23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

181. mál, íþróttaþættir sjónvarpsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hér er spurt um veigamikið efnisatriði í sjónvarpi. Hv. þm. spyr ráðh. og finnst að samningar hafi ekki gengið fram, en ráðh. færist undan ábyrgð og segir að hann hafi aldrei séð þessa samninga. Mér finnst vanta eitt atriði í þetta sjónarspil þeirra tveggja, og það er að útvarpsráð tekur ákvarðanir um efni útvarpsins og ákvarðanir þess eru endanlegar. Það er því ekki hægt að ásaka hæstv. ráðh. fyrir neitt af þessu tagi og á að beina því til útvarpsráðs. Hins vegar er leið okkar í þinginu til útvarpsráðs og eins Ríkisútvarpsins auðvitað um ráðh. sem fer með mál stofnunarinnar. En þetta mál verður útvarpsráð að svara fyrir. Það ber samkv. lögum, sem við settum fyrir 12 árum, endanlega ábyrgð á efni útvarpsins.