23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

181. mál, íþróttaþættir sjónvarpsins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég held að ég hafi svaráð þessum fsp. eins og þær lágu fyrir. Ég sá ekki ástæðu til að fara hér út í almennar umr. um þessi efni. Auðvitað er sjálfsagt að beina til ráðh. öllu því sem þm. bera fyrir brjósti, og það er alveg sjálfsagt mál að ég kynni mér nánar hvernig á stendur um samningamál á milli íþróttahreyfingarinnar og Ríkisútvarpsins. En ég held að ég geti sagt það alveg ærlega hér, að það hefur ekkert verið borið undir mig í þeim efnum. Hins vegar stendur í bréfi sem ég hef — og ég vil ekki leggja meira út af því en þar stendur:

„Árið 1980 náðist ekki heildarsamningur við Íþróttasamband Íslands eða sérsambönd innan þess almennt.“ Og síðan: „Árið 1981 náðust samningar við fimm sérsambönd og byggðust á rammasamningi sem Ríkisútvarpið gerði við Íþróttasamband Íslands og öll sérsamböndin 22. jan. 1981.“

Samkv. tilmælum hv. fyrirspyrjanda er sjálfsagt að ég kynni mér nánar hvað hér er um að ræða. Þessi samningur hefur ekki verið borinn undir rn. beinlínis, og ég minnist þess ekki, að íþróttahreyfingin hafi kvartað sérstaklega um þetta. En að gefnu þessu tilefni skal ég kynna mér nánar hvernig á stendur um þessa samningagerð og hvort þarna er um að ræða einhvers konar vanefndir eða vandræðalega framkvæmd á samningi sem gerður hefur verið.