23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

181. mál, íþróttaþættir sjónvarpsins

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram hér á hinu háa Alþingi svohljóðandi fyrirspurn til menntmrh. um efni í íþróttaþáttum sjónvarpsins:

„1. Hve lengi var erlent efni sýnt í íþróttaþáttum sjónvarpsins á árunum 1980 og

1981?

2. Hve lengi var innlent efni sýnt í íþróttaþáttum sjónvarpsins á árunum 1980 og 1981?

3. Hve mikið var greitt fyrir þetta efni, annars vegar erlent, hins vegar innient?

4. Hvernig skiptist greiðsla fyrir innient efni milli einstakra íþróttagreina hvort ár um sig?“

Það er sjálfsagt öllum ljóst, að það er ákaflega mikilvægt hvaða stefnu íslenska sjónvarpið tekur í birtingu íþróttaefnis. Íþróttir eru í vaxandi mæli almenningseign og íþróttagreinarnar eru fjölmargar. Auðvitað vita allir um mikilvægi þess fyrir hverja íþróttagrein fyrir sig, að hún komist að i þessum þáttum og henni séu gerð viðhlítandi skil þar. Það er mikilvægt að íslenska sjónvarpið kynni hinar ýmsu íþróttagreinar, sem iðkaðar eru í landinu og sérstaklega innan vébanda ÍSÍ, og stuðli þannig að því að vekja áhuga á þessum greinum og flytji reglulegar fréttir af því sem gerist á þessum vettvangi.

Auðvitað er það ekki síður mikilvægt fyrir þessar íþróttagreinar að ná viðunandi samningum við Ríkisútvarpið þannig að nokkur greiðsla komi fyrir það efni sem um er að ræða. Jafnframt því sem auðvitað er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast vel með þeim íþróttaviðburðum sem gerast á erlendri grund og ekki hafa síður það að marki að efla og auka hér áhuga, þá er mjög mikilvægt að þeir, sem með þessi mál fara á vegum íslenska sjónvarpsins, geri sér fyllilega ljóst að þeirra hlutverk er að kynna íslensku greinarnar, kynna íþróttaviðburði innanlands og gera það eftir bestu vitund, svo að sem jafnast komi niður á hinar ýmsu íþróttagreinar.

Ríkisútvarpið hefur gert rammasamning við Íþróttasamband Íslands og öll sérsambönd innan þess um birtingu á íþróttaefni hinna ýmsu sérsambanda. Í þessum rammasamningi, sem er frá 20. jan. 1981, er svo kveðið á að gerður skuli sérsamningur við hvert sérsamband. Úr þessu hefur þó ekki orðið nema við örfá sérsambönd og er það starf óunnið að ganga frá samningi við nokkuð mörg sambönd. Ekki verður í fljótu bragði séð á hverju stendur — eða hvernig stendur á því að ekki skuli hafa verið gengið frá slíkum sérsamningi þrátt fyrir ákvæði rammasamnings um að svo skuli gert?

Ég hef flutt þessa fsp. hér í samráði við og að beiðni nokkurra forustumanna innan íþróttahreyfingarinnar vegna þess að mér skilst að treglega hafi gengið að fá þessar upplýsingar fram, þrátt fyrir ákvæði rammasamnings um að slíkar upplýsingar skuli liggja fyrir.

Ég vonast til þess, að menntmrh. leysi greiðlega úr þessu máli og upplýsi þær staðreyndir sem beðið er um í fsp.