22.02.1982
Neðri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er kafli um verðlagsmál og þar segir á bls. 6 að hin nýju verðlagslög komi til framkvæmda undir eftirliti verðlagsráðs, sem fái bætta aðstöðu til að gegna hlutverki sínu. Hér er um að ræða samkomulagsákvæði milli stjórnarflokkanna sem það frv. byggir á sem nú er komið til meðferðar á hv. Alþingi og hæstv. viðskrh. hefur gert grein fyrir.

Það hefur nokkuð verið rætt um meginatriði þessa frv. og ætla ég í sjálfu sér ekki að endurtaka það hér. Ég ætla þó að fara yfir þau atriði sem ég tel að séu meginatriðin í þessu frv. og ég tel að skipti þar meginmáli.

Það fyrsta er að samkeppnisnefnd er lögð niður. Samkeppnisnefnd varð til með lögunum frá árinu 1978. Hún er skipuð formanni verðlagsráðs og tveimur fulltrúum Hæstaréttar, sem eru í verðlagsráði samkvæmt þessum nýju verðlagslögum. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að það orki mjög tvímælis að láta Hæstarétt tilnefna menn í verðlagsráð, og það hefði komið til greina við meðferð málsins nú, úr því að það er tekið upp á annað borð, að fella það niður að Hæstiréttur sé með menn í verðlagsráði. Það hefur ekki orðið að ráði, heldur að samkeppnisnefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið er lögð niður, en í staðinn verður til innan verðlagsráðsins virk framkvæmdanefnd þriggja manna þar sem verkalýðshreyfingin hefur fulla aðild. Í lögunum eins og þau voru í upphafi var ekki gert ráð fyrir að verkalýðshreyfingin hefði neitt um það að segja hvernig það væri metið hvort næg samkeppni væri fyrir hendi eða ekki. Þetta frv. bætir úr veigamiklum ágalla á lögunum í þessum efnum og tryggir verkalýðshreyfingunni aðild að þessari framkvæmdanefnd verðlagsráðs. Það tel ég mjög mikilvægt atriði og gera verðlagsráð öflugra en það hefur áður verið.

Í annan stað vil ég nefna það sem mikilvæga forsendu fyrir flutningi þessa frv., að ég tel að með því fyrirkomulagi, sem þar er gert ráð fyrir, verði stuðlað að betri samstöðu um vinnubrögð í verðlagsráði en áður hafi verið. Ég tel að mjög mikilvægt sé að innan verðlagsráðs sé góð samstaða um vinnubrögð og útfærslu á einstökum ákvörðunum frá degi til dags. Ég tel að þetta frv. geti skapað lagagrundvöll að því að auðveldara verði að taka á málum á vettvangi verðlagsráðs, sérstaklega fyrir fulltrúa verkalýðssamtakanna.

Ég tel að þetta séu tvö meginatriði frv. Í þriðja lagi tel ég það meginatriði í þessu frv., að í raun og veru er enn einu sinni hafnað þeim texta sem upphaflega var í verðlagslögunum vorið 1978, en í þeim stóð þessi setning: „Þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag, skal verðlagning vera frjáls.“ Í því frv., sem hér hefur verið lagt fram, er gert ráð fyrir að heimilt sé við sérstakar kringumstæður að fella vörur undan verðlagsákvæðum, en í frv. er jafnframt gert ráð fyrir að vörurnar megi taka undir verðlagsákvæði á ný og verðlagsráð geti tekið vörurnar undir verðlagsákvæði á ný án þess að bera eingöngu fyrir sig skort á samkeppni í viðkomandi grein. Í lögunum eins og þau voru 1978 var einungis gert ráð fyrir að verðlagsráð gæti tekið vörur eða þjónustu undir ákvæði á nýjan leik að þar væri um að ræða ónóga samkeppni. Í 4. gr. þessa frv. er um að ræða víðtækari heimildir fyrir verðlagsráð í þessu efni. Það getur tekið undir ákvæði vöru, sem hefur verið felld undan ákvæðum, hvenær sem er að eigin mati. Eins og hæstv. viðskrh. gat um áðan er ætlunin að framkvæma þetta þannig, að hér verði um að ræða takmörkuð svið og kannað mjög rækilega hvaða áhrif það hefur. Ljóst er að ef áhrifin verða þau, að það hafi í för með sér stórhækkandi vöruverð í þeim greinum, sem kunna að verða felldar undan verðlagsákvæðum, þá eiga þær yfir höfði sér hvenær sem er samkvæmt einfaldri ákvörðun í verðlagsráði að þær verði með sína þjónustu eða vörur teknar undir verðlagsákvæði aftur.

Ég vil einnig nefna sem fjórða atriðið í þessu frv. það ákvæði sem kemur fram í 5. gr. þess. Þar er um að ræða skýr ákvæði varðandi meðferð á verðútreikningum. Þau málefni hafa verið í molum hér á landi um langt skeið. Verðútreikningar hafa ekki borist Verðlagsskrifstofunni fyrr en jafnvel löngu eftir að sú vara var seld sem útreikningarnir voru miðaðir við. Hún var seld og horfin úr verslununum áður en Verðlagsstofnunin fékk þessa útreikninga til yfirferðar. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að útreikningar skuli hafa borist Verðlagsstofnun eigi síðar en fimmtán dögum eftir að vara er tollafgreidd. Óheimilt er, segir ennfremur, að hefja sölu á vöru, sem háð er verðlagsákvæðum, fyrr en söluverð hennar hefur verið staðfest af Verðlagsstofnun. Einnig er óheimilt að hefja sölu á öðrum vörum fyrr en verðútreikningur er kominn til Verðlagsstofnunar. Ég tel að hér sé um að ræða mjög þýðingarmikið ákvæði fyrir Verðlagsskrifstofuna til þess að hún geti sinnt hlutverki sínu betur en raun hefur orðið á.

Í þessum umr. hefur margt komið fram sem fróðlegt væri að ræða, og ég ætla að fara yfir í nokkrum atriðum. En áður en ég kem að því vil ég nefna fimmta mikilvæga atriðið sem frv. þetta byggist á, en það er mjög efld verðgæsla frá því sem verið hefur. Verðgæsla hér á landi hefur ekki verið nægilega traust og frv. byggist á því að hún verði efld. Í framsöguræðu hæstv. viðskrh. kom fram það fyrirheit hans að stuðla að því, að verðgæsla verði mjög bætt frá því sem verið hefur.

Í þessum umr. hefur verið nefnt að prósentuálagningarkerfi hvetji ekki til hagkvæmari innkaupa. Hv. þm. Geir Hallgrímsson ræddi um að krónutöluálagning væri fráleit og i rauninni óframkvæmanleg. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé ekki rétt. Ég tel að það ætti að kanna mjög rækilega hvort ekki er unnt að koma við krónutöluálagningu í innflutningsversluninni almennt. Ég held að það ætti að gera með þeim hætti að ákveða krónutöluna eftir tilteknum reglum, sem verðlagsráð gæti komið sér saman um, og síðan verði álagningarupphæðin á hverja vöru ákveðin um svipað leyti og vara er tollafgreidd. Ég tel að hér þyrfti ekki að vera um að ræða flókið kerfi, hér væri um að ræða öruggara kerfi en verið hefur að því er varðar verðlag á innflutningsvörum. Ég er raunar þeirrar skoðunar, að ef á að hafa eitthvert raunverulegt verðlagseftirlit uppi á Íslandi verði að færa það að stórauknum hluta til yfir á innflutningsverslunina.

Árið 1979 birtist könnum, sem gerð hafði verið á vegum viðskrh., á innflutningsversluninni í landinu. Þá kom í ljós að innflutningsverð til Íslands var talið 10–15% hærra en til annarra landa á Norðurlöndum. Menn höfðu auðvitað uppi ýmsar skýringar á því, af hverju þetta stafaði, en staðreyndin lá þarna fyrir, að þjóðarbúið varð að greiða með gjaldeyri sínum verulegar upphæðir fyrir óhagkvæm innkaup til landsins. Ég tel að þessi könnun sé mjög mikilvægt plagg að hafa til hliðsjónar þegar fjallað er um málefni innflutningsverslunarinnar. Innflytjendur bera því við, að þetta sé svona vegna prósentuálagningarkerfisins. Ég segi: Það er ekki viðbára sem er gild. Auðvitað væri þeim í lófa lagið að halda sig við lög og reglur í þessum efnum, og auðvitað ættu þeir ekki að taka umboðslaun erlendis af þeim vörum sem þeir eru að flytja inn. Hvernig stendur á því, að mennirnir gera þetta, og hvað heitir svona umboðslaunataka, peningataka í eigin þágu, á mæltu máli? Hvernig stendur á því, að þeir þm. Sjálfstfl., sem tala gjarnan digurbarkalega um málefni verslunarinnar, eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson, hafa engar áhyggjur af því, að innflutningsverslunin tekur til sín hundruð milljóna króna með allt of háu vöruverði inn í landið? Ég spyr hann alveg sérstaklega vegna þess, að hann þekkir þetta betur en ýmsir aðrir þm., vegna þess að hann á aðild að fleiri heildsölufyrirtækjum en flestir aðrir þm., gæti ég trúað, og þá ekki að undanskildum hv. þm. Albert Guðmundssyni. En áhyggjur þeirra hafa aldrei komið fram í þessum efnum. Þeir hafa komið hér fram með ýmis ummæli um að þeir hafi áhyggjur af þessu og hinu í okkar efnahagslífi, en það hefur aldrei heyrst á þessum hv. þm. að þeir hafi minnstu áhyggjur af því, að innflutningsverslunin sé að hirða hér tugi ef ekki hundruð millj. kr. umfram það sem eðlilegt og nauðsynlegt er ef með skaplegum hætti væri staðið að innflutningsverslun í landinu.

Ég held þess vegna, að þær hugmyndir, sem hafa verið uppi um krónutöluálagningu í innflutningsverslun, séu mjög skynsamlegar. Ég tel að á þeim viðhorfum byggist það, sem fram hefur komið í yfirlýsingum ríkisstj., m.a. 31. des. 1980, að athuga eigi krónutöluálagningu í auknum mæli og beita henni þar sem því verður við komið. Ég tel að það sé í raun og veru ekki eins flókið mál að koma krónutöluálagningu við í innflutningsverslun og sumir hafa viljað vera láta.

Í ræðu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar kom það fram, að rætt hefur verið um að reynt verði að stuðla að innkaupum á vörum með opinberri íhlutun, þannig að t.d. verði boðnir út stórir vöruflokkar og kannað hvort hægt er að fá þá á hagkvæmara verði til landsins, eins og timbur, svo ég nefni dæmi, eða steypustyrktarjárn eða því um líkt. Það kom fram í máli hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, að hann gerir sér vonir um að menn væru alveg horfnir frá því að reyna að framkvæma þetta. Ég vil hugga hann með því, eða hryggja eftir atvikum, að það hefur ekki verið horfið frá því. Hæstv. fjmrh. hefur farið þess á leit við Innkaupastofnun ríkisins að hún kanni þetta mál alveg sérstaklega, og sú könnun hefur verið í gangi um nokkra hríð. Við teljum að með þessu móti mætti jafnvel veita innflutningsversluninni hér verulegt aðhald og tryggja að innflutningur á stórum og þýðingarmiklum neysluvörum hér í landinu verði hagkvæmari en verið hefur. Það er alveg greinilegt að samkeppnin, þó að hér væru 2 þús. heildsalar eða 20 þús., dugir ekki í þessum efnum. Hún dugir ekki, þessi margrómaða frjálsa samkeppni, því að reynslan sýnir að innflutningsverslunin á Íslandi er baggi á þjóðarbúinu, er einhver dýrasti þátturinn í íslenska þjóðarbúinu, og þess vegna teljum við að það væri skynsamlegt og nauðsynlegt að stuðla að því að fá fram samanburð við hina svokölluðu frjálsu innflutningsverslun með opinberum innkaupum á stórum vöruflokkum. Þetta held ég að sé rétt að komi hér fram út af ummælum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að það væri nauðsynlegt að færa húsbóndavaldið í verðlagsmálum til neytenda. Auðvitað kann þetta að hljóma býsna vel, en það er ekki það sem hann er að tala um og „ kollegar“ hans í forustu verslunarstéttarinnar hér á Íslandi. Þeir hafa áhuga á að fá sjálfir að ráða hversu mikið þeir taka inn fyrir að selja hverja tegund af vöru. Það er það sem þeir vilja. Það er leiðarljós gróðans, en ekki hagsmunir neytendanna, sem þessir menn eru með í huga. En þeir vefja þetta inn í falleg orð og fallegar setningar, eins og þær, að hagsmuni neytenda eigi að hafa að leiðarljósi og þeir eigi að fá að ráða vöruverðinu sjálfir, eins og þeir geti gengið inn í verslun og sagt: Ég vil að þetta kosti þetta, en ekki hitt. — Þetta er auðvitað endileysa. Hér eru menn að breiða yfir þann tilgang, sem í raun leynist á bak við hina pólitísku stefnu Sjálfstfl., að hér eigi að vera um að ræða frjálsa gróðamyndun í landinu. Það er það sem fyrir þeim vakir og ekkert annað.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson rakti í nokkrum orðum að verðstöðvun hefði misheppnast í raun og veru hér. Það er nokkuð mikið til í því. Ég tek undir að það hafa verið í lögum verðstöðvunarákvæði árum saman, á sama tíma og verð hækkar í þeirri verðbólgu sem hér hefur verið. Þegar menn eru með slík ákvæði í gildi árum saman eru menn í raun og veru að segja að þeir setji reglur sem þeir sjálfir taki ekki ýkjamikið mark á. Ég tel því að þessi verðstöðvunarákvæði, eins og þau voru sett í lög í upphafi af viðreisnarstjórninni árið 1970 og héldust síðan alllengi það mikla verðbólgutímabil, sem við höfum lifað síðustu árin á Íslandi, hafi í raun og veru gengið sér til húðar, þau segi rangt til, nafnið segi rangt til um staðreyndir verðlagsmálanna á Íslandi, og þess vegna eigi menn ekki að vera að halda í slíkt og í rauninni geti falist í slíkum orðaleik viss blekkingastarfsemi þegar öllu er á botninn hvolft. Ég held þess vegna að það sé einfaldlega ekkert annað en núv. hæstv. ríkisstj. hafi verið að viðurkenna staðreyndir með því að fella úr gildi það sem heitir verðstöðvunarákvæði, vegna þess að verðstöðvunarákvæði standast að sjálfsögðu ekki í þeirri miklu verðbólgu sem hér hefur verið.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék í fyrsta lagi að samráði við verkalýðssamtökin og aðra aðila um frv. þetta. Um það vil ég segja að óformlegar viðræður hafa staðið yfir um þessi mál um langt tímaskeið milli aðila að verðlagsráði. g vil hins vegar ekki kalla það fullt formlegt samráð, og ég óska eftir því við hv. fjh.- og viðskn. Nd., að hún leiti samráðs um efni þessa plaggs. Auðvitað er það þannig, að ríkisstj. leggur fyrir þingið tiltekna tillögu. Það er ekki þar með sagt að sú tillaga sé orðin að lögum. Málið fer til meðferðar á Alþingi og það er leitað eftir umsögnum og afstöðu hagsmunasamtaka í landinu til viðkomandi frv. eða tillögu, og þegar sú afstaða liggur fyrir er um að ræða hið endanlega samráð sem þarf að hafa í þessum efnum.

Hv. þm. nefndi það, að samráðskafli Ólafslaga heyrði undir félmrh. Það er ekki rétt. Reglugerðin um samráð er gefin út af forsrn. Reyndar er hún gefin út af hv. þm. Benedikt Gröndal, samflokksmanni hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Það er e.t.v. von að hann sé búinn að gleyma því. En hv. þm. var í ríkisstjórn með Benedikt Gröndal um tíma. Hún var ekki lengi sú stjórn sem betur fer. En það er sama, hún kom einu og öðru frá sér. M.a. var gefin út þessi reglugerð og hún var gefin út af forsrh., en ekki af þáv. félmrh.

Hv. þm. ræddi mjög um að það hefði verið vafasöm ákvörðun að leyfa hækkun á birgðum vegna gengisuppfærslu. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hafði frá verðlagsstjóra þegar ég var í viðskrn, var talið að verulegur hluti innflytjenda færði upp birgðir þá þegar eftir gengi án þess að það hefði formlega verið leyft, það væri í raun og veru undantekning að menn hlýddu þarna lögum og reglum. Ég hefði gaman af að það yrði kannað - hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gæti vafalaust óskað eftir því eins og ég að það verði kannað- hver hafa orðið verðhækkunaráhrifin af þeirri gengisuppfærslu á birgðum sem heimiluð var nú nýverið. Ég hygg að þau hafi í raun orðið mjög lítil vegna þess að menn voru farnir að „praktísera“ þetta áður í stórum stíl. En það væri fróðlegt að kanna, hvaða útkoma hefur orðið úr því, og þá að taka ákvarðanir á ný samkv. niðurstöðum þeirrar könnunar. Ef sú könnun leiðir í ljós að þarna hafi verið um verulegar verðhækkanir að ræða skal ekki standa á mér að standa að samþykkt um að það verði afnumið að menn fái heimild til að færa upp vörubirgðir eftir gengisbreytingu.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék nokkuð að neytendamálum og neytendasamtökum og lagalegum rétti neytenda, og ég tek undir margt af því sem hann sagði. Það hefur lítið þokast í þeim efnum. Hér á hv. Alþingi hafa fá mál verið sem snert hafa neytendur. Ég vil nefna eitt mál sem komst í gegnum einar fimm umr. hér í þinginu vorið 1979 og ég tel vera stórt framlag til neytendaverndar á Íslandi. Það var frv. sem ég flutti þá sem viðskrh. um afborgunarkaup, sem gerði ráð fyrir að ekki væri lengur heimilt að hafa svokallaðan tvöfaldan eignarréttarfyrirvara þegar um afborgunarkaup er að ræða, þar sem menn taka bæði veð í hlutnum, sem þeir eru að selja, og víxil líka. Ég held að það sé eitt stærsta neytendamálið á Íslandi að koma skipun á afborgunar­ kaup í landinu, þar sem fólk er látið leggja fram tvöfalda tryggingu fyrir þeim hlut sem það er að kaupa á hverjum tíma. Því miður hefur þetta frv. ekki náð lengra en það gerði vorið 1979, en ég tel að þetta sé í raun og veru eitt stærsta neytendamálið.

Annað mál, sem ég tel mjög stórt í þessu sambandi, er að efla neytendasamtökin og gefa þeim kost á stuðningi af hálfu opinberra aðila til starfsemi sinnar. Þar hefur orðið veruleg aukning á síðustu árum frá því sem var. Fleiri neytendafélög hafa verið stofnuð á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Ég tel það mjög ánægjuleg tíðindi. Aðalatriðið er þó auðvitað það í sambandi við neytendasamtökin að þan séu sjálfstæð samtök og ekki háð ríkisvaldinu varðandi sína starfsemi nema að því leyti að ríkisvaldið leggi þeim til stuðning og þá sérstaklega til að stofna nýjar neytendadeildir hér og þar i landinu þar sem þær eru ekki starfandi. Í þessu sambandi má minna á að það hefur verið rætt um og gefnar um það yfirlýsingar, að taka eigi upp samstarf við verkalýðshreyfinguna í þessu efni varðandi eftirlit með vöruverði. Mér er kunnugt um að það hefur sums staðar verið gert og gefist allvel. Ég held að þarna sé um að ræða mjög marga og fjölþætta möguleika til verðgæslu og til að fylgjast með vöruverði í landinu og þar eigi neytendasamtökin og verkalýðssamtökin að koma til. Það eru þau samtök sem helst hafa þarna raunverulega hagsmuna að gæta.

Almennur lagalegur réttur neytenda hér á Íslandi er auðvitað ákaflega losaralegur. Hér erum við með í gildi áratugagömul lög, allt að því hálfrar aldar gömul lög, um réttarstöðu neytenda í landinu við lausafjárkaup og fleira. Ég er sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að þessi mál þarf að skoða miklum mun betur en gert hefur verið á undanförnum árum hér á landi.

Að lokum, herra forseti, vil ég láta það koma fram sem meginatriði máls míns að lögin frá vorinu 1978 eru ekki að koma til framkvæmda með frv. þessu. Hér er um að ræða aðra uppsetningu 8. gr. en þau lög gerðu ráð fyrir. Það er þess vegna rétt sem fram kom hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni í þessum efnum, því að í 8. gr. laga nr. 56 1978 var orðalagið þetta, sem ég endurtek að lokum: „Þegar samkeppni er nægileg til að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag skal verðlagning vera frjáls“. — Orðalagið á því frv., sem hér liggur fyrir, er með allt öðrum hætti.

Ég vil svo að allra síðustu taka undir það, herra forseti, sem hér hefur áður verið nefnt af mér og öðrum, að auðvitað verður þetta mál að fara til umsagnar hjá hagsmunaaðilum, sérstaklega verkalýðssamtökunum sem hér eiga stærstra hagsmuna að gæta.