23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

181. mál, íþróttaþættir sjónvarpsins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég átta mig satt að segja ekki á því, að hér hafi verið sett sjónarspil á svið. Einn hv. þm. spyr ráðh. tiltekinna spurninga og þeim hefur verið svarað á þann hátt sem ráðh. — í þessu tilfelli ég — hafði möguleika til. Ráðið var einfaldlega það, að ég sneri mér til Ríkisútvarpsins sjálfs og fékk svör við þessum spurningum. Síðan hefur hv. fyrirspyrjandi bætt við fsp. hér í umr., sem komu mér nokkuð á óvart, um samning eða samninga sem ættu að vera í gildi á milli Ríkisútvarpsins og íþróttasamtakanna. Ég upplýsti að ég hefði ekki verið spurður um þessa samninga, þeir ekki verið bornir undir mig. Ég hef ekki orðið var við að íþróttahreyfingin reyndi neitt til að vekja sérstaklega athygli mína á því máli. Hins vegar upplýsti ég að ég skyldi hugleiða hvort ástæða væri til fyrir ráðh. að kanna hvort Ríkisútvarpið héldi ekki samninga. Mér þætti það ákaflega hart ef menn færu á þessu stigi að gefa í skyn eða telja einhverjar líkur fyrir því, að útvarpið héldi ekki samninga sína. Ég held að það sé ekkert fram komið um það efni og þessum umr. megi ekki ljúka svo að hv. þm. eða aðrir, sem á hlýða, fái á tilfinninguna að Ríkisútvarpið haldi ekki samninga sína eða vinni slælega að gerð eðlilegra samninga. Ég held að það sé mjög ólíklegt, að þetta sé tilfellið um Ríkisútvarpið. — En sem sagt: Ég mun sem áður svara því til vegna þeirrar fsp. sem kom frá hv. fyrirspyrjanda, að ég skal kanna hvort eitthvað það sé í þessu máli sem hægt sé að hraða eða bæta úr.

Rétt er það sem hv. þm. Benedikt Gröndal tók hér fram, að hér er um dagskrárefni að ræða sem heyrir undir útvarpsráð. Ég hef forðast eins og heitan eldinn — og ég vona að aðrir ráðherrar hafi gert það — að grípa inn í dagskrárgerð, en þó held ég að þarna sé mjótt á munum og ekki óeðlilegt að ráðh. fylgist með í máli sem þessu, hvernig samningum er háttað milli Ríkisútvarpsins og voldugra samtaka, svo sem íþróttasamtaka og annarra menningarsamtaka í landinu.