22.02.1982
Neðri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Mér sýnist af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið um þetta frv., að menn séu nokkuð á einu máli um það, að með því og yfirlýsingu ríkisstj. í verðlagsmálum stígi menn skref fram á við í þessum efnum, þó að menn deili um hve stór þau skref séu. (Gripið fram í: Það verður framkvæmdin að sýna.) Að sjálfsögðu skal ég taka undir það með hv. þm. Geir Hallgrímssyni, að framkvæmd laganna er auðvitað mjög veigamikið atriði, eins og framkvæmd allra laga, en ég hef áður gert grein fyrir því, hver sé stefna ríkisstj. um framkvæmd laganna.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson minntist dálítið á niðurtalningu, og mig langar til þess að segja örfá orð um það mál. Um þá stefnu þarf ég ekki að fjölyrða, við höfum lýst henni í Framsfl. á opinberum vettvangi um langan tíma. Við erum þeirrar skoðunar, að stefna niðurtalningar verðbólgu sé líklegasta leiðin til þess að minnka verðbólguna án þess að það valdi mjög mikilli röskun í efnahagskerfinu og á högum manna.

Með efnahagsáætluninni, sem samþykkt var um áramótin 1980–1981, voru ákveðnar niðurtalningaraðgerðir, þó að það væri ekki nákvæmlega með þeim hætti sem við í Framsfl. höfum sett fram. Þá var ákveðið að hafa ríkt aðhald í verðlagsmálum og með gjaldskrám þjónustufyrirtækja. Það var ákveðið að lækka skatta á lægri tekjum. Það var ákveðið að lækka aðflutningsgjöld talsvert verulega, m.a. afnám aðlögunargjaldsins o.fl. Það var tvívegis framkvæmd lækkun á vöxtum, og það var lækkun á fjármagnskostnaði. Síðan var ákveðið að skerða verðbætur á laun, eins og kunnugt er, í einum áfanga 1. mars 1981 um 7%. Það var mikið aðhald að fiskverði og gengismálum og peningamálum og raunar einnig fjármálum ríkisins, þannig að á síðasta ári, sérstaklega fram eftir árinu, var niðurtalningarstefnan raunverulega í framkvæmd, þó að hún hafi ekki verið nákvæmlega með þeim hætti sem við mundum kjósa ef við réðum því máli einir. Og hver varð niðurstaðan af þessu tímabili ef litið er á verðbólguna? Niðurstaðan varð sú, að í staðinn fyrir að verðbólga stefndi i 70–80% að því er spáð var seinast á árinu 1980, þá var ekki um það deilt að hún væri 40% í ágústmánuði s.l., 40.2% sagði Seðlabankinn að verðbólgustigið væri þá. Ég skal hins vegar viðurkenna það, að þessar niðurtalningaraðgerðir fjöruðu út seinast á árinu og þeim var ekki fylgt eftir eins og skyldi. Eigi að síður varð niðurstaðan sú, að verðbólga frá upphafi til loka ársins 1981 var 41.1%, samanborið við 59.9%, að ég ætla, árið 1980. Þetta sýnir einmitt að stefna niðurtalningar í viðureigninni við verðbólguna hefur skilað góðum árangri.

Nú hefur ríkisstj. ákveðið skammtímaaðgerðir í efnahagsmálum, eins og kunnugt er, og síðan kerfisbreytingar i okkar efnahagslífi. Ég vona að niðurstaðan úr þeim viðræðum og samningum verði sú, að menn beiti áfram niðurtalningaraðferðinni í baráttunni við verðbólguna, og vonast til að það skili eins góðum árangri og raun varð á árið 1981.

Það er rétt hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni, að aðalreglan samkv. þessu frv. er ekki sú, að allt verðlag skuli vera frjálst. Það er rétt. Þó að ég sé fylgjandi frjálsræði í þessum málum er ég ekki fylgjandi því og tel ekki hyggilegt að gefa algjört frelsi í þessum málum, miðað við það ástand sem ríkir í okkar efnahagslífi, og gera það í einu vetfangi. Ég held að það sé miklu skynsamlegri stefna sem boðuð er í þessu frv. og raunar einnig í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., að framkvæma þetta í áföngum og að jafnframt komi til mjög aukin og efld verðgæsla og verðlagseftirlit til þess að fylgjast með því sem þarna kann að gerast.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ræddi nokkuð um það, hvort samráð hefði verið um þetta mál. Ég get upplýst það, að eftir að ríkisstj. hafði samþykkt í marsmánuði 1981 að ef innflytjandi felldi niður umboðslaun erlendis fengi hann hækkun álagningar hér heima, ef hann gæti sýnt fram á að vöruverð yrði lægra, féllust fulltrúar launþega í verðlagsráði ekki á að heimila Verðlagsstofnun að framkvæma samþykkt ríkisstj. fyrr en fram hefðu farið innan ráðsins umræður um núverandi verðlagningarkerfi á víðari grundvelli en samþykkinn gaf beint tilefni til. Ég vildi ekki knýja þessa samþykkt fram í verðlagsráði nema sæmileg eining væri um það. Síðan hafa farið fram umræður um þetta mál og ég er að gera mér vonir um, eins og kom fram í minni framsöguræðu, að það verði sæmilegt samkomulag um framkvæmd þeirrar stefnu sem hér er boðuð.

Varðandi verðhækkunaráhrif gengisuppfærslunnar hefur Verðlagsskrifstofan upplýst að þau hafi verið sáralítil. Það stafar sennilega af því að menn hafa gert þetta áður í trássi við reglur. Áhrifin eru svo lítil að þeir hafa ekki treyst sér til að mæla þau t.d. í vísitölu.

Varðandi lög um afborgunarkaup, sem komu hér inn i umr., get ég upplýst að það mál er í undirbúningi. Það er fær lögfræðingur, sem vinnur að því að undirbúa það mál, sá færasti sem völ er á, og ég á von á að þeim undirbúningi skili það áfram að ekki líði mjög langur tími þangað til menn geta lagt fram frv. (GeirH: Það er gott að ráðh. getur upplýst „kollega“ sinn um þetta á þingfundi). Það er ekkert leyndarmál, enda stendur í núv. stjórnarsamningi, að sett skuli ný lög um afborgunarkaup, að því er mig minnir. (Gripið fram í: Það er rétt.) Ég held að það sé svo. Það hefur verið haft til hliðsjónar sem hefur verið að gerast í nálægum löndum um þessi mál. Að sumu leyti er þetta auðvitað pólitískt mál, þetta er neytendaverndarmál, en öðrum þræði er þetta tæknilegt mál og nokkuð flókið og vandasamt mál til undirbúnings.

Ég er sammála því sem hefur komið fram hér hjá öðrum þm., að frjáls neytendasamtök sé nauðsynlegt að efla. Ég get upplýst það, að á seinasta ári hækkuðu framlög til Neytendasamtakanna talsvert og samvinnan við þau hefur verið stórlega aukin í ýmsum efnum. M.a. fóru fram á seinasta ári verðlagskynningar, og var það gert í samráði við Neytendasamtökin, — viðamiklar verðlagskynningar sem vöktu nokkuð mikla athygli. Í þessum verðlagskynningum kom fram að það er býsna mikill munur á verðlagi í verslunum í landinu, þó að það eigi að vera opinber stimpill sem stimplar verðlagið. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að sjálfsögðu, miðað við okkar ástand í efnahagsmálum.

Hugmyndin er að efla verðkynninguna verulega sem lið í verðgæslunni og auka samstarf við Neytendasamtökin. Það má kannske segja með réttu að Neytendasamtökin hjá okkur séu ekki nógu virk. Það stafar m.a. af því, hvað menn hafa átt erfitt með að fóta sig í því mikla verðbólguflóði sem við búum við.

Varðandi einstök atriði frv. hefur borið nokkuð á góma svokallaða þriggja manna nefnd sem á að setja á fót samkv. frv. Þessi nefnd á að vinna með verðlagsstjóra — hann er formaður hennar — að undirbúningi mála fyrir fundi verðlagsráðs. Nefndin hefur ekki tillögurétt til verðlagsráðs heldur hefur verðlagsstjóri þann tillögurétt áfram. Það er ekki nauðsynlegt samkv. lögunum að það séu verðlagsráðsmenn, sem sitji í þriggja manna nefndinni, heldur verði þeir tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands ásamt verðlagsstjóra, sem verður formaður nefndarinnar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar þetta mál að sinni, en vil undirstrika það sem ég sagði áður, að mér sýnist umr. um málið benda til þess, að stefna ríkisstj. og framlagning þessa frv. séu skref í rétta átt, menn séu sammála um það, þó að menn deili um hversu skrefið er stórt og hversu hratt mönnum skili áfram. En ég er sammála því sem komið hefur fram, að það er að sjálfsögðu mikið undir framkvæmdinni komið og samkomulagi um þessi málefni.