reynt á síðustu tveim árum og raunar lengur að það er haft fyrir satt, að krónutöluálagning, sem siðast var sett, þurfi að hækka um 170% ef hún á að endurspegla kostnaðarhækkun dreifingaraðila verslunarinnar í landinu á sama tíma.

Þá eru vangaveltur eins og þær, að innkaup opinberra aðila verði endurskoðuð með hliðsjón af möguleikum til lækkunaráhirfa á almennt innflutningsverðlag. Við höfum ekkert heyrt um árangur slíkra aðgerða og hæstv. viðskrh. gaf okkur enga skýrslu um það í ræðu sinni áðan.

Þá er talað um að ríkisstj. muni stuðla að innkaupum í stórum stíl og stefna að því í áföngum að veita greiðslufrest á tollum. Við erum nú fyrst að heyra það, ári síðar, að greiðslufrestur á tollum sé í undirbúningi, en þó ekki fyrr en að ári liðnu og þá í áföngum. — En athyglisverð er þessi endurtekna yfirlýsing af hálfu núv. ríkisstj., að hún muni stuðla að innkaupum í stórum stíl, væntanlega í þeim tilgangi að lækka vöruverð. Þarna er sennilega um hálfkveðna vísu að ræða. Spurningin hefur verið sú, hvort ríkisstj. hafi á þessu tímabili verið með það í huga að taka að sér ákveðna þætti innflutningsverslunarinnar og þjóðnýta hana að þessu leyti. Það er hvergi berum orðum sagt, en orðalagið gefur hins vegar slíkar hugleiðingar til kynna. Væntanlega hefur ríkisstj. að athuguðu máli séð gagnsleysi slíkra ráðstefna, því að landsverslun eða þjóðnýting verslunarinnar hefur alls staðar verið spor í þveröfuga átt ef tilgangurinn hefur verið að lækka vöruverðið. Slík landsverslun og einokun hefur ávallt leitt til hækkaðs vöruverðs og verri þjónustu neytendum til handa.

Ég hef talið nauðsynlegt að rifja upp þessa forsögu og frammistöðu ríkisstj. í verðlagsmálum í tilefni af flutningi þessa frv. og vil láta þá skoðun í ljós, að sé þetta frv. vísbending um að ríkisstj. hafi horfið frá verðlagsákvæðum, höftum, boðum og bönnum, hafi horfið frá hugleiðingum sínum um opinber innkaup eða þjóðnýtingu einstakra þátta innflutningsverslunarinnar, þá sé þetta frv. góðra gjalda vert. Hins vegar er ljóst af ákvæðum þessa frv. að hér er ekki um það að ræða að setja í lög að nýju að aðalreglan skuli vera að þar sem frjáls samkeppni ríkir skuli verðlagning vera frjáls. Eftir sem áður er aðalreglan höft, boð og bönn. Það er undantekning að verðlagning verði gefin frjáls og verðlagsákvæði afnumin. Þess vegna fer það allt eftir framkvæmd þessara laga og eftir því, í hve stórum stíl og hve fast er sótt í frjálsræðisátt, hvort ástæða sé til að fagna þessu frv. eða ekki. Það er bót í máli, að nú er ekki bundið samþykki ríkisstj. þegar verðlagsráð samþykkir að aflétta verðlagsákvæðum eða hámarksverði í vörum, heldur er verðlagsráð einfært um slíka ákvörðun.

Ég ítreka og endurtek: Það fer eftir framkvæmd laganna hvort hér er stigið skref í rétta átt eða ekki. Það hefur verið sagt í þeim deilum, sem átt hafa sér stað um stefnur í verðlagsmálum, að það væri útilokað að halda því fram, að frjáls verðmyndun væri tæki eða leið til að vinna bug á verðbólgunni og draga úr verðhækkunum. En reynslan kennir okkur annað. Þetta var t.d. mjög mikið deilumál nýverið á Bandaríkjaþingi og í Bandaríkjunum, þegar umræður stóðu um að afnema verðlagsákvæði á olíu. Menn spáðu að afnám verðlagshaftanna mundi leiða af sér verðhækkanir að olíu. Nú voru það rök fyrir afnámi verðlagshafta á olíu m.a.að farið yrði sparlegar með eldsneytið, en reynslan sýndi ekki eingöngu að þeim tilgangi væri náð, heldur og hitt, að þegar fram í sótti tók verðlag á olíu að lækka.

Við höfum annað dæmi nærtækara, og það er hin aukna samkeppni sem átt hefur sér stað í veitingasölu hér á landi, þar sem veitingastöðum hefur fjölgað og þjónustan, sem þeir bjóða, er orðin fjölbreyttari, betri og með fleiri kostum í verði og gæðum en áður var þannig að hagsmunum neytenda er mun betur borgið á þessu sviði en fyrr. Þannig mundi þróunin verða ef menn þyrðu að aflétta verðlagshöftum þar sem samkeppni er fullnægjandi. Húsbóndavaldið mundi flytjast yfir til neytandans, til kaupandans. Hann hefði úr fleira að velja fyrir lægra verð en áður hefur átt sér stað.

Það er ljóst að formælendur opinberrar forsjár hér á landi eins og annars staðar í heiminum treysta yfirvöldum betur til að hafa vit fyrir fólkinu en fólkinu sjálfu að sjá hag sínum borgið. Við sjálfstæðismenn eru þeirrar skoðunar, að ekki sé ástæða til að ríkið sé forsjá fullorðins fólks, beiti fullorðið fólk foreldravaldi. Við teljum, að það sé spor í rétta átt að auka þá kosti sem menn eiga völ á í verslun, viðskiptum og þjónustu, og viljum stuðla að því, að þetta frv. verði þannig úr garði gert að það þjóni þeim tilgangi.

Ég tók svo eftir við yfirlestur frv. og þegar hlýtt var á framsöguræðu hæstv. viðskrh., að nokkrar breytingar væru gerðar á lögunum frá því í maí 1978 um það sem ég þegar hef gert að umtalsefni, nefnilega þær veigamiklu breytingar, að í stað þess að frjálsræðið er aðalreglan er frjálsræðið undantekning samkv, þessu frv., en auk þess eru þær breytingar m.a.gerðar að samkeppnisnefnd er felld burt og verðlagsráði falin þau verkefni sem samkeppnisnefnd voru ætluð samkv. maílögunum 1978.

Nú var það einkum hlutverk samkeppnisnefndar samkv. þeim lögum að fjalla um IV. kafla laganna sem ber fyrirsögnina „Markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur“. Það var einkum verkefni samkeppnisnefndar að koma í veg fyrir samkeppnishömlur og stuðla að auknu frjálsræði, en hafa þá eftirlit ef um var að ræða tilhneigingu til einokunar eða samkomulag milli aðila, er selja vöru og þjónustu, um verð og aðra skilmála. Samkeppnisnefnd var skipuð formanni verðlagsráðs og þeim tveim meðlimum verðlagsráðs sem tilnefndir voru af Hæstarétti. Þarna var miðað að því, að um væri að ræða hlutlausan aðila sem allir gætu borið fullt traust til að legði hlutlægt mat á úrskurðarefnið. Ég dreg þess vegna í efa að það sé til bóta að leggja samkeppnisnefndina niður og fela verkefni hennar verðlagsráði, en auk formanns og þeirra tveggja manna er Hæstiréttur tilnefnir í verðlagsráð skipa verðlagsráð, eins og kunnugt er, menn tilnefndir annars vegar af Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og hins vegar Vinnuveitendasambandinu, Verslunarráði og Sambandi ísl. samvinnufélaga. Það liggur í augum uppi, að fulltrúar þeirra eru fulltrúar hagsmunaaðila og eiga auðvitað rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á niðurstöður, en varðandi framkvæmd þessa kafla tel ég það þó síst eiga við. Ég er þeirrar skoðunar við fljótan yfirlestur, að það sé til bóta að skipa þriggja manna nokkurs konar framkvæmdanefnd, en vek athygli á því, að það geti verið að þessu leyti til bóta að verðlagsstjóri sé formaður þeirrar nefndar, en ekki formaður verðlagsráðs, þó að það kunni að torvelda starfsemi og samstarf þessara aðila, þriggja manna nefndarinnar og verðlagsráðs.

Ég dreg í efa nytsemi þeirra ákvæða sem í þessu frv. eru og lúta að aukinni skriffinnsku og hertum viðurlögum. Ég skal þó ekki taka afstöðu til þeirra ákvæða á þessu stigi málsins, en beini því til fjh.- og viðskn. þessarar deildar, sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, að fjalla ítarlega um þessi efni frá því sjónarmiði, hvaða gagn slík ákvæði gera miðað við þá skriffinnsku sem þau fela í sér, og er almennt af hinu illa, eins og kunnugt er.

Á þessu stigi málsins skal ég ekki fjalla, nema að gefnu tilefni, frekar um þetta frv. Ég tel það til bóta að því leyti að verðstöðvun, sem ekkert gagn hefur gert og er náttúrlega hótfyndni, sbr. þá verðbólguþróun sem við höfum búið við, er þar með úr gildi fallin. Verðstöðvun getur eingöngu átt rétt á sér í mjög skamman tíma og þá eingöngu til að gefa stjórnvöldum tækifæri til þess að bregðast við óvæntri þróun og óvæntum aðstæðum og gefa stjórnvöldum tíma til að gera frambúðarráðstafanir fremur en bráðabirgðaráðstafanir eins og núv. hæstv. ríkisstj. er þekkt fyrir. Að því leyti til er þetta frv. til bóta. Annars fer það eftir framkvæmd þessara laga eða ákvæða, ef að lögum verða, hvort við stefnum í rétta átt í verðlagsmálum. Það fer eftir því, hvort meginmarkmiðið sé að efla samkeppni og stuðla að aukinni samkeppni, greiða fyrir verslunaraðilum til að auka samkeppni sín á milli í þeim tilgangi að færa húsbóndavaldið til neytenda þar sem það á heima.